„Ég er stoltur af því að vera Íslendingur en ég get bara ekki lengur látið bjóða mér þetta lengur,“ segir Haraldur Anton Árnason en hann og kona hans, Karen Ýr Jónsdótirr tóku á dögunum þá ákvörðun að flytja búferlum til Noregs ásamt börnum sínum tveimur. Hyggjast þau búa þar hjá tengdaforeldrum Haraldar og eiga þannig raunhæfan möguleika á því að safna fyrir útborgun í íbúðarhúsnæði. Það geta þau ekki gert á Íslandi.
Yfir 80 manns hafa deilt færslu sem Haraldur birti á facebook á dögunum en hann vísar þar í aðsenda grein Jóns Guðmundssonar framkvæmdastjóra sem birtist á vef Fréttatímans á dögunum. Í umræddri grein bendir Jón á að vaxtaokur hér á landi geri fasteigakaup fyrir fjölskyldu að áhættufjárfestingu. Tekur Jón dæmi um þau íbúðarlán sem standa fólki til að boða en lán upp á 25.5 milljónir endar hæst í heilum 80.340.841 krónum.
„Þetta er verið að bjóða Íslendingum upp á. Ungt fólk sem hefur intenet og er sæmilega gefið, mun aldrei láta bjóða sér svona rugl eða skammarlega lág laun miðað við framfærslukostnað. Það flýr óregluna á íslenskum okurmarkaði og loftbólu, húsnæðis, ponsý markaði sem á eftir að springa og kemur sér upp húsnæði í öðrum löndum fyrir brot af kostnaði á Íslandi. Þar sem að kaup á fasteign til eigin nota er ekki áhættufjárfesting,“ ritar Jón í greininni sem birtist í Fréttatímanum.
„Við hjónin eigum 2 stráka og það er annar lítill engill á leiðinni núna á næstu dögum, og það er einmitt partur af ástæðunni fyrir því að við ætlum að fara. Það að eignast barn og að vera á Íslandi helst ekki beint í hendur, allavega miða við hvernig ástæður eru hérna í dag,“ segir Haraldur í samtali við DV.is. Haraldur er menntaður flugvirki en hefur síðastliðið ár verið að vinna á varahluta lagernum hjá WOW Air. Hann vonast til að fá starf sem flugvirki í framtíðinni en eins og staðan er í dag vinnur hann á 12 tíma vöktum, viku í senn, sem skiptast í dag og næturvaktir. Það dugir að hans sögn ekki til þess að halda heimilinu uppi og er hann því í aukastarfi hjá dekkjaverkstæði í Reykjavík. Hann kveðst vera kominn með nóg af brauðstritinu.
„Þegar vikan er á enda er ég uppgefinn bæði á líkama og sál, og veskið ennþá jafn tómt. Ég get illa sætt mig við það að leggja blóð, svita og tár í að þrauka rétt í gegnum lífið. Ég vil að börnin mín viti bara af því að þau eiga pabba. Pabba sem er aldrei til staðar, pabba sem þarf að vinna öllum stundum bara svo við getum borgað af skuldum og aldrei eignast neitt. Alltaf í óöryggi með húsnæði sem gæti verið selt undan okkur eða leigt út á Airbnb.“
Líkt og Haraldur greinir frá hyggst fjölskyldan leggja land undir fót í sumar og flytja til tengaforeldra hans í Noregi til þess að eiga möguleika á því að safna fyrir útborgun í húsnæði.
„Því ekki ætla ég að taka auka lán fyrir henni og sökkva mér enn harðar í þetta skuldafangelsi sem Ísland er,“ segir Haraldur en hann hyggst halda áfram að starfa fyrir WOW Air eftir að til Noregs er komið. „Eins sorglegt og það er þá er hagstæðara fyrir mig að flytja fjölskylduna út og fljúga vikulega fram og til baka heldur en að búa á Íslandi.“
Síðan þau Haraldur og Karen tóku saman fyrir 9 árum hafa þau hrakist á milli húsnæða á leigumarkaðnum og flutt alls 12 sinnum. Hann segir þau þrá stöðugleika og þá ekki síst barnanna vegna.
„Við setjum okkur ekki há markmið, okkur langar bara að eignast okkar eigin húsnæði, en það fylgir því rosalegt óöryggi og rótleysa að búa í leiguíbúð,“ segir hann og bætir við að ofan á svimandi hátt leiguverð þá bætist við aðrir reikningar tengdir heimilinu. Þegar allur kostnaður sem tengist heimilinu er tekinn saman hljómar upphæðin upp á rúmlega 300 þúsund krónur um hver mánaðarmót.
„Þá komum við að fasteignaverðinu sem hefur hækkað stjórnlaust hérna síðustu ár og fyndist mér fásinna að borga þetta verð fyrir húsnæði,“ segir Haraldur jafnframt um leið og hann bendir á að í Noregi geti hann fengið hæða einbýli fyrir sama verð og á 2 herbergja blokkaríbúð í Breiðholtinu.
„Já og svo má ekki gleyma því að fyrir sama lán 25.5 milljónir úti þá myndi ég borga sirka 27.5 til baka í heildina. Ég hef bara meira við þessar 50+ milljónir að gera og væri ég frekar til í að leyfa börnunum mínum að njóta góðs af þeim heldur en að láta þessa upphæð renna inní bankann til manna sem gera ekkert annað en að láta þá hverfa trekk í trekk á meðan við almúgin verðum að kyngja því og þakka fyrir,“ ritar hann síðan en hann kveðst vera óneitanlega þakklátur fyrir tengaforeldra sína f„yrir að bjóðast til taka okkur öll inn á sig svo við getum komið fótunum undir okkur í lífinu og gefið börnunum okkar smá rótfestu.“