fbpx
Fimmtudagur 11.september 2025
Fréttir

Neyðarkall Lilju: „Ég verð að geta gefið börnunum mínum að borða“ – Fjölskylduhjálpin lokuð í sumar

Auður Ösp
Föstudaginn 28. júní 2019 09:10

Beðið eftir úthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég kem úr fjölskyldu sem stólaði mikið á þessa aðstoð og sömuleiðis þurfti ég mikið á því að halda fyrir þremur árum þegar ég var nýbyrjuð að búa sjálf. Því veit ég hvað þetta er mikilvægt fyrir þá sem þurfa á þessu að halda,“ segir Kristjana Hákonía Hlynsdóttir, en hún hrundi af stað söfnun á vefsíðu Gofundme fyrir Fjölskylduhjálp Íslands.

Fjölskylduhjálp Íslands mun verða lokuð í júlí og ágúst í sumar og er þetta í fyrsta skipti í sögu samtakanna sem gripið er til sumarlokunar.

„Ég hef verið með mánaðarlegar greiðslur til þeirra síðan ég þurfti ekki lengur á þessari aðstoð að halda en ein manneskja getur bara stutt málefnið svo mikið,“ segir Kristjana í samtali við DV. „Eftir því hvernig ég hef upplifað þetta, þá eru tvær gerðir af fjölskyldum hér á landi. Það eru þær sem þurfa á þessari aðstoð að halda og geta því ekki styrkt þetta málefni, og svo þeir sem hafa alltaf lifað svo vel að þessi málefni ná ekki inn fyrir þeirra sjónarsvið.“

Húsaleigan fer síhækkandi

Í samtali við DV hafði Ásgerður Jóna Flosadóttir ekki heyrt af téðri söfnun. Hún þvertekur fyrir að Fjölskylduhjálpin sé að loka fyrir fullt og allt. Staðan sé þó óvenju slæm um þessar mundir þar sem leiguverð hefur snarhækkað.

„Við erum ekkert að fara að loka. Við ætlum að vera í önnur 16 ár til viðbótar. En það er á hreinu að við verðum að vera ábyrgar í fjármálum af því að við getum ekki leitað í þessa stóru sjóði, öfugt við önnur hjálparsamtök.

Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að við erum að borga 1.200 þúsund á mánuði í húsaleigu, hér í höfuðborginni og á Reykjanesi. Við það bætist hiti og rafmagn. Það er einfaldlega þannig að þegar við borgum svona mikið í húsaleigu þá getum við ekki leyft okkur að kaupa matvörur í júlí og ágúst, vegna þess að við verðum að standa vaktina í september. Við viljum geta staðið skil á húsaleigu. Þetta er þess vegna algjört neyðarúrræði.“

Ásgerður Jóna Flosadóttir.

Ásgerður tekur fram að nytjamarkaðir Fjölskylduhjálparinnar verði áfram opnir í júlí og ágúst. Hún segir marga skjólstæðinga Fjölskylduhjálparinnar örvæntingarfulla vegna sumarlokunarinnar og hafa stofnuninni borist ófá símtöl undanfarið frá fólki í neyð. „Ég er búin að vera í þessu í 25 ár og staðan er alltaf jafn slæm.“

Fjölskylduhjálpin fær eina milljón á ári frá ríkinu og aðra milljón frá borginni. Ásgerður segir frjáls framlög halda starfseminni að mestu leyti uppi.

„Miðað við allan þennan rekstrarkostnað þá er það í rauninni kraftaverk að það sé búið að halda þessu gangandi í 16 ár. Við stöndum einar og höfum gert það alveg frá upphafi. Hér er sparað við hverja nögl og við þurfum að rýna í hverja einustu krónu. Við þurfum að borga fyrir allt og við skuldum ekki neitt. Ef við hefðum úr milljónum að moða, eins og Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn, þá væri ástandið ekki svona.“

„Sár og svekkt“

„Ég væri ekki á lífi í dag ef það væri ekki fyrir Fjölskylduhjálpina,“ segir fjögurra barna einstæð móðir á höfuðborgarsvæðinu, en hún hefur reitt sig á matargjafir Fjölskylduhjálparinnar undanfarna mánuði. Konan treysti sér ekki til að koma fram undir nafni en verður hér kölluð Lilja. Lilja er öryrki og einstæð móðir fjögurra barna á aldrinum sex til fimmtán ára.

Hún greiðir 220 þúsund krónur í húsaleigu á mánuði og þá er lítið eftir aflögu. Lilja hefur stundum fengið aðstoð frá systkinum sínum og sömuleiðis móður sinni, en það hefur verið erfitt eftir að móðir hennar veiktist af krabbameini.

„Eins og staðan er þá er allur peningurinn búinn um miðjan mánuðinn. Ég hef farið mánaðarlega í Fjölskylduhjálpina í rúmlega hálft ár og fengið þar ómetanlega hjálp, brauð og mat og meira að segja sjampó.

Lilja segist ekki hafa hugmynd um hvernig hún eigi að geta fætt fjölskylduna á meðan sumarlokuninni stendur.

„Ég veit ekkert hvert ég á að snúa mér annað. Þetta er rosalega erfitt. Það er bara allt svo dýrt í dag. Auðvitað líður manni ekki vel með að þurfa að leita sér hjálpar. En ég verð að geta gefið börnunum mínum að borða.“

Lilja hefur enga aðra innkomu fyrir utan örorkubæturnar, en barnabætur eru ekki greiddar út í júlímánuði.

„Ég veit ekki hvað ég get gert, kanski reynt að lifa á jógúrt? Maður reynir bara að spara hverja einustu krónu,“ segir Lilja jafnframt, en hún sá sig tilneydda til að taka yngstu börnin sín tvö úr leikskólanum í síðasta mánuði þar sem leikskólagjöldin kosta sitt.

„Ég er ofboðslega sár og svekkt að það skuli ekki vera hægt að hafa þetta opið. Ég er mjög þakklát fyrir Fjölskylduhjálpina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu
Fréttir
Í gær

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland
Fréttir
Í gær

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú
Fréttir
Í gær

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“
Fréttir
Í gær

Allt á suðupunkti eftir atburði næturinnar: „Staðan er alvarleg“

Allt á suðupunkti eftir atburði næturinnar: „Staðan er alvarleg“