„Hugsunin á bak við sameiginlega forsjá er sú að báðir foreldrar beri sömu skyldur gagnvart barninu. Þrátt fyrir það þá verður lögheimilislausa foreldrið ósýnilegt í kerfinu,“ segir Eva Björk Sveinsdóttir verkefnastjóri. Eva Björk á tvo syni, 16 og 13 ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum en þegar hjónin skildu árið 2008 var þeim ráðlagt að hafa sameiginlega forsjá yfir drengjunum. Í kjölfarið var sá yngri skráður með lögheimili hjá Evu og sá eldri hjá föður sínum Eva Björk segist hafa rekið sig á það æ oftar undanfarin ár að sameiginleg forsjá hefur í raun ekkert gildi hjá hinu opinbera.
„Okkur var tjáð af fulltrúa sýslumanns á sínum tíma að sameiginleg forsjá væri normið í dag. Við gerðum ráð fyrir að við myndum hafa sameiginleg réttindi varðandi allt,“ segir Eva Björk í samtali við blaðamann.
Á þessum tíma, árið 2008, voru rafrænar skráningar ekki eins algengar og í dag, líkt og Eva bendir á.
„Í dag er allt orðið meira og minna rafrænt, eins og að bóka læknatíma, sækja um sjúkrakort, sækja um skólamáltíðir, unglingavinnu og svo framvegis, en þannig var það ekki þegar við skildum. Allar þessar stofnanir eru með tengingu við Þjóðskrá og sækja sínar upplýsingar þaðan. Þess vegna erum við alltaf að reka okkur á vegg af því að í Þjóðskrá er einungis pabbi stráksins skráður sem foreldri hans.
Eva Björk nefnir sem dæmi að þar sem hún er „umgengnisforeldri“ samkvæmt kerfinu þá geti hún ekki stofnað bankareikning fyrir eldrisoninn, skráð hann í tómstundir eða í mötuneytisáskrift í skólanum. Þá getur hún ekki skoðað sjúkrasögu sonar síns á netinu þar sem einungis lögheimilisforeldrið hefur aðgang að slíkum upplýsingum.
„Eitt fáránlegasta dæmið kom upp núna um daginn þegar við fengum sent bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem fram komu upplýsingar um heilsu sonar míns. Bréfið var stílað á manninn minn, stjúpföður sonar míns, en ekki mig,“ segir Eva jafnframt en þegar hún leitaði til Sjúkratrygginga fékk hún þau svör að samkvæmt reglum ætti að stíla bréf á elstu kennitölu heimilisins. „Maður spyr sig hreinlega hvort þetta stangist ekki á við persónuverndarlög, að senda sjúkraupplýsingar á aðila sem er ekki forsjáraðili viðkomandi barns.
Eva Björk og núverandi eiginmaður hennar eiga samtals sex börn og eru tvö þeirra, yngrisonur Evu og stjúpdóttir hennar, skráð með lögheimili hjá þeim. Hin börnin fjögur eru skráð með lögheimili hjá hinum foreldrum sínum. Börnin hafa þó öll búið á einhverjum tímapunkti á heimilinu.”
Samkvæmt skilmálum tryggingafélagsins eru aðeins þeir sem búa á lögheimilinu skráðir undir heimilistrygginguna. „Til dæmis, efsonur minn, sem er ekki srkáður hjá mér, brýtur sjónvarpið heima hjá okkur þá þýðir það að ég þarf að leita í tryggingar barnsföðurs míns. Samt hef ég ekkert að segja um það hvernig hann er tryggður hjá pabba sínum.
Mér finnst það mjög undarlegt að ég geti gert allt fyrir yngri son minn, og stjúpdóttur mína, en ekkert fyrir eldri son minn, sem ég sá um að koma í heiminn og ala upp jafnt á við pabba hans,“ segir Eva jafnframt. „Það er ömurlegt að þurfa stöðugt að segja við eldri son minn : „Nei, ég get ekki gert þetta, þú verður að spyrja pabba þinn, ég er ekki skráð mamma þín.“
Eva tekur fram að vissulega skilji hún ástæður þess að það sé ákveðið flækjustig að hafa lögheimilisskráningu á tveimur stöðum. Þá sé skiljanlegt að tryggingafélög vilji koma í veg fyrir möguleg bótasvik með því að tryggja einungis þá sem skráðir eru á lögheimili. Það hljóti þó að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt með öðrum hætti.
„Ég skil ekki af hverju það er ekki búið að uppfæra kerfið hjá Þjóðskrá fyrir löngu, þannig að börn séu skráð hjá báðum foreldrum, en ekki bara lögheimilisforeldrinu. Það er sjálfsagt að báðir foreldrar séu skráðir forsjáraðilar. Það sjá það allir að þetta kerfi er fyrir löngu orðið úrelt, enda er það sniðið í kringum þessa hefðbundnu vísitölufjölskyldu. Það er mjög sárt og leiðinlegt að geta ekki sinnt sínu eigin barni vegna þess að samkvæmt kerfinu er ég ekki foreldri þess.“
Umræðan um tvöfalda lögheimilisskráningu og ójafna réttarstöðu foreldra í forsjármálum hefur farið hátt undanfarin misseri. Í september síðastliðnum lögðu þingmenn Viðreisnar fram frumvarp til laga sem heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum. Fram kom í greinagerð að þegar foreldrar hafi tekið ákvörðun um að fara sameiginlega með forsjá barns í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, en hvort á sínu heimilinu, þá eigi löggjafinn ekki að gefa öðru foreldrinu ríkari rétt en hinu til ákvarðanatöku um hagi barnsins.
Samband íslenskra sveitarfélaga studdi ekki hins vegar frumvarpið en í umsögn sambandsins, sem skilað var inn í október síðastliðnum, segir meðal annars að tvöföld lögheimilisskráning barna „geti haft veruleg áhrif á þjónustu og útgjöld sveitarfélaga, ekki síst í skólamálum.“
Um þessar mundir liggja fyrir drög í samráðsgátt Stjórnarráðsins að frumvarpi til breytinga á barnalögum auk breytinga á ýmsum lögum sem varða skipta búsetu og meðlag. Fram kemur í greinargerð að markmiðið sé að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum:
„Þetta nýja fyrirkomulag gerir ráð fyrir að foreldrar geti alfarið unnið saman í öllum málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf, virðingu, tillitssemi og sveigjanleika. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum. Almennt skal gera ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum, en að öðru leyti er það í höndum foreldra að finna það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins.
Foreldrar skulu komast að samkomulagi um hjá hvoru þeirra barn eigi lögheimili og hjá hvoru þeirra barn eigi búsetuheimili. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningur um skipta búsetu sé háður staðfestingu sýslumanns. Með hliðsjón af ríkum kröfum um samstarf foreldra og sameiginlega ákvarðanatöku er ekki gert ráð fyrir að dómstóll geti dæmt skipta búsetu barns þegar foreldra greinir á.“