„Þeir voru til dæmis í dreifingu fyrir Elko með þvottavélar, ísskápa og annað slíkt, sem mér finnst ekki vera póstur. Þeir eru í þessu fyrir ýmis önnur fyrirtæki og fara með þetta langt undir almennt verð,“ segir Kristinn Sigurðsson, stjórnarformaður hjá Sendibílastöðinni.
Flutningabílstjórar eru margir hverjir ósáttir við meint undirboð Íslandspósts á akstri. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag en þar segist Kristinn hafa lent í því að hafa misst vinnu sem Íslandspóstur tók yfir með meintu undirboði. „Það er ýmislegt sem við höfum verið að keyra í gegnum tíðina sem er horfið af því að þeir eru að bjóða þetta langt niður,“ segir hann.
Þórður Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri Nýju sendibílastöðvarinnar, er á sama máli og Kristinn. Hann telur að Nýja sendibílastöðin hafi orðið af viðskiptum eftir að Íslandspóstur byrjaði að stunda meint undirboð.
Báðir nefna að Íslandspóstur hafi verið að sendast með vörur fyrir IKEA. „Fyrirtækið var auðvitað stofnað á sínum tíma til þess að dreifa bréfum til landsmanna og sú þjónusta hefur borið skarðan hlut frá borði svo ég get alls ekki fallist á að flutningarnir sem þeir standa núna í falli undir hlutverk fyrirtækisins,“ segir Þórður við Morgunblaðið.
Birgir Jónsson, sem tók við starfi forstjóra Íslandspósts í maí síðastliðnum, svarar því til að almenn sendibílaþjónusta hafi verið lögð af um síðustu áramót í kjölfar sáttar við Samkeppniseftirlitið.
„Aftur á móti eru stærri samningar í gangi um lyfjadreifingu og annað sem ég hef eiginlega ekki forsendur til þess að dæma hvort séu undirboð, ég þekki það ekki,“ segir Birgir sem tekur fram að ef undirboð viðgangist þurfi að koma því upp á yfirborðið. „Því ég get alveg verið sammála því að það sé ekki hlutverk Íslandspósts að vera í undirboðum á markaði.“