Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði birtir á Facebook-síðu sinni skilaboð sem honum barst frá manni sem Guðmundur líkir við rasísku umhverfissinnanna í Ófærð. Guðmundur ræddi í Morgunútvarpi Rásar 1 í gær að það væri nauðsynlegt að virkja Hvalá.
Þetta hefur farið öfugt ofan í manninn sem sendi Guðmundi eftirfarandi skilaboð: „Guðmundur Gunnarss, það er allt eftir bókinni með þig, búin að fá yfirhalningu í menntamálum hjá HR. Búin að vinna hjá Magnúsi Geir hjá RÚV og spinna Nánetið í útlöndum. Farðu nú bara að láta deigan síga í níðingsverkunum gagnvart náttúrunni og íbúum þessa lands. Skiljanlegra með gamlan karl fusk eins og Einar k, en að þú ungur maður skuli berjast svona fyrir innflutningi fólks, fiskeldi og virkjun Hvalár. Það þarf að styrkja orkufluttningskerfið. Túrisma gefur meira af sér fyrir verslun og þjónustu á Vestfjörðum en erlendir verkamenn.“
Guðmundur segist hafa fengið mörg skeyti eftir viðtalið á Rás 1 en þetta hafi honum þótt furðulegast. „Ég hef fengið nokkur skeyti eftir að ég jarmaði á morgunvaktinni á Rás 1 í gær. Flest hófstillt, önnur skrítin. Þetta trónir á toppnum í furðulegu deildinni. Símtalið sem fylgdi var svo enn furðulegra. Ég sleit því þegar því var haldið fram að fjölgun á Vestfjörðum væri borin uppi af þjófum frá Austur-Evrópu og að ég hafi örugglega þegið heilaþvott í Noregi. Ég sem hélt að rasísku umhverfissinnnarnir í #ófærð væru skáldaðar persónur,“ segir Guðmundur.