Í greininni segir að fall WOW gæti gert það að verkum að hér verði aftur hrun.
Í greininni segir að það sé að miklu leyti WOW að þakka að landið reis upp úr síðasta efnahagshruni. Fall fyrirtækisins mun þó að öllum líkindum draga landið niður með sér í leiðinni. Með fækkun ferðamanna sé raunveruleg hætta á að afleiðingarnar verði efnahagslægð eða niðursveifla.
„WOW kom og gerði Ísland að ódýrari áfangastað og hjálpaði landinu þannig úr kreppu. Þegar WOW hvarf síðan þá bakaði það ný vandræði fyrir Ísland.“
New York Times talaði við Sólveigu Ögmundsdóttur sem prjónar húfur með myndum af lundum og selur þær nálægt höfninni í Reykjavík. Sólveig segir söluna hjá sér hafa fallið um 20 prósent á þessu ári. Hún segir beina tengingu vera milli þess og falls WOW.
„Við finnum fyrir þessu. Við fáum færri Ameríkana og fleira fólk frá Spáni og Portúgal. Okkur finnst eins og það fólk hafi ekki jafn mikið á milli handanna.“
Í greininni er stiklað yfir sögu flugfélagsins og Skúla Mogensen er líkt við Richard Branson, frumkvöðulinn á bakvið Virgin Atlantic. Skúli segir að allir hafi haldið að hann væri klikkaður.
„Kannski höfðu þeir rétt fyrir sér og það ýtti mér bara áfram. Ég vissi eiginlega ekkert um flugiðnaðinn.“
Talað er við Fannar Flosason, hugbúnaðarverkfræðing sem vann hjá WOW. Hann var heima í fæðingarorlofi með syni sínum þegar hann fékk tölvupóstinn með uppsögninni.
Síðan þá hefur hann fengið starf hjá sprotafyrirtæki svo hann er einn af þeim heppnu.
„Ég þekki fullt af fólki sem vann hjá WOW og er ennþá atvinnulaust.“
Þá er einnig rætt við Birgittu Jónsdóttur sem vann í fullu starfi í að sjá um greiðslukerfið hjá WOW. Í dag er hún leiðsögumaður í hlutastarfi og vinnur nálægt Húsafelli. Þar gistir hún í þrjár til fjórar nætur aðra hverja viku en á meðan er 6 ára sonur hennar í Reykjavík.
„Þetta hefur verið svolítið erfitt.
Í greininni segir að Skúli afsali sér allri ábyrgð af þeim vandræðum sem fall flugfélagsins hafði á Ísland.
„Túrisminn er það sem kom okkur úr kreppunni. Við vorum það fyrirtæki sem óx hraðast í Íslandssögunni. Ferðamannasprengjan hefði aldrei átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir WOW.“
Samkvæmt New York Times er ferðamannastraumurinn 16 prósent minni í ár en í fyrra. Ferðamönnum frá Ameríku hefur þá fækkað um 20 prósent.
Síðustu ár hefur verið mikið um uppbyggingu í Reykjavík, það hefur varla verið hægt að opna augun án þess að sjá krana. Fall WOW hefur þó gert fjármögnun nýrra verkefna erfiðari.
New York Times talaði við Stefán Guðjónsson, forstöðumann greiningardeildar Arion Banka um málið.
„Þetta hefur slæm áhrif á alla. Verkefni eru sett á bið og þá sérstaklega hótel.“
Einnig er talað við Víði Kristjánsson, framkvæmdastjóra Domusnova.
„Framboð á nýjum íbúðum er mjög mikið en eftirspurnin er ekki sú sama.“
Þar sem ferðamannaiðnaðurinn er stærsti útflutningur Íslands hefur þetta haft mikil áhrif á verslanir sem miða að ferðamönnum.
Gauja Helgudóttir vann í afgreiðslu á Selasetri Íslands á Hvammstanga en hún talar við New York Times um áhrifin sem þetta hefur haft á fyrirtækið.
„Þetta hefur haft gífurleg áhrif og verið frekar slæmt fyrir okkur.“
Eftir fall WOW fór atvinnuleysi hækkandi. Talað er við Ivars Rapa sem vann í fiskvinnslu en hann missti starf sitt ásamt mörgum öðrum.
„Þetta er miklu erfiðara núna.“
Fiskiðnaðurinn er og hefur alltaf verið stór hluti í útflutningi Íslands. Þegar WOW féll hafði það líka áhrif á þennan part útflutnings þar sem það varð erfiðara að koma sjávarafurðum út úr landinu með flugi.
Ivars hefur sótt um störf í vöruhúsum, öryggisgæslum og í eldhúsum en hann er ekki vongóður um að fá eitthvað af þessum störfum.
Guðmar Pétursson, eigandi Hestalands, segir mikinn mun vera á rekstrinum í ár og í fyrra. Hestaland er sveitabær sem hefur haft mikið upp úr því að fara með ferðamenn í reiðtúra og þá sérstaklega Ameríkana.
„Það var alltaf uppselt út júlí og ágúst. Núna erum við með fullt af lausum plássum.“