Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók einstakling í morgun sem grunaður er um eignaspjöll og líkamsárás í Hafnarfirði. Að sögn lögreglu er maðurinn grunaður um að kasta grjóti í svalahurð íbúðar á jarðhæð með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Ekki nóg með það heldur fór grjótið í gest sem var í íbúðinni.
Að því er fram kemur í skeyti lögreglu var meintur gerandi handtekinn og vistaður í fangageymslu. Ekki er vitað um meiðsl að svo stöddu.
Um hálf sex í morgun var tilkynnt um líkamsárás við Ingólfstorg í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði maður verið kýldur og var hann með áverka á höfði og skerta meðvitund. Árásarþolinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild, en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Þá stöðvaði lögregla nokkra vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Lögregla segir einnig að klukkan fimm í morgun hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu í Garðabæ vegna farþega sem neitaði að greiða leigubílstjóra fyrir akstur. Bílstjórinn fékk greitt þegar lögregla mætti á svæðið.
Loks hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar í efra Breiðholti rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Bifreiðinni hafði verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Að sögn lögreglu sinnti ökumaðurinn ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók að íbúðarblokk þar sem hann lagði í bifreiðastæði og færði sig í aftursæti. Þegar hann var beðinn að stíga út úr bifreiðinni neitaði hann því. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð og er hann einnig grunaður um ölvun við akstur. Maðurinn var laus að lokinni töku upplýsinga og blóðsýna.