fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Líf Þorsteins breyttist þegar hann setti á sig naglalakk

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 24. mars 2018 12:00

Þorsteinn V. Einarsson - VG

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn V. Einarsson starfar við félagsmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg og er varaþingmaður Vinstri grænna. Hann hefur vakið mikla athygli undanfarna daga eftir að hann kom af stað herferðinni #Karlmennskan á samfélagsmiðlum þar sem karlmenn lýsa reynslu sinni. Þorsteinn settist niður með blaðamanni DV yfir kaffibolla í frístundamiðstöðinni Tjörninni þar sem hann starfar.

„Hvað á ég að byrja? Ég er 32 ára, hefðbundinn, gagnkynhneigður, tveggja barna heimilisfaðir. Ég ólst upp í Grafarvogi og er uppalinn Fjölnismaður í fótbolta. Ég er menntaður kennari og starfa sem deildarstjóri unglingasviðs í frístundamiðstöð,“ segir Þorsteinn og brosir.

Hann spilaði lengi knattspyrnu og náði alla leið í unglingalandsliðið. „Ég náði sjö leikjum með unglingalandsliðinu. Ég á tvö tímabil á bekknum hjá Breiðabliki þar sem mitt hlutverk var að hita upp Hjörvar Hafliðason en spilaði svo meira en 100 leiki í meistaraflokki með ÍR. Ég hætti svo í fótboltanum árið 2011 þegar sonur minn fæðist.“

Strax jaðarsettur

Áhugi Þorsteins á karlmennsku og femínisma kviknaði fyrir tilviljun fyrir fjórum árum. „Ég var að vinna í félagsmiðstöð, það var dragkvöld á föstudagskvöldi og enginn tók þátt. Ég var manaður af krökkunum að naglalakka mig og klæða mig í drag. Mér fannst þetta mjög niðurlægjandi, bara eins og sögurnar í dag bera með sér, en ég lét til leiðast. Ég var svo með naglalakkið yfir helgina. Það var þá sem líf mitt breytist.“

Þorsteinn með naglalakkið árið 2014. Mynd úr einkasafni.

Með því að ganga með naglalakk segir Þorsteinn að hann hafi áttað sig á því hversu mikil forréttindi hann hafi búið við sem gagnkynhneigður, ójaðarsettur hvítur strákur. „Ég hafði aldrei lent á þessum vegg. Ég lenti á risastórum glervegg. Samfélagið býst við því að ég, hefðbundinn, gagnkynhneigður fótboltastrákur, gangi ekki um með naglalakk. Ég fékk hins vegar augngotur, athugasemdir og grín. Ég var ennþá ég, ég var bara með naglalakk. Ég var strax jaðarsettur.“

Þorsteinn ákvað því að gera tilraun og halda áfram að vera með naglalakkið. „Ég var í þjáningu innra með mér, ég var að fara á fundi um allan bæ með fólki sem ég hafði aldrei hitt. Ég sagði ekki neitt, ég var bara með naglalakk. Fólki fannst þetta ótrúlega skrítið og erfitt, og mér sjálfum. Upp frá þessu fór ég að pæla í þessum kynjaða veruleika sem við búum í og fór að spá í femínisma.“

Hann fékk til liðs við sig 40 unglingsdrengi sem allir naglalökkuðu sig og upplifðu það sama og hann. „Þegar þú ert unglingur þá gerir þú mikið af því að reyna að passa í hópinn, en með samstöðunni þá byggist upp stemning. Strákarnir voru mjög stoltir af þessu því þeir áttuðu sig á að þeir voru að gera eitthvað gott. Þeir skildu betur hvernig það er að vera lagður í einelti, hversu erfitt það er að vera jaðarsettur. Mig dreymir um að heyra í þeim aftur, því þetta hafði svo mikil áhrif á líf mitt, en ég hef ekki talað við þá í fjögur ár.“

Vinkonur hvöttu hann áfram

„Ég finn það þegar ég tala við menn sem eru ekki femínistar að þeir skynja þetta ekki. Þetta er ekki í heilabúinu þeirra, þannig að það er ekkert skrítið að þegar ég tala um að eitthvað sé kynjað þá átta þeir sig ekki á hvað ég er að tala um. Þeir þurfa að hafa lært það eða fengið einhvers konar snertingu af því. Ég hvet þá menn sem eru efins um kynjakerfið og ógnartök feðraveldisins á okkur karlmönnunum að prófa að naglalakka sig. Þá finna þeir þetta vonandi á eigin skinni.“

