Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt. Alls eru 75 mál skráð í málaskrá lögreglu frá klukkan 17 í gær til fimm í morgun.
Þrír menn voru handteknir í Hlíðahverfi á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna gruns um þjófnað á reiðhjólum. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Nokkru áður handtók lögregla konu í annarlegu ástandi við Ingólfstorg en hún er sögð hafa verið að áreita fólk. Hún var vistuð í fangageymslu vegna ástands síns. Þá handtók lögregla mann í miðborginni á þriðja tímanum í nótt en sá var í annarlegu ástandi.
Lögregla handtók svo karlmann í annarlegu ástandi á fjórða tímanum í nótt. Að sögn lögreglu hafði hann ráðist að fólki við Reykjavíkurveg. Maðurinn var færður í fangaklefa.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af ökumanni í Hafnarfirði sem hafði ekið gegn einstefnu. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögregla stöðvaði svo bifreið á Reykjanesbraut við IKEA eftir hraðamælingu og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.
Loks stöðvaði lögregla bifreið í Grafarvogi klukkan 18 í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, nytjastuld ökutækis, ofbeldi gegn lögreglumanni, hótanir og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Þessu til viðbótar voru nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Alls voru 12 einstaklingar vistaðir í fangageymslu lögreglu.