Þrettán ára piltur sem ók vespu gegn einstefnu í Keflavík um helgina endaði för sína með því að aka á bifreið sem kom á móti. Tveir farþegar voru á vespunni þegar óhappið varð en umrædd vespa var auk þess án hraðatakmarka og jafnframt ótryggð.
Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Piltarnir þrír sluppu sem betur fer án meiðsla rétt eins og ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti atvikið til forráðamanna drengjanna og til barnaverndar.
Að sögn lögreglu hafa rúmlega tuttugu ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum.
„Sá sem hraðast ók mældist á 146 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Jafnframt voru höfð afskipti af allmörgum ökumanna vegna gruns um vímuefnaakstur eða önnur brot í umferðinni svo sem akstur án ökuréttinda. Af fjórum ökumönnum sem óku sviptir ökuréttindum var einn sem lögregla stöðvaði nú í þriðja sinn af þeim sökum. Jafnframt voru skráningarnúmer fjarlægð af fimm bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar.“