

Fyrir 52 árum keypti Niels Rydung kynlífsþjónustu hjá vændiskonu í fyrsta sinn. Síðan þá hefur hann greitt fyrir kynlíf 450 sinnum og í dag getur hann ekki séð fyrir sér að það eigi við hann að vera í föstu sambandi. Hann segir að honum leiðist venjulegar konur sem séu ekki eins frjálslyndar og þær sem selja kynlíf.
Þetta kemur fram í viðtali við hann í netritinu Format. Rydung er löglærður en hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður og ljósmyndari hjá klámblaðinu „Ugens Rapport“. Þess utan hefur hann skrifað margar erótískar sögur. Hann er nú áttræður.
Í umfjöllun Format kemur fram að það hafi verið eins og að stíga inn í klámmynd frá áttunda áratugnum að koma heim til Rydung. Ljósmyndir af nöktum konum hanga út um allt og húsbúnaðurinn er ekki af nýrri gerðinni.
„Ég hef keypt 450 konur á lífsleiðinni. Mér finnst svo frelsandi að vera með konum sem selja sig, þær eru frjálslyndari og ekki eins teprulegar og venjulegar konur.“
Rydung segir að þegar hann keypti sér kynlíf í fyrsta sinn hafi hann átt mjög erfitt með að ræða við konur og hafi ekki þekkt margar konur. Hann segist telja að lítill árangur hans í samskiptum við konur sé vegna þess að „það er svo helvíti erfitt að tala við þær“.
„Ef þú vilt tala við stúlkur, verður þú að kunna að tala um ekkert. Stúlkur vilja ekki tala um efni eins og heimspeki og stjórnmál, þær vilja bara tala um slúður og ómerkilega hluti.“
Þegar blaðakonan spurði hann hvort hann telji að konur geti ekki rætt um „þung“ málefni svaraði hann:
„Það er mín reynsla. Ef maður ræðir pólitík við konur þá fara þær að geispa.“
Þegar blaðakonan spurði hann hvort hann telji að konur sem gegna og hafa gegnt ráðherrastöðum og konur í stjórnmálum nenni ekki að ræða um pólitík svaraði hann:
„Jú, það eru til nokkrar greindar konur. En þær eru yfirleitt leiðinlegar og ófríðar. Falla alls ekki að mínum smekk.“
Rydung hefur fleiri umdeildar skoðanir eins og fram kemur í viðtalinu:
„Það er hægt að kaupa allar konur, það er mín reynsla. Allar konur eru vændiskonur ef rétt upphæð er í boði.“