„Þetta er ákvörðun stjórnvalda. Það er ákvörðun stjórnvalda að veita ungum börnum à flótta ekki vernd. Ég skammast mín djúpt og innilega,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala deilir færslu sem No Borders Iceland-samtökin birtu á Facebook-síðu sinni seint í gærkvöldi en þar var sagt frá feðgum; Asadollah og sonum hans, 9 og 10 ára, sem leituðu á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins í gærkvöldi.
„Annar sonurinn er í annarlegu ástandi og að brotna niður vegna aðstæðna. Hinn sonurinn situr með hendur í skauti sér á biðstofunni. Þetta þarf að stöðva strax. Börn eiga rétt á öryggi óháð uppruna! Bestu hagsmunir drengjanna tveggja eru að vera áfram á Íslandi,“ sagði í færslu No Borders í gærkvöldi.
Á öðrum tímanum í nótt var færslan uppfærð með þeim orðum að brottvísun feðganna hefði verið frestað tímabundið eftir að geðlæknir á bráðamóttöku barna sagði stoðdeildarlögreglumanni að ekki væri hægt að brottvísa barni sem er svo alvarlega þjakað af kvíða.
„Auðvitað þurfti að bíða þar til geðlæknir staðfestir að 10 ára barn sé komið í taugaáfall áður en útlendingayfirvöld hlusta. Og þó hefur engu verið breytt, einungis frestað. Ekki hefur verið sagt til um hvenær brottvísunin fer fram, en líklega verður það seinna í vikunni,“ segir í færslunni.
Því er svo bætt við að drengurinn hafi ekki fengið mikla aðstoð á spítalanum. Læknir hafi bent honum á að heimsækja áfallateymi Rauða krossins nú í morgunsárið. „Sálrænn stuðningur fyrir börn á flótta er ábótavant hér á landi, en yfirvofandi brottvísun er óvissa sem ekkert barn ætti að þurfa að eiga yfir höfði sér.“
Færsla No Borders-samtakanna hefur vakið talsverða athygli. Helga Vala segir að hún skammist sín en í færslunni er hún spurð hvort hún sé ekki partur af stjórnvaldinu. Helga Vala svarar því til að hennar flokkur sé ekki í ríkisstjórn. „Við getum lagt fram frumvörp en þau mega sín lítils þegar ráðherra herðir regluverkið með reglugerðum.“
Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður deilir einnig færslunni og segir: „Brottvísun afganskra feðga var frestað í nótt af því annar drengurinn var bókstaflega orðinn veikur af kvíða. Það stendur samt til að vísa þeim brott síðar í vikunni. Hættið þessu! Hættið að pína börn! Hættið þessu strax!“