Héraðssaksóknari hefur ákært Ragnar Val Björgvinsson fyrir að aka á nágranna sinn Hreggvið Hermannsson í desember 2017. Vísir greinir frá.
DV hefur fjallað ítarlega um deilurnar undanfarin misseri. Árásin sem nú er ákært fyrir átti sér stað í desember 2017. Fram kemur í frétt Vísir að Ragnari er gert að hafa keyrt aftan á Hreggvið þar sem hann stóð í heimreiðinni að heimili Ragnars í Flóa, með þeim afleiðingum að Hreggviður endaði upp á húddi bílsins.
Hreggviður steig fram í viðtali við DV fyrir um ári síðan og lýsti atburðarásinni ítarlega. Deilur Hreggviðs og nágranna hans, Ragnar Val og eiginkonu hans Fríði Sólveigu Hannesdóttur, hafa varað um árabil og oft ratað í fjölmiðla. Í kjölfar árásarinnar steig Hreggviður fram í viðtali við DV og lýsti atburðarrásinni.
Ég var að vinna inni í skúr á minni landareign og sá þá að þau hjónin voru að koma að vírgirðingu sem aðskilur landareignirnar. Þau hafa þann sið að eyðileggja girðinguna og taka hana með sér og það var akkúrat það sem gerðist þarna. Fríður tók vírgirðinguna og dró hana með sér heim að bænum,“ sagði Hreggviður í samtali við DV á þeim tíma. Hann sagðist hafa verið með hamar í hönd þegar atvikið átti sér stað og tók hann með sér á vettvang.
Hann segist hafa gengið að og ætlað að koma í veg fyrir skemmdarverkið. „Ég var á eftir henni og var að reyna að stíga á vírspottann. Ragnar reyndi þá að keyra í veg fyrir mig en ég komst fram fyrir hann,“ sagði Hreggviður. Skyndilega hafi þá Ragnar keyrt á eftir honum og fann Hreggviður að hann var að lenda undir bifreiðinni.
„Hann reyndi að keyra mig niður en ég stökk þá upp á húddið til að bjarga mér. Ég reyndi að halda mér þar með annarri hendi en á meðan keyrði Ragnar hring á lóðinni og meðal annars í gegnum limgerði,“ sagði Hreggviður. Hann missti loks takið, valt yfir húddið og féll til jarðar. Þá tók ekki betra við því Hreggviður sakar Ragnar um að hafa keyrt yfir fæturna á honum. Sýndi hann blaðamanni myndir af áverkum sínum því til sönnunar.
Eftir hina meintu árás staulaðist hann blóðugur heim til sín þar sem eiginkona hans og dóttir tóku á móti honum og hjúkruðu honum. „Fyrst um sinn var ég merkilega hress og kenndi mér ekkert sérstaklega meins. Líklega hefur adrenalínið haldið manni gangandi. Síðan leið smá tími og þegar kom að því að setjast við kvöldmatarborðið þá leið ég bara út af yfir matnum,“ sagði Hreggviður. Heimilisfólk hringdi þá umsvifalaust í sjúkrabíl og var Hreggviður færður til aðhlynningar. „Ég var sem betur fer óbrotinn en mjög marinn. Þessi árás náðist á upptöku sem lögregla hefur undir höndum.“
Skömmu síðar birti DV frétt sem var unnin upp úr lögregluskýrslu málsins sem staðfesti að atburðarásin var í samræmi við umrædda myndbandsupptöku. Hin meinta árás varðar við 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga. Þar segir:
„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum“
Hreggviður fer fram á eina og hálfa milljón króna, með vöxtum, í miskabætur og að Ragnari verði gert að greiða allan lögmannakostnað.