fbpx
Miðvikudagur 17.september 2025
Fréttir

Margir minnast Birgis – „Yljum okkur við minningarnar“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 29. ágúst 2019 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Birgir Sigurðsson lést þann 9. ágúst, á 82. aldursári. Birgir er einna þekktastur fyrir leikritið Dagur vonar en sjónvarpsuppfærsla af því hefur verið sýnd margoft. Birgir skrifaði fjölmörg önnur merkileg leikrit sem vöktu athygli og hrifningu leikhússunnenda, má þar nefna Graðmaðk og Pétur og Rúna.

Birgir vakti fyrst athygli með ágengum ljóðabókum þar sem meðal annars var ort gegn stríðsrekstri. Síðan sneri hann sér að leikritun. Birgir hefur einnig sent frá sér nokkrar skáldsögur og tvö smásagnasöfn. Skáldsaga hans Hengiflugið, sem kom út árið 1992, vakti þá mikla athygli og þótti vera mjög nöpur ádeila á líf Íslendinga í nútímanum.

Nokkrar minningargreinar birtust um Birgi í Morgunblaðinu í dag. Þar er farið fögrum orðum um mikilsvert framlag Birgis til náttúruverndar á Íslandi. Árni Finnsson, formaður stjórnar Náttúruverndasamtaka Íslands, ritar til dæmis:

„Birgir var lítið fyrir að baða sig í sviðsljósinu í náttúruverndarbaráttunni en afar virkur á bak við tjöldin og traustur sem ráðgefandi og skipuleggjandi. Hann bjó að langri reynslu í þessum efnum. Fyrst í Gnúpverjahreppi um og upp úr 1972 þar sem hann sinnti kennslu og skólastjórn, en þá hófst baráttan fyrir verndun Þjórsárvera sem Birgir beitti sér fyrir af miklum móð. Í seinni tíð kom Birgir töluvert að starfsemi Náttúruverndarsamtaka Íslands sem hann studdi með ráðum og dáð allt frá stofnun samtakanna árið 1997.

Ég átti því láni að fagna að kynnast Birgi og Elsu á tíunda áratugnum þegar baráttan stóð sem hæst um Eyjabakka og umfangsmiklar virkjanahugmyndir norðan Vatnajökuls. Með okkur tókst einlægur og gefandi vinskapur. Við deildum lífssýn, skeggræddum málin og ræktuðum sambandið með heimsóknum, matarboðum og ferðalögum um stórbrotna og undurfagra náttúru Íslands. Við Helga yljum okkur við minningarnar og eigum, eins og þjóðin öll, Birgi mikið að þakka fyrir mikilvægt framlag hans á sviði ritstarfa, leikhúss og náttúruverndar.“

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, skrifar um leikrit Birgis:

„Verk Birgis höfðu afgerandi áhrif á mig á mínum mótunarárum. Þegar ég var unglingur fékk ég mikinn áhuga á leikritun og dvaldist tímum saman á Borgarbókasafninu við Þingholtsstræti þar sem ég drakk í mig ýmis leikrit, þar á meðal verk Birgis. Ég las Dag vonar óteljandi sinnum, kunni það nánast utan að og þegar verkið var sýnt í sjónvarpi tók ég það upp á VHSspólu sem ég horfði á þangað til spólan slitnaði. Birgir og hans skrif eiga stóran þátt í því að ég ákvað að nema leikhúsfræði og verða leikstjóri. Það var mér því einstök ánægja að eiga hlutdeild í því þegar Birgir var gerður að heiðursfélaga Leikfélags Reykjavíkur árið 2017.“

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands skrifar:

„Birgir Sigurðsson rithöfundur er fallinn frá. En verk hans lifa og þær ómetanlegu gjafir sem hann gaf okkur þjóð sinni eru gersemar sem við fáum seint fullþakkað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Andri bendir á hatrið sem Charlie Kirk boðaði – „Hugnaðist til dæmis ekki að sitja í flugvél með svörtum flugmanni“

Andri bendir á hatrið sem Charlie Kirk boðaði – „Hugnaðist til dæmis ekki að sitja í flugvél með svörtum flugmanni“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Kynbundið ofbeldi grasserar í netheimum – „Síðan ertu einhvern veginn hvergi óhult“

Kynbundið ofbeldi grasserar í netheimum – „Síðan ertu einhvern veginn hvergi óhult“
Fréttir
Í gær

Gauti telur að fíkniefni ættu að fást í sérverslunum – „Ekki að segja að það eigi að vera aðgengilegt í matvöruverslunum eins og Melabúðinni“

Gauti telur að fíkniefni ættu að fást í sérverslunum – „Ekki að segja að það eigi að vera aðgengilegt í matvöruverslunum eins og Melabúðinni“
Fréttir
Í gær

Formaður Afstöðu vill náða Kourani strax – Ástæðan er einföld

Formaður Afstöðu vill náða Kourani strax – Ástæðan er einföld