Samúel Jói Björgvinsson, sem varð tvítugur í september, hefur verið ákærður fyrir fjölda brota, þar á meðal fyrir innflutning á kókaíni. Fyrir helgi staðfesti Landsréttur 22 mánaða fangelsisdóm yfir honum í öðru máli, en þar var hann dæmdur fyrir slá mann í hausinn með kassagítar. Sá maður var jafnframt stunginn í kviðinn af Antoni Erni Guðnasyni sem hlaut fimm og hálfs árs dóm.
Samúel Jói er nú ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hann var gómaður á Leifsstöð í júní með tæplega kíló af kókaíni límt utan á læri sín. Hann var að koma frá Alicante á Spáni.
Hann er ennfremur ákærður fyrir fjölmörg minni brot. Hann er sakaður um að hafa brotist samtals þrisvar sinnum inn í Ísaksskóla í þeim tilgangi að stela verðmætum en í hvert skipti yfirgaf hann húsnæðið án þess að hafa nokkuð með sér. Hann er auk þess ákærður fyrir að hafa ítrekað hnuplað ýmsum tölvuvarningi úr Elko og Tölvulistanum.
Ofan á þetta er hann sakaður um tvö fíkniefnalagabrot. Annars vegar fundust ríflega fjögur grömm af ecstasy í úlpu hans þann 4. mars 2017. Hins vegar var hann gómaður með talsvert magn fíkniefna á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í fyrra. Þá fundust á honum 17 töflur af ecstasy, ríflega 65 grömm af amfetamíni, ríflega sex grömm af kókaíni og um 20 grömm af ecstasy.