Guðrún Silja, skólastjóri Öskju, leikskóla Hjallastefnunnar í Öskjuhlíðinni, skrifar á Facebook-síðu Hjallastefnunnar um málið. Þar segir hún börnin borða grænmetisréttina með bestu lyst en þó sé auðvitað smekkur manna misjafn.
„Á boðstólnum eru grænmetisréttir stundum tvisvar í viku sem börn frá 12 mánaða – 11 ára og kennararnir þeirra borða saman af bestu lyst, auðvitað misvel eins og við erum misjöfn því það gengur víst ekki eitt yfir alla. Vinsælasti rétturinn er t.d. spínatpasta með ferskum parmesanosti og grænmetislasagna kemur þar fast á eftir. Fiskur er afar vinsæll líka og uppáhalds meðlætið með honum er avókadóbaunasalat með kóríander.
Með færslunni birtir Guðrún matseðilinn fyrir vikuna hjá 7 skólum í Hjallastefnunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún bendir á að hægt sé að skoða matseðla fyrir skólana margar vikur aftur í tímann. Þegar matseðlarnir eru skoðaðir má sjá að maturinn er mjög fjölbreyttur og auk þess er mikið um grænmetisrétti.
Guðrún segir allan matinn vera eldaðann frá grunni í Hjallastefnunni en þar er mikið gert upp úr því að börnin fái góðan mat.
„Allt er þetta eldað frá grunni í pínulitlu eldhúsi beint frá hjartanu af tveimur snillingum sem brenna fyrir því að börn borði hollan, góðan og fjölbreyttan mat í skólanum sínum.“
Í lok færslunnar bendir hún fólki á því að börn geti borðað mat af öllum gerðum.
„Já krakkar mínir, kraftaverkin gerast nefnilega. Börn geta borðað allskonar mat.“