„Það hlýtur að vera algjörlega óþolandi að standa í innflutningi eða heildsölu,“ segir Jón Gnarr, rithöfundur og fyrrverandi borgarstjóri, í færslu á Facebook-síðu sinni.
Jón Gnarr beinir þar spjótum sínum að Póstinum og tollinum sem hann er ekki beint sáttur við. Þar sem hann er rithöfundur fær hann send höfundaeintök af verkum sínum sem gefin hafa verið út víða um heim. Nefnir hann að bækur hans hafi verið þýddar á ensku, þýsku, spænsku og búlgörsku svo dæmi séu tekin.
Jón segir að hann sé ekki sérstaklega upplýstur um þessar sendingar. Þegar sendingarnar komi fái hann yfirleitt bréf frá Póstinum þar sem gera þarf grein fyrir innihaldi og afhenda kvittun eða reikning.
„Þá þarf ég að fara á vefslóð og svara spurningum. Þetta er eitthvað útaf Tollinum. Og þar sem ég veit sjaldnast nákvæmlega hvað þetta er, hef ekkert pantað og er því hvorki með reikning eða kvittun þá ég yfirleitt lítið fram að færa. Ég fékk svona sendingu um daginn og svaraði því samviskusamlega að ég hefði ekki hugmynd um hvað þetta væri. Manni eru heldur ekki veittar upplýsingar um sendanda heldur bara eitthvað sendingarnúmer. Ég gaf leyfi fyrir því að sendingin væri opnuð,“ segir Jón sem fékk síðan tölvupóst í morgun frá útgefanda sínum í Þýskalandi.
„Útgefandinn, Klett Cotta er eitt stærsta útgáfufyrirtæki í Þýskalandi. Þau segja að höfundaeintökin mín af búlgarskri þýðingu á einni af bókum mínum hafi verið endursend. Þau lenda aldrei í neinu svona veseni með neitt land nema Ísland. Nú þarf ég að svara þeim og útskýra fyrir þeim eitthvað sem ég skil ekki einu sinni alveg sjálfur,“ segir Jón. Þar sem Þjóðverjar eru úrræðagóðir telur hann að bækurnar verði sendar aftur til hans. En þá þurfi hann væntanlega að sækja þær sjálfur.
„Og á endanum fæ ég yfirleitt miða í gegnum lúguna um að „því miður tóks ekki að koma sendingu til skila“ en mér er meira en velkomið að koma og sækja hana. Sem ég geri yfirleitt,“ segir Jón sem spyr sig hvernig við förum að því að búa til svona miklar flækjur og vesen út af svona smámáli.
„Það hlýtur að þurfa að vera manneskja í fullri vinnu við að leysa úr svona bulli; senda tölvupósta, hringja og keyra svo um bæinn og á milli pósthúsa, sem eru alltaf að verða meira og meira einsog sælgætis- og gos sjoppur.“