fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Lögreglumenn á landsbyggðinni upplifa álag og einangrun: „Þú hefur engan til þess að hringja í nema sjálfan þig“

Auður Ösp
Laugardaginn 24. ágúst 2019 09:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglumenn í dreifbýli þurfa oft á tíðum að takast á við miklar áskoranir, enda algengt að þeir séu einir á vakt og hafi umsjón með stóru svæði. Sumir kalla aðstæðurnar mannskemmandi. Oft er langt í næstu lögregluaðstoð eða aðra viðbragðsaðila þar sem um getur verið að ræða aðstoð frá nærliggjandi bæjarfélagi.

Lögreglumenn sem starfa í litlum bæjarfélögum þurfa oft að hafa afskipti af fólki sem þeir síðan hitta í sundlauginni eða matvörubúðinni. Þeir verða oft þekktir í samfélaginu og finnst þeir vera undir smásjá almennings, sem getur valdið félagslegri einangrun. Þess eru dæmi að lögreglumenn forðist að fara út á skemmtanalífið vegna áreitis.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum lokaverkefnis Rebekku Rúnar Sævarsdóttur og Sifjar Þórisdóttur til BA-gráðu í lögreglu og löggæslufræði. Í tengslum við rannsóknina ræddu þær við sex lögreglumenn á fertugs-, fimmtugs- og sextugsaldri sem allir eiga það sameiginlegt að hafa reynslu af löggæslustörfum í dreifbýli. Lögreglumennirnir voru sammála um að það væri oft á tíðum meira krefjandi að starfa í dreifbýli en þéttbýli og ástæður þess væru fjölþættar.

Allir í hópnum hafa mikla reynslu af því að vera einir á vakt og voru sammála um að ákveðin áhætta fylgi því þegar lögreglumaður þarf að sinna krefjandi og jafnvel hættulegum verkefnum einn og óstuddur. Þeir voru einnig allir sammála um að þeir þyrftu mikið að treysta á sjálfa sig og eigin reynslu. Oft er langt í næsta bæjarfélag sem þýðir að ef lögreglumenn þurfa aðstoð gætu þeir þurft að bíða í allt að 30 mínútur og jafnvel allt upp í eina til tvær klukkustundir. Það gæti jafnvel komið upp sú staða að lögreglumaður þyrfti að keyra 200 til 350 kílómetra til að sinna útkalli. Einn úr hópnum orðar það þannig: „Þú hefur engan til þess að hringja í nema sjálfan þig.“

Einn úr hópnum nefndi sem dæmi að ef hann væri með handtekinn einstakling þyrfti hann, í nánast öllum tilfellum, að fá frekari aðstoð frá öðrum lögreglumönnum úr nærliggjandi bæjarfélögum til að sækja þann handtekna. Ástæðan væri sú að hann væri einn á vakt og vildi ekki fara úr bænum þar sem hann væri eini lögreglumaðurinn í bæjarfélaginu.

Annar lögreglumaður nefndi sem dæmi að eitt skipti hefði hann þurft að keyra í 40 mínútur í útkall þar sem tilkynnt var um alvarleg slagsmál og hann einn á vakt.

Var hótað limlestingu

„Ég veit hvar þú átt heima“ er setning sem margir lögreglumenn kannast við en lögreglumenn þurfa oft að sæta hótunum í starfi sínu og geta lent í því að öryggi þeirra, og jafnvel fjölskyldu þeirra, sé ógnað.

Mynd: Eyþór Árnason

Þannig nefndu fjórir úr hópnum að þeir hefðu lent í því að vera hótað illilega og að fjölskyldu þeirra hefði verið hótað. Einn sagðist hafa lent í því að honum og fjölskyldu hans var hótað limlestingum en sá einstaklingur fékk dóm fyrir hótanir gegn fjölskyldu hans. Annar úr hópnum sagðist tvisvar sinnum hafa lent í því að báðir bílarnir hans hefðu verið rispaðir.

Þá sögðust þrír af lögreglumönnunum einnig hafa orðið virkilega hræddir um eigið öryggi í starfi. Þeir greindu frá því að hafa lent í verkefnum þar sem þeir óttuðust um sitt eigið öryggi og voru ekki vissir um hvernig málið myndi leysast.

Einn úr hópnum orðaði það þannig: „Þú veist aldrei hvar þú hefur einstaklinginn sem þú ert að díla við.“

„Hvað er ég komin í?“

Fjórir af lögreglumönnunum sögðu að þegar þeir byrjuðu að starfa í dreifbýli hefði þeim verið hent í djúpu laugina.

Einn nefndi sem dæmi að á fyrstu vöktunum hans sem lögreglumaður hefði hann til dæmis þurft í útkall vegna banaslyss.

Lögreglumennirnir nefndu einnig að á þeim tíma sem þeir byrjuðu í lögreglunni hafi verið mikið um dansleiki og fólk gerði þá fátt annað en slást. Þegar þeir komu heim eftir fyrstu helgarvaktirnar hefðu þeir hugsað með sér „hvað er ég komin í?“ Síðan voru sunnudagsvaktirnar notaðar til að sauma „spælana“ aftur á lögreglubúninginn þar sem þeir voru allir sundurtættir og rifnir eftir helgarvaktirnar.

Margir úr hópnum voru sammála um að það væri mjög krefjandi að starfa einir og að manneklan innan lögreglunnar bitnaði hvað mest á löggæslu í dreifbýli, þótt vissulega væri mannekla alls staðar í lögreglunni á Íslandi. Einn viðmælandinn sagði að fíkniefnamisferli hefði fjölgað mikið í sínu bæjarfélagi og sagði þá: „hvað á einn gamall karl að gera í svona málum?“

Þá kemur einnig fram að lögreglumenn í dreifbýli þurfi nauðsynlega að búa yfir þeirri hæfni að geta talað við fólk, huggað það og fengið það til að gera það sem þeir vilja, til að mynda vegna þess að þeir nota ákveðna sálfræði og eyða umtalsvert meiri tíma í að tala við fólk, enda séu þeir oftar en ekki einir á vakt og langt í næstu bjargir. Þá er mikilvægt að þeir þekki fólkið í samfélaginu vel og rækti gott samband við það. Oft þurfa þeir að hafa afskipti af fólki sem þeir annaðhvort þekkja eða eða hitta úti í búð eftir vakt eða í pottinum í sundlauginni. Ekki síst vegna þessa, lögðu þeir sig alla fram við að vera kurteisir og sanngjarnir í samskiptum, til að fólk færi almennt sátt út frá þeim.

Nýta umhverfið og fólkið

Fram kemur að lögreglumenn í dreifbýli læri með árunum að nýta sér umhverfið og fólk þegar þeir geta. Sem dæmi má nefna þegar umferðarslys verður og lögreglumennirnir sem rætt var við sögðu að við slíkar aðstæður myndu þeir ekki hika við að úthluta gulum vestum, merktum lögreglunni, til almennra borgara og fá þá til að stjórna umferð.

Einn úr hópnum segir að þar sem hann vinni nánast alltaf einn þá sé hann búinn að útbúa tösku sem henti honum vel í slysum. Í þessari tösku væri allt sem hann þyrfti til að sinna fyrstu hjálp og stjórna á vettvangi. Í henni voru til dæmis gul vesti, sjúkrakassi, blá blikkandi ljós, sem hann pantaði sjálfur, til að geta kastað á víð og dreif um vettvanginn til viðvörunar og margt fleira. Hann sagði þetta bara vera ákveðin bjargráð sem hann hefði lært í gegnum árin að hjálpuðu honum: „því þegar maður er einn getur maður ekki gert allt í einu, og þú þarft þar af leiðandi svolítið að fara þínar eigin leiðir.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þörf á frekari rannsóknum

Þær stöllur segjast vona að frekari rannsóknir verði gerðar á dreifbýlislöggæslu, enda muni slíkt auka skilning fólks á störfum lögreglu í dreifbýli og ítreka mikilvægi þeirra. Segja þær að í ljósi þess hversu krefjandi starfið er, þá hefði það verið mjög áhugavert og aðdáunarvert að sjá hversu vel viðmælendur tókust á við hin ýmsu verkefni, oft og tíðum einir.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram margt sem má betur fara þegar kemur að dreifbýlislöggæslu, en ekkert bendi þó til þess að verið sé að „finna upp hjólið“.

„Til að mynda er það nokkuð ljóst að fjölgun lögreglumanna í dreifbýli væri til hins betra, líkt og annars staðar. Einnig þyrfti að leggja meira fé almennt í lögregluna og þá sérstaklega til þess að draga úr þeirri manneklu sem er til staðar, sem myndi í kjölfarið leiða af sér meiri og betri frumkvæðisvinnu. Þá er það öllum til bóta að átta sig betur á því starfi sem lögreglan gegnir, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða í dreifbýli.

Einnig myndi það hjálpa verðandi dreifbýlislögreglumönnum ef lögð yrði meiri áhersla á dreifbýlislöggæslu í námi lögreglumanna. En þar sem upplýsingar um dreifbýlislöggæslu eru af skornum skammti er mikilvægt að efla þá þekkingu svo hægt sé að vinna að úrbótum á þeim hindrunum sem afmarkast við dreifbýlislöggæslu. Mörg hver verkefni einskorðast við dreifbýlislöggæslu og eru því óþekkt í þéttbýlislöggæslu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi