fbpx
Laugardagur 23.janúar 2021
Fréttir

Ásgeir vinnur launalaust á leikskóla langveikrar dóttur sinnar: „Þetta gott fólk er fjölskyldubærinn Akureyri“

Óðinn Svan Óðinsson
Miðvikudaginn 12. september 2018 14:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásgeir Ólafsson íbúi á Akureyri vandar bæjaryfirvöldum í bænum ekki kveðjurnar í pistli sem hann skrifaði á Facebook í vikunni. Dóttir Ásgeirs fæddist með fæðingargalla sem heitir þindarslit, sjúkdómur sem krefst mikillar umönnunar. Ásgeir segir starfsmenn bæjarins sýna málinu áhugaleysi. Hann vinnur sjálfur á leikskóla dóttur sinnar um þessar mundir, launalaust.

Dóttir Ásgeirs, Alexandra var greind með sjúkdóminn þegar hún var í móðurkviði. Í kjölfarið var fjölskyldan send til Reykjavíkur þar sem hún fæddist og dvaldi fyrstu þrjá mánuði ævi sinnar. „Þar til Vökudeildin taldi vera kominn tími á að fara heim. Vökudeildin var okkur góð og traust. Heim vorum við loksins komin, í fjölskyldubæinn Akureyri. Það var ótrúlega spennandi að komast loksins heim með litla barnið okkar,“ skrifar Ásgeir.

Báðir foreldrar frá vinnu í eitt og hálft ár

Þegar veikindin komu upp þurftu Ásgeir og kona hans að hætta að vinna. Í kjölfarið veitti Akureyrarbær fjölskyldunni fjárhagslegan stuðning og því framtaki hrósar Ásgeir í pistlinum. „Frá febrúar 2017 til dagsins í dag hef ég ekki geta unnið vegna hennar. Á þeim tíma hefur móðir heldur ekki geta unnið.“

Að lokum ákváðu foreldrar Alexöndru að skrá hana sjálf út af sjúkrahúsinu á Akureyri til að koma dóttur sinni í eðlilegt umhverfi sem hafði að sögn Ásgeirs átt að gerast mun fyrr en strandaði á seinagangi í kerfinu. „Við vorum orðin leið á að bíða. Hvað þá að horfa upp á litlu stelpuna okkar löngu orðna heimferðar tilbúna, en hún sat pikkföst inni á sjúkrahúsi, vegna skriffinnsku. Svo hún gæti þroskast og dafnað eins og jafnaldrar hennar gera þá fórum við með hana heim,“ skrifar Ásgeir.

Þarf mögulega að skipta út fólki?“

Á þessum tíma segir Ásgeir áhugaleysi bæjaryfirvalda hafa komið skýrt í ljós. „Vegna kerfisins og ákveðinna starfsmanna hér í bæ sem sýnt hafa verkefninu áhugaleysi frá fyrstu komu okkar norður,“ skrifar Ásgeir og bætir við: „Við höfum þurft að gera allt sjálf. Sækja um allt og fá í gegnum kerfið erfið mál, sjálf, ekki með þeirra aðstoð. Enginn starfsmaður hér í bæ sem vinnur fyrir bæinn í velferðarmálum hefur sýnt þessu máli með hana Alexöndru okkar frumkvæði, orku, áhuga eða áræðni. Nema nú fyrst einn aðili, innan Akureyrarbæjar sem aðstoðar okkur af áhuga með það sem aðrir eru komnir með á hælana fyrir löngu.“

Ásgeir veltir því upp hvort tímabært sé að skipta út starfsfólki hjá bænum. „Eitthvað þarf að gera. Þarf mögulega að skipta út fólki? Það er sanngjörn spurning þykir mér. Mögulega hafa þeir sem nú starfa í þessu ekki getuna eða kunnáttu til að takast á við slík mál sem koma inn á borð þeirra.“

Vinnur sjálfur á leikskóla dóttur sinnar án ráðningarsamnings

Alexandra byrjaði á leikskóla í síðasta mánuði og var í kjölfarið ráðinn starfsmaður á vegum Akureyrarbæjar til að sinna henni, hennar tækjum og sérþörfum. Starfsmann sem þurfti þjálfun. Ásgeir bauðst sjálfur til að þjálfa viðkomandi starfsmann gegn því að fá greitt fyrir þá vinnu. „Ég sóttist eftir einhverjum launum í þetta verkefni þar sem ég þekki Alexöndru ásamt móður hennar að við teljum best, og ættum að vera best til þess fallin að þjálfa þennan nýja starfsmann,“ skrifar Ásgeir sem hóf störf á leikskólanum þann 13. ágúst.

Hann hefur ekki fengið greitt fyrir þá vinnu og segir óvíst að svo verði. „Frá því hún byrjaði er hvorki ég né móðir á heimilinu okkar, að þiggja laun frá Akureyrarbæ fyrir að aðstoða Akurayrarbæ við það að þjálfa nýjan starfsmann leikskólans sem er ráðinn á vegum Akureyrarbæjar. Ég sit frá klukkan 8 til 14, launalaus á leikskólanum til fulls taks ef eitthvað kemur upp á, og tek allan þátt í að þjálfa starfsmanninn upp. Fyrir Akureyrarbæ, ráðningasamningslaus.“

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Ásgeiri ekki tekist að fá skýr svör um hvort hann fái greitt fyrir vinnuna. „Ég sit þar launalaus og get ekki stundað vinnu fyrir utan það þar sem stelpan kemur með mér heim klukkan 14. Málið stendur í dag, þann 10. september þannig, að ekkert hef ég heyrt frá starfsfólki Akureyrarbæjar eða HSN nema frá aðilanum sem er að ýta á eftir málinu fyrir okkur. Hann ýtir en ekkert gerist. Það er auðvitað ódýrast fyrir bæinn að nota pabbann, sem kann á stelpuna. Að fá hann að sitja í leikskólanum frá 8 til 14 alla virka daga. Ódýrast fyrir Akureyrarbæ. Þannig hefur þetta verið frá upphafi. Ef ég gengi hér út í dag, þá vitum við að ef eitthvað kæmi fyrir Alexöndru þá er það á ábyrgð Akureyrarbæjar. En ég myndi aldrei gera slíkt. Ekkert foreldri myndi gera slíkt.“

„Eingöngu starfsmaður Akureyrarbæjar sem á hér aðallega sök“

Að lokum segir Ásgeir sökudólginn í málinu ekki vera bærinn í heild heldur einstaka starfsmenn. „Þetta gott fólk er fjölskyldubærinn Akureyri. Ég geri mér grein fyrir því að metnaðarfullir starfsmenn innan velferðar hér í bæ og víðar, verða eilítið uggir þegar þeir lesa þetta. Jafnvel reiðir og finna til leiða. En þetta er eingöngu starfsmaður Akureyrarbæjar sem á hér aðallega sök. Bærinn kláraði sitt fyrir löngu. Akureyrarbær er ekki svona vil ég meina. Þeir einfaldlega réðu til starfa rangan aðila til að sinna erfiðum málum sem þessum sem svo bitnar á bænum,“ skrifar Ásgeir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt