Óhætt er að segja að umgengni sé víða slæm á Íslandi. Að þessu komst hópur sem fór í strandhreinsun í vikunni sem sendinefnd ESB á Íslandi stóð fyrir. Blái herinn og nokkur sendiráð ESB-landanna á Íslandi tóku þátt í verkefninu; Danmörku, Frakklandi, Svíþjóð og Þýskalandi.
„Að þessu sinni stóð til að hreinsa strandlengju rétt austan við Grindavík. Við komumst hins vegar nánast ekkert niður á ströndina sjálfa því að það var svo ótrúlega mikið af rusli sem hafið hafði skilað langt upp á land. Langmest úr sjávarútvegi en furðulega mikið úr skotveiðimennsku. Á rúmlega þremur tímum týndum við hátt í tonn af rusli. Það er ekki að ástæðulausu að ESB leggur höfuðáherslu á umhverfismál í öllum sínum stefnumálum,“ segir í færslu sem birtist í gær á Facebook-síðu Evrópusambandsins á Íslandi.
Tómas Knútsson er maðurinn á bak við Bláa herinn og deilir herinn myndinni hér að ofan. Við hana er skrifað: „Í fjörunni við Hraun í Grindavík má finna heilu breiðurnar af svona plastrusli. Ég hef aldrei séð annað eins, ALDREI.“