Frá því í morgun hafa björgunarsveitarmenn og aðrir viðbragðsaðilar unnið að björgun grindhvals sem rak að landi í Káravík við Seltjarnarnes. Eftir nokkurra klukkustunda björgunaraðgerðir var ljóst að mjög hafði dregið að hvalnum og var það mat dýralæknis Matvælastofnunar að nauðsynlegt væri að binda enda á þjáningar dýrsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór þess á leit við Landhelgisgæslu Íslands að séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið Landhelgisgæslunnar yrði kallað út með viðeigandi búnað. Að beiðni dýralæknis MAST var dýrið aflífað á sjötta tímanum. Í framhaldinu var dýrinu sökkt.