Fimmtán ára gömul stúlka hefur áhuga á að starfa við barnapössun og ákvað að bjóða þjónustu sína á bland.is Móðir hennar, Margrét Friðriksdóttir, sem er lesendum DV að góðu kunn, vildi ekki taka neina áhættu svo hún ákvað að útbúa auglýsinguna fyrir dóttur sína og svara þeim skilaboðum sem myndu berast.
„Ég geri þetta bara vegna þess að það er alltaf hætta á einhverju svona. Ég bjóst nátturulega ekki við því sem gerðist en ég er fegin því núna að ég setti inn auglýsinguna en ekki hún,“ segir Margrét við DV.
Margrét, undir merkjum dóttur sinnar, fékk send skilaboð á ensku frá einstaklingi með notandanafnið Sidi. Skilaboðin voru afar furðuleg þar sem spurt var um nafn og aldur stúlkunnar, þrátt fyrir að það kæmi fram í auglýsingunni. Margrét gerir því ráð fyrir að maðurinn hafi ekki skilið auglýsinguna heldur einungis séð myndina.
„Hann er greinilega ekki að leita sér að neinni barnapíu, hann sér bara myndina,“ segir Margrét.
Þetta er greinilega vandamál hjá Bland.is en þegar skráðar eru auglýsingar um barnapössun koma upp ráð fyrir ungar barnapíur.
„Það er óhugnanlegt að það séu virkilega menn þarna í þessum tilgangi, að tæla barnungar stelpur í eitthvað hræðilegt,“ segir Margrét.
Margrét setti upp auglýsinguna fyrir dóttur sína til öryggis en nú prísar hún sig sæla enda hefði þetta auðveldlega getað farið verr. „Ísland er greinilega ekki það örugga land lengur sem við höfum búið í,“ segir Margrét.