fbpx
Sunnudagur 24.ágúst 2025
Fréttir

Ólafur missti son sinn: „Hættum að velta okkur upp úr smáatriðum og tilgangslausri neikvæðni”

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. maí 2019 16:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Hr. Sigurðsson, íþróttakennari og fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, missti son sinn, Bjarna Jóhannes Ólafsson, árið 2017. Bjarni tók eigið líf en hann var einungis 26 ára gamall. Í viðtali sem birtist á vef Seyðisfjarðarkaupstaðs segir Ólafur að hreyfing hafi hjálpað sér mikið við að vinna úr sorginni.

„Fyrst eftir að ég missti Bjarna þá fannst mér best að labba bara eitthvað út í náttúruna þar sem ég gat grátið í friði. Þar sem ég hef alltaf stundað tækjaþjálfun og lóðalyftingar fannst mér líka gott að fá þannig útrás fyrir reiðina sem brann í mér og þannig er það reyndar enn tveimur árum síðar. Reiði sem er ákaflega erfitt að fá útrás fyrir því maður veit ekki við hvern maður á að vera reiður,“ segir Ólafur.

Sjá einnig: Ólafur minnist sonar síns: „Hvernig leyfa geðlæknar sér að ávísa á lyf sem geta aukið sjálfsvígshættu?“

Hann segist hafa breytt nokkuð um lífsstíl eftir að Bjarni lést. „Fljótlega eftir að ég missti Bjarna fengum við okkur hund á heimilið, en vitað er að gæludýr geta hjálpað fólki sem glíma við svona áföll. Hundurinn, sem heitir Míló, hefur gefið okkur öllum mjög mikið og sjálfur geng ég með hann nánast á hverjum degi og reyni að ná 50-60 km á viku,“ segir Ólafur.

Hann bætir við að hann hætti að drekka um þetta leyti. „Eitt sem hefur hjálpað mér mikið að glíma við sorgina er að nokkrum mánuðum áður en áfallið reið yfir hafði ég algjörlega hætt að drekka áfengi sem hafði þó ekki verið neitt vandamál hjá mér. Ég tókst því á við áfallið algjörlega skýr í huga og tel að það hafi hjálpað mjög mikið. „Áfengislausa árið“ stendur enn og mun verða áfram því manni líður svo mikið betur líkamlega án áfengis. Áfengi er bölvaður óþverri sem gerir engum gott og allir sem glíma við andleg veikindi af einhverju tagi ætti að sleppa því alfarið.  Því miður er það oftast á hinn veginn, sem gerir glímuna hálfu verri. Að halda að maður bjargi svo einhverju með eiturlyfjum eins og kannabis, er mesta fásinna sem ég hef heyrt,“ segir Ólafur.

Sjá einnig: Margir minnast Bjarna: Átti góða daga áður en hann dó

Í viðtalinu er Ólafur spurður um hvort lífsýn hans hafi breyst eftir áfallið. „Hún hefur breyst að talsverðu marki finnst mér.  Ég hef t.d. miklu meiri áhyggjur af öllu ungu fólki í dag og reyni að leggja mitt af mörkum í því sambandi.  Mér finnst enn mikilvægara að rækta samböndin við fjölskylduna og vinina. Maður veit aldrei hvað maður hefur mikinn tíma hér á jörðu. Hvað tekur við veit svo enginn og því eins gott að nota tímann sem maður hefur til góðra verka. Ég er líka ekkert að velta mér upp úr einhverjum smáatriðum og held að við séum alltof upptekin af því. Við verðum líka að horfa til þess hversu mikilvægt er að allir geri sitt besta og átti sig á því að meira er ekki hægt að fara fram á. Mér finnst skólakerfið í raun aldrei hafa unnið eftir þessari línu og allt of lítið gert af því að finna hæfileika hvers og eins og rækta þá. Finna í hverju við erum best og vinna út frá því. Það eru allir góðir í einhverju og það er mín reynsla að ef þessir eiginlegar eru efldir þá fylgir svo margt annað með. Ég hef séð svo mörg dæmi þessa í gegnum allt mitt íþrótta- og skólastarf,“ svarar Ólafur.

Hann segir að lokum mikilvægt að hætta tilgangslausri neikvæðni. „Ég hef líka styrkst í þeirri trú að við getum bjargað miklu með von og kærleika. Láta okkur varða hvernig náunganum líður og sýna væntumþykju í verki. Knúsa hvert annað meira og klappa hvert öðru meira á bakið. Hættum að velta okkur upp úr smáatriðum og tilgangslausri neikvæðni. Lífið hefur upp á svo mikið að bjóða, ef við bara opnum augun og sjáum hvað við höfum það í rauninni gott hér á Íslandi. Að maður tali nú ekki um hér á Seyðisfirði,“ segir Ólafur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lýsa yfir hungursneyð á Gaza

Lýsa yfir hungursneyð á Gaza
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru tíu tekjuhæstu Íslendingarnir á síðasta ári – Fengu samtals um 30 milljarða

Þetta eru tíu tekjuhæstu Íslendingarnir á síðasta ári – Fengu samtals um 30 milljarða