„Ég er gjörsamlega orðin kjaftstopp og þá er nú mikið sagt,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Inga hefur lengi gagnrýnt stefnu meirihlutans í Reykjavík í samgöngumálum og talað fyrir greiðari leið einkabílsins.
Tilefni þess að Inga er nú kjaftstopp er frétt og myndband sem birtist á mbl.is í morgun. Þar voru birtar loftmyndir frá Vesturlandsveginum sem syndu glöggt þá miklu umferð sem er úr Mosfellsbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal á morgnana.
Inga segir á Facebook-síðu sinni:
„Þá hefst martröðin að koma sér í vinnunna. Við sem búum ekki í 101 sitjum sannarlega ekki við sama borð og BORGARSTJÓRINN. En það er í hans umboði sem öll þessi óreiða, tafir og pirringur er í reykvískri umferðarteppu í dag. Gengur það langt að höggva hægri beygjuna frá Snorrabraut inn á Sæbraut. Á hvaða vegferð er þessi borgarstjórn eiginlega ? Ég er gjörsamlega orðin kjaftstopp og þá er nú mikið sagt.“
Inga hefur áður tjáð sig um umferðarmálin í borginni og gagnrýnt. Í október í fyrra birti hún myndband sem hún tók þegar hún sat föst í umferðarteppu.
„Það er nú kannski kominn tími til að fara að hætta að grobbast af því, eins og hér er gert, þegar verið er að hægja á umferð í borginni. Ég held við ættum frekar að fara að greiða fyrir henni. Við hljótum að ráða því sjálf hvort við kjósum einkabílinn eða ekki,“ sagði hún í myndbandinu sem Fréttablaðið fjallaði um á sínum tíma.