Útvarpsstöðin K100 birti fyrr í dag viðtal við Ólaf Hand sem að mati sumra er sláandi gagnrýnislaust á ofbeldisdóm sem hann hlaut gagnvart fyrrverandi eiginkonu. DV hefur borist ábendingar um þetta og hefur ritstjóri Stundarinnar auk þess gagnrýnt framsetninguna. Varla er hægt að kalla viðtalið annað en drottningarviðtal þar sem Ólafur fær engar gagnrýnar spurningar um ofbeldið.
DV greindi fyrst frá því í upphafi janúarmánaðar að Ólafur hefði verið sakfelldur fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. desember síðastliðinn. Atvikið átti sér stað á heimili Ólafs sumarið 2016 er móðirin hugðist sækja dóttur þeirra og fara með hana í sumarleyfisdvöl til Indónesíu. Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg.
Sjá einnig: Ólafur Hand rekinn frá Eimskip: Tók barnsmóður hálstaki og þrengdi að
Í viðtali í þættinum Ísland vaknar segir Ólafur að þessi dómur sé rugl og virðist þáttastjórnandi taka undir það gagnrýnislaust. Því næst lýsir hann upplifun sinni af því að ganga Jakobsveginn á Spáni. Orðalag í netútgáfu viðtalsins virðist enn fremur gera lítið úr dómi Ólafs, sem hann segist búinn að áfrýja. „Ólafur og Kolbrún hafa orðið fyrir miklum áföllum upp á síðkastið sem hafa reynt á hjónabandið og allt lífið. Nýlega fékk Ólafur dóm vegna samskipta sinna við fyrrverandi eiginkonu sína og missti vinnuna í kjölfarið,“ segir í fréttinni.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, gagnrýnir þessa framsetningu harðlega á Facebook.
„Sláandi orðalag á mbl, K100. Hér segir orðrétt: „Ólafur og Kolbrún hafa orðið fyrir miklum áföllum upp á síðkastið sem hafa reynt á hjónabandið og allt lífið. Nýlega fékk Ólafur dóm vegna samskipta sinna við fyrrverandi eiginkonu sína og missti vinnuna í kjölfarið.“
Ef áfallið sem vísað er til er dómurinn sem hann fékk, þá var hann ekki dæmdur vegna „samskipta“ við fyrrverandi eiginkonu sína heldur fyrir alvarlegt ofbeldi gegn barnsmóður sinni og brot á barnaverndarlögum, þar sem dóttir þeirra varð vitni að ofbeldinu. Eða, fyrir að hafa tekið barnsmóður sína hálstaki, þrengt að hálsi hennar og hrint henni þannig að hún féll í gólfið. Kvaðst barnsmóðir hans hafa misst fóstur vegna þessa, en það var ekki staðfest fyrir dómi. Vegna þessa var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og 400.000 kr. í miskabætur.
Allavega, er ekki fulllangt gengið í meðvirkni þegar talað er um að maður hafi verið dæmdur fyrir samskipti í stað þess að nota réttu orðin og segja eins og er, að hann hafi verið dæmur fyrir líkamsárás. Og ef það var svona mikið áfall þá vona ég að það hafi verið nógu lærdómsríkt til að þessi maður ráðist ekki aftur á konur – eða annað fólk.“