„Ég verð að játa að mér persónulega er nokkurn veginn alveg sama hvað sykrað kók kostar og ef Nóa kropp og lakkrís — sem er eiginlega eina nammið sem ég finn einstaka sinnum löngun til að fá mér — hækkar í verði, þá býst ég við að ég muni kaupa mér það samt ef umtalsverð þörf til þess skapast.“
Þetta segir Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður og heimspekingur, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag. Þar skrifar hann um tillögu Landlæknisembættisins um að leggja hér á sérstakan sykurskatt til að sporna við neyslu á sykruðum vörum. Guðmundur er ekki ýkja hrifinn af tillögunni þó hann taki fram að honum sé alveg sama um verðið á þessum vörum.
„Hins vegar verð ég þó líka að játa að það hringja ætíð í kolli mínum vissar viðvörunarbjöllur og efasemdarkór sálu minnar syngur fimmraddað í hvert einasta skipti sem þessi umræða, um lýðheilsu og frelsi almennt, kemur upp á yfirborðið. Og slíkt gerist jú æði oft. Umræðan um sykurskattinn er gott dæmi. Hér vill yfirvaldið beita skattlagningu svo lýðurinn öðlist betri heilsu. Skerða skal fjárhagslegt svigrúm til nammikaupa. Minna frelsi, meiri lýðheilsa,“ segir Guðmundur sem spyr hvers vegna það teljist sjálfsagt að hamla frelsi og svigrúmi því annars muni lýðheilsa versna og fólk deyja úr sjúkdómum.
„Þarna tjúllast ég dáldið. Á þessum punkti fórna ég höndum og höfuðið snýst í heilhring á búknum. Augun á stilkum. Hárið upp í loftið,“ segir hann og spyr hvers vegna frelsi sé álitið andstæða lýðheilsu. Sjálfur kveðst hann sjá veröldina öðrum augum. Telur hann raunar að frelsi bæti ekki síður lýðheilsu.
„Kannski eru einhver mörk en ég held þó samt almennt að því meira sem frelsið er, því betri lýðheilsa. Og af hverju finnst mér þetta? Jú, vegna þess að frelsi — sérstaklega í vel menntuðu samfélagi þar sem fólk hefur greiðan aðgang að upplýsingum — eykur ábyrgð. Fólk tekur upplýstar ákvarðanir. Ég tel raunar að ábyrgð fólks á sjálfu sér sé langbesta leiðin til þess að bæta lýðheilsu á einhvern hátt sem virkar, til langs tíma. Annað er eilífðarbarningur.“
Guðmundur tekur fram að þetta sé ekki alveg svarthvítt. Skattar, verðlag, boð og bönn hafi sjálfsagt einhver áhrif. Hann nefnir þó nokkur dæmi máli sínu til stuðnings sem benda til annars. „Hvað hefur minnkað reykingar? Er það verðið á pakkanum eða almenn vitneskja fólks um það að reykingar eru stórhættulegar? Hvað hefur aukið hreyfingu og skapað þannig stemningu meðal þjóðarinnar að fólk er hlaupandi, hjólandi, syndandi og skíðandi út um allar hæðir og hóla? Lög frá Alþingi?“
Guðmundur segir að það sé aldrei smart í rökræðu að væna fólk um fasisma. Öllu jafna, þegar það hugtak heyrist, sé umræðan komin út í móa.
„Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að minna á — í samhengi álitamála varðandi lýðheilsustjórnmál — að fasismi sem stjórnmálaskoðun í upphafi síðustu aldar einkenndist ákaflega mikið af áherslu á lýðheilsu og hreysti. Þessar áherslur má glöggt greina í blaðinu Fasistinn sem kom út á Íslandi í örfáum tölublöðum á millistríðsárunum og finna má á timarit.is. Drjúgur þáttur í boðskapnum var áherslan á lýðheilsu. Sjálfsagt var þetta skásta hliðin á þessari annars andstyggilega stjórnmálaviðhorfi, en tengslin eru umhugsunarverð. Hugsanlegt er að þessi hlið fasismans lifi enn í dag í vissri stefnumótun í heilbrigðismálum. Heilsu lýðsins skal bæta með miðstýrðu boðvaldi. Ríkið skal hafa vit.“
Til að gera langa sögu stutta finnst Guðmundi þetta vera röng nálgun. Áður en farið er í „skattaþvinganir gegn nammigrísum“ sé rétt að prófa aðrar leiðir sem eru hófsamari og jafnvel skynsamlegri.
„Hvað með að setja til dæmis merkingar á matvæli, þar sem fólk er varað við sykurmagni og þá líka, ef út í það er farið, fitumagni og saltmagni? Upplýsingar eru gull. Hví ekki að auka frekar aðgengi að þeim? Svo mætti líka íhuga hitt, að lækka frekar verð á heilsusamlegum matvælum eins og grænmeti, ávöxtum, hnetum og fræjum.“
Guðmundur endar grein sína á þeim orðum að heilsuvakningin sem hefur orðið á Íslandi sé eitt besta dæmið um að verðlag stýri ekki neyslunni nema að litlum hluta. „Þrátt fyrir að maður þurfi eiginlega að sækja um lán til að kaupa lárperur, þá kaupir maður þær samt. Sem frjáls og upplýstur maður.“