fbpx
Þriðjudagur 16.ágúst 2022
Fréttir

Óleystar gátur um fornsögur

Þér að segja – Einar Kárason skrifar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. desember 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir tveimur vikum birtist eftir mig grein á þessum vettvangi um Njáls sögu þar sem ég meðal annars ræddi um líkindi hennar við frægasta verk Sturlu Þórðarsonar; þann part af Sturlungu sem kallast Íslendingasaga. Tilefnið var birting á niðurstöðum nýlegrar stílfræðilegrar rannsóknar á nokkrum íslenskum miðaldaverkum. Sama rannsókn var svo tekin til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveikur á RÚV, og í framhaldi af þessu öllu urðu miklar umræður, ekki síst um uppruna Njáls sögu, meðal annars á Facebook.

Það er í sjálfu sér gaman að svona umræður eigi sér stað, því að oft og tíðum þótti eitthvað hálf ósæmilegt að ræða um uppruna eða hugsanlega höfunda að baki okkar frægustu miðaldabókmenntum. „Fræðasamfélaginu“ þóttu þannig pælingar eitthvað lítilsigldar, einhvers konar neftóbaksfræði og menn áttu að láta sér nægja að sögurnar væru nafnlausar og hefðu bara á einhvern hátt sprottið upp úr þjóðarsálinni, kannski sem samvinnuverkefni síúðrandi munka í klaustrum. En í seinni tíð hafa hins vegar æ fleiri áttað sig á því að á bak við stórar og úthugsaðar bækur eins og til að mynda Njálu, Grettlu eða Eglu stendur að sjálfsögðu einhver höfundur sem hefur formað og úthugsað verkið; framvinduna og aðalpersónur. Og það sem meira er þá hafa virtir fræðimenn stigið fram og tengt okkar helstu miðaldahöfunda við bestu sögurnar; má þar nefna ritgerðir Vésteins Ólafssonar um Eglu og Snorra Sturluson, og rit Sigurðar Nordal úr ritröðinni Studia Islandica um Sturlu Þórðarson og Grettlu.

Verða að rökstyðja aðra skýringu

Mestar umræður hafa að undanförnu orðið um Sturlu Þórðarson sem hugsanlegan höfund Njáls sögu, og hvaða skoðun sem menn vilja hafa í því efni þá er vert að hafa í huga að raktar hafa verið og bent hefur verið á svo margar og gegnumgangandi hliðstæður á milli áðurnefndrar Íslendingasögu Sturlu og svo Njáls sögu, að þær eru í sjálfu sér hafnar yfir vafa. Frásagnir þessara tveggja bóka fylgja í öllum aðalatriðum, og og oft og tíðum út í æsar, nákvæmlega sama frásagnarmynstri, svo að segja má að þær séu eins og tvær myndir sem litaðar hafa verið eftir sömu númerum, en með ólíkum litum. Þetta höfðu bæði erlendir og innlendir fræðimenn rekið augun í og skoðað, og fyrir nokkrum árum tók ég mig til og dró saman í ritgerð allar helstu hliðstæðurnar, og bætti við þeirri uppgötvun sem ég hafði sjálfur gert, að einnig í formgerð eru þessar bækur tvær eins og spegilmynd hvor af annarri; báðar skiptast þær í þrjá skýrt afmarkaða efnishluta sem lýsa má með nákvæmlega sömu orðum.

Ég hef sjálfur dregið þá ályktun af þessari hliðstæðu á milli tveggja bóka sem skrifaðar eru um svipað leyti, í landi án bókaprentunar eða dreifingar, að um sama höfund hljóti að vera að ræða. En hvort sem menn eru sammála þeirri ályktun eða ekki þá breytir það engu um líkindin og hliðstæðurnar á milli umræddra verka; séu menn ósammála mér og mínum skoðanabræðrum verða þeir að koma með og rökstyðja aðra skýringu.

Vert er þess að geta að ýmsir af okkar helstu fræðimönnum hafa sýnt þessum athugunum vinsemd og