Í kjölfar átaksins með naglalakkið kynntu vinkonur Þorsteins femínisma fyrir honum og hvöttu hann áfram í að tala um karlmennskuna. „Ég hef unnið í því í fjögur ár að móta hvernig ég á að tala um karlmennskuna og femínisma við ungt fólk og aðra karlmenn. #Karlmennskan gerist ekki í neinu tómi, þetta á sér forsögu þótt þetta hafi sprungið út núna á samfélagsmiðlum. Margar konur eiga skilið miklar þakkir. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur hvatt mig áfram og klárlega Sóley Tómasdóttir. Sigga Dögg kynfræðingur hefur pressað á mig að koma karlmennskunni frá mér, líka Unnur Gísla, kennari í Borgó. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir var með mér á ráðstefnu 2014 þar sem hún útskýrði almennilega fyrir mér femínisma. En sennilega hefur unnusta mín, Hulda Tölgyes, kennt mér hvað mest um karlmennskuna í tengslum við femínisma

Ég verð líka að nefna Hildi Lilliendahl. Til að byrja með skildi ég ekki hvers vegna Hildur var að koma óorði á femínisma, en þegar ég vaknaði til vitundar áttaði ég mig á því hversu mikið þrekvirki og kraftaverk hún hefur gert í femínisma á Íslandi. Hún og þessar konur sem ég hef nefnt hafa orðið til þess að ég get tekið þessa umræðu núna.“

Hvað er femínismi fyrir þér?

„Femínismi fyrir mér snýst um að viðurkenna að veruleikinn sé kynjaður, femínismi snýst um að karlar og konur séu ekki í eðli sínu ólík. Ég hafna því að karlar séu „svona“ og konur séu „svona“. Femínismi gengur út á að viðurkenna feðraveldið og áhrif þess á okkar líf. Feðraveldið bitnar mest og verst á konum, en það bitnar á öllum, líka á körlum. Feðraveldið elskar hefðbundna karlmannlega karla og jaðarsetur allt sem ekki er ráðandi karlmennska, þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að taka umræðuna um hvað sé karlmennska.“

Prófaði að vera jaðarsettur Þorsteinn hvetur alla karla sem eru efins um feðraveldið að prófa að naglalakka sig. Mynd/Sigtryggur Ari

Frjáls undan oki feðraveldisins

Þorsteinn segir erfitt að skilgreina karlmennsku, það sé hins vegar auðvelt að skilgreina hvað sé ekki karlmennska. „Það er að naglalakka sig, vera of kvenlegur, vera með of lítið typpi, vera óhandlaginn, þarna er ekki karlmennska. Það er þessi skaðlega eitraða karlmennska, að ætla öllum körlum að uppfylla kröfuna um að hina ráðandi karlmennskuímynd. #Karlmennskan fjallar akkúrat um að fá meira frelsi.“

Þorsteinn leggur hendurnar á kaffibollann sinn. „Karlmennskan í dag rúmast í þessum bolla. Markmið mitt er að brjóta þennan bolla, því karlmennskan getur verið alls konar,“ segir Þorsteinn og leggur hendurnar á borðið.

„Karlmennskan er að mínu viti það að lifa í sátt við sjálfan þig, tilfinningar þínar, hugmyndir þínar um sjálfan þig og lifa í sátt við það sem þú ert. Og gera það í sátt og samlyndi við þá sem eru í kringum þig. Karlmennskan mín felst í að vera ábyrgur, tveggja barna faðir, taka ábyrgð á heimilinu, sýna konunni minni ást og einlægni þannig að hún geti verið einlæg við mig. Karlmennskan mín snýst um að vera frjáls undan oki feðraveldisins.“

Hann segist alls ekki vera að fordæma „masculine“ karla. „Ég er ekki að segja að allir karlmenn sem uppfylla þessa staðalmynd af karlmennskunni séu skaðlegir. Ég er hins vegar á móti því að það eigi að vera ráðandi viðmið um hvernig ég eigi að haga mér. Það að ég sé óhandlaginn, kunni ekki á bíla, sé ekki með sixpakk og hafi ekki áhuga á fótbolta og elski Celine Dion, þá sé ég ekki nógu mikill maður, ég er að hafna því.“

Karlmenn eru ekki eitraðir

Skrif Þorsteins hafa vakið nokkra athygli að undanförnu, þar á meðal pistill hans um teiknimyndina Lói – þú flýgur aldrei einn. Hann hefur fengið á sig harða gagnrýni, þar á meðal í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu þar sem gert var óspart grín að pistlinum. Þorsteinn tekur það ekki nærri sér þótt hann viðurkenni að honum þyki neikvætt umtal óþægilegt. „Við þurfum, nei, við verðum, að afpólarísera umræðuna um femínisma og um það þegar við erum ósammála í grunninn. Við verðum að læra að tala saman um hlutina.

Ég hef aldrei talað við Frosta á X-inu um femínisma, ég hef bara fengið sendar upptökur af honum þar sem hann er stóryrtur um það sem ég stend fyrir. Ég fór í Harmageddon á mánudaginn og talaði þar við Mána. Þá gat ég skilið hvaðan hann er að koma, ég skil að menn rísi upp á lappirnar þegar þeir upplifa árás á eigin sannfæringu. Þegar ég tala um eitraða karlmennsku, þá er ég ekki að tala um að allir karlmenn séu eitraðir eða karlmennskan yfirhöfuð sé eitruð. Ef við hins vegar afneitum því að við búum í kynjuðum veruleika þá verðum við bara að lesa aðeins betur.

Það er eitthvað skrítið að þegar um 90% þeirra sem leita til Stígamóta eru konur og 96% gerenda eru karlar. Kynbundið ofbeldi er plága í heiminum, við sjáum það svo augljóslega í kjölfarið á #MeToo-byltingunni.“

Tengdi mest við Vinstri græn

Þorsteinn var óskrifað blað í stjórnmálum þangað til fyrir þremur árum þegar hann gekk til liðs við Vinstri græn, en í dag er hann varaþingmaður flokksins. „Ég hitti fólk, las stefnur, er ég Sjálfstæðismaður, Framsóknarmaður, Pírati? VG átti við mig, meðal annars vegna þess að það var eini flokkurinn sem var með femínisma sem grunngildi og ég gat tengt mín eigin grunngildi við gildi hreyfingarinnar.“

Stefnir þú á þing?

„Ég fann það að sem starfsmaður í félagsmiðstöð komst ég ekki alla leið með að mæta vanda ungs fólks. Ég stefndi að því að verða forstöðumaður, svo varð ég deildarstjóri þar sem ég fór að vinna meira með stjórnmálamönnum. Þá fékk ég hugmyndina um að það gæti orðið áhugavert að fara í stjórnmál. Eitt hefur leitt af öðru, þannig að í dag, þá sé ég fyrir mér að ég gæti lagt eitthvað að mörkum á pólitískum vettvangi.“

Ekki boðberi heilags sannleika

Átakið #Karlmennskan hefur vakið mikla athygli síðustu daga, átakið byrjaði með færslu á Facebook þann 13. mars. Færslunni hefur verið deilt á Facebook meira en 270 sinnum og hefur einnig vakið mikla athygli á Twitter. „Konur elskuðu þetta til að byrja með, voru að „læka“ og deila. Karlar fara ekki að deila fyrr en aðeins seinna og þá aðallega á Twitter. Síðustu daga hafa komið fleiri hundruð dæmi þar sem karlmenn segja hvernig það er að vera heftir eða upplifa hvernig þeir hafa ekki þorað að sýna tilfinningar eða ást.“

  

Ein sagan er um karlmann sem fór upp í sumarbústað ásamt vinum fimm mánuðum eftir að hann missti barnið sitt. Hann grét og syrgði barnið sitt. Daginn eftir bað hann fólkið sem hann var með í bústaðnum afsökunar á „vælinu í sér“. „Þetta er málið í hnotskurn. Þetta er svo sturlað. Hann fann sig knúinn til að biðjast afsökunar á að hafa syrgt barnið sitt.“

Þorsteinn er fullviss um að það sé hægt að breyta staðalmynd karlmennskunnar. „Fyrirbærið karlmennska er bundið við menningu og tíðaranda. Ímynd karlmennskunnar hefur breyst í gegnum tíðina og er ekki eins alls staðar. Það hvetur mig til að trúa því að það sé hægt að breyta þessari ráðandi skaðlegu karlmennsku.“

Hann kveðst hins vegar ekki vera boðberi heilags sannleika um karlmennsku. „Ég er ekki maðurinn sem ætla að bera út hinn heilaga sannleika um hina einu réttu eða röngu karlmennsku. Það sem ég vil gera er að eiga samtal við karlmenn um hvernig þeir upplifa hlutverk sitt. Þessar sögur sem hafa komið fram lýsa hinni eitruðu karlmennsku. Að þurfa að uppfylla kröfuna um karlmennsku þrátt fyrir að líða illa með það. Og því þarf að breyta. Þess vegna þurfum við að ögra hefðbundnum ráðandi karlmennskuímyndum.“

Kvót:

„Ég var ennþá ég, ég var bara með naglalakk.“

„Við verðum að læra að tala saman um hlutina.“

„Karlmennskan mín snýst um að vera frjáls undan oki feðraveldisins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu