Ragnar Valur Björgvinsson hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi, og til greiðslu 700 þúsund króna í miskabætur, fyrir að aka á nágranna sinn, Hreggvið Hermannsson í desember 2017.
Ragnar Valur er bóndi að Langholti 2 í Árnessýslu og Hreggviður er bóndi að Langholti 1B. Hafa þeir lengi átt í harðvítugum deilum um eignarrétt yfir heimreið og landi þar í kring. Hreggviður, sem taldi sig eiga heimreiðina, hafði ítrekað gripið til þess að loka heimreiðinni, svo sem með því að strengja gaddavír og rúlluplast milli tveggja steina við innkeyrsluna.
Sjá einnig: Nágrannaerjur ná nýjum hæðum: „Hann reyndi að drepa mig“
„Þau hafa þann sið að eyðileggja girðinguna og taka hana með sér og það var akkúrat það sem gerðist þarna,“ sagði Hreggviður í samtali við DV í janúar 2018 og vísar þar til Ragnars og eiginkonu hans, Fríðar Sólveigar Hannesdóttur.
Í aðdraganda árásarinnar koma Ragnar og Fríður akandi að girðingunni sem Hreggviður hafði reist í heimreiðinni umdeildu. Fríður fer út úr bifreiðinni og tekur girðinguna niður. Á myndbandi sem náðist af árásinni sést Fríður koma í mynd með gaddavírinn og plastið úr girðingunni í eftirdragi. Þá sést Hreggviður koma með hamar í hendi og hlaupa á eftir Fríði. Hann stígur á plastið, en Fríður kippir því þá að sér. Hreggviður beygir sig þá niður og krækir í plastið með hamrinum, Fríður togar þá gaddavírinn að sér. Þá ekur Ragnar bifreiðinni í átt að Hreggviði. Hreggviður stendur með plastið í fanginu og snýr baki við bifreiðinni þegar Ragnar keyrir aftan á læri Hreggviðar sem lendir á vélarhlífinni og fætur hans takast á loft.
Hreggviður lendir svo á fótunum og slær þá með hamrinum á miðja vélarhlífina á bifreið Ragnars. Þá ekur Ragnar áfram og gefur í. Hreggviður er með hendur á vélarhlífinni og hörfar á aftur á bak undan bílnum. Ragnar gefur þá í og Hreggviður kastar sér upp á vélarhlíf bílsins.
„Sekúndu síðar hefur ákærði tekið krappa hægri beygju. Bifreiðin rennur til í beygjunni og snjór og drulla spýtist aftur undan bifreiðinni. Brotaþoli fellur af vélarhlífinni vinstra megin og má sjá hann fyrst sem þúst fyrir aftan vinstra framdekk bifreiðarinnar. Síðan berst brotaþoli meðfram vinstri hlið bifreiðarinnar og verður ekki annað séð en að afturendi bifreiðarinnar og vinstra afturhjól lendi á brotaþola sem blasir næst við sem þúst aftan við bifreiðina hægra megin í því að ákærði hefur lokið hinni kröppu hægri beygju.“
„Kærði sýndi af sér ófyrirleitni og árás hans var sérstaklega hættuleg enda gerð með vélknúnu ökutæki sem telja verður stórhættulegt í aðstæðum brotaþola umrætt sinn. Ítrekað skal að mesta mildi var að ekki hlaust stórfellt líkamstjón af árásinni eða jafnvel bani.“
„Þó svo fyrir liggi í máli þessu að mikið hafi gengið á í samskiptum ákærða og brotaþola um nokkurt skeið og kærur hafi gengið á báða bóga réttlætti það ekki beitingu ofbeldis af hálfu ákærða umrætt sinn.“