Kemur á markað í september – Stefna að framleiðslu pallbíla innan tveggja ára
Tesla hyggst setja rafmagnsflutningabíl á markað í september næstkomandi. Forstjóri Tesla, Elon Musk, tilkynnti þetta á Twitter-síðu sinni í gær. Þá tilkynnti Musk sömuleiðis að fyrirtækið stefndi að því að setja á markað rafmagns pallbíla og myndi það gerast eftir eitt og hálft til tvö ár.
Tesla nálgast nú óðfluga bílaframleiðandann General Motors í veltu en General Motors hefur til þessa verið veltuhæsti bílaframleiðandi í Bandaríkjunum. Í fyrra fór Tesla fram úr Ford þegar kemur að markaðsvirði.
Nýju Tesla Model 3 bílarnir, sem eru talsvert ódýrari en Model S og Model X, eru væntanlegir á markað í júlí næstkomandi. Fyrirtækið seldi ríflega 76 þúsund bíla á síðasta ári.