Hafsteinn Oddsson var í sumar dæmdur í sex ára fangelsi fyrir hrottalega líkamsárás gegn konu sem hann framdi í ágúst árið 2016. Dómurinn var birtur á vef dómstólanna í dag en dómurinn var kveðinn upp 23. júlí. Líkamsárásin var framin í Vestmannaeyjum og dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands.
Hafsteini var gefið að sök að hafa slegið konuna í andlitið fyrir utan skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum, svo hún féll við. Hann sló hana síðan ítrekað aftur og sparkaði í hana. Þá klæddi hann konuna úr fötunum og skildi hana eftir nakta á almannafæri. Lá hún mikið slösuð og bjargarlaus í götunni.
Konan hlaut brot í hægri augntóft, mar og bólgur á augn- og kinnsvæðum, opinn skurð fyrir ofan vinstra auga sem sauma þurfti saman með fimm sporum, mar á nefi og höku, blóðnasir og blóð í munni, skrapsár aftan á hnakka, roða og skrapsár yfir brjósthrygg, roða og eymsli ofarlega á vinstri rasskinn og ofkælingu. Talið var að konan hefði ekki lifað af nóttina ef henni hefði ekki verið komið til bjargar en líkamshiti hennar fór langt niður. Ennfremur var hún afmynduð í andliti eftir árásina.
Hafsteinn var sem fyrr segir dæmdur í sex ára fangelsi fyrir árásina. Þá var hann dæmdur til að greiða þolanda árásarinnar þrjár og hálfa milljón króna í skaðabætur.