Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók konu í stigagangi fjölbýlishúss í Hafnarfirði á öðrum tímanum í nótt. Konan, sem var ofurölvi, lét ófriðlega og var búin að vekja alla íbúa hússins þegar lögregla kom á vettvang. Hún var ekki með nein skilríki og hafði þar að auki ekki lykla að íbúð sinni. Að sögn lögreglu var konan handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var vistuð vegna ástands síns.
Lögregla handtók svo karlmann í annarlegu ástand á Laugavegi rétt fyrir miðnætti. Tilkynnt hafði verið um manninn vera að veitast að fólki. Hann var vistaður í fangageymslu.
Nóttin var að öðru leyti tiltölulega róleg hjá lögreglu. Tveir ökumenn voru stöðvaðir eftir miðnætti, annar á Vesturlandsvegi og hinn á Bíldshöfða, en báðir eru þeir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.