Fékk bakteríuna frá afa – Hætti að mynda eftir gos – Keypti gamla filmuvél í Góða hirðinum
Daníel Guðmundsson var áhugaljósmyndari og vörubílstjóri í Vestmannaeyjum þar sem hann bjó með konu sinni, Mörtu Hjartardóttur, fram að gosi 1973. Hjónin fluttu, eins og svo margir Eyjamenn, til Þorlákshafnar eftir gos og voru þar næstu árin. Seinna fluttu þau til Reykjavíkur. Daníel féll frá þann 17. júlí 1996 en Marta er enn á lífi.
Barnabarn þeirra hjóna, Óðinn Yngvason, smitaðist af bakteríunni og hefur vakið athygli fyrir sína myndasmíð. Þá hefur Óðinn verið að framkalla og birta myndir afa síns á samfélagsmiðlum við góðar undirtektir.
„Hann var iðinn með myndavélina á ferðum sínum með fjölskyldunni, en eftir gos þá held ég að hann bara hætti að mynda, eða gerði afar lítið af því,“ segir Óðinn. „Hann þekkti fólk úti um allar trissur eins og sagt er, og man ég sem krakki þegar ég var með honum í litla Land Cruiser-jeppanum á þeysingi út um allar sveitir. Lengi vel þá átti hann lítinn kindakofa og sumarhús rétt utan við Þorlákshöfn.“
Daníel keyrði daglega til og frá Reykjavík til Þorlákshafnar að heilsa upp á skepnurnar.
„Ég gæti trúað að ég hafi svo fengið bakteríuna frá afa, en mamma og faðir minn sálugi voru einnig alltaf dugleg að mynda alls kyns ferðalög. Ég eftir mér sem smápjakk að stelast í myndavélarnar hjá foreldrum mínum og klára filmurnar, eða smella af flasskubbunum, þeim til lítillar ánægju,“ segir Daníel glettinn, en hann tekur oft myndir á eldri vélar og framkallar sjálfur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Óðinn kemur fram í fjölmiðlum.
„Eitt sinn keypti ég gamla Kodak Brownie Six-20 myndavél í Góða hirðinum, og er ég kom heim þá sá ég að í vélinni var full átekin filma,“ segir Óðinn. Hann framkallaði filmuna, deildi myndunum á Facebook og auglýsti eftir fólkinu og komst í kjölfarið í samband við ættingja. Óðinn gaf DV góðfúslegt leyfi til að birta myndir Daníels, afa hans frá eldgosinu í Vestmannaeyjum árið 1973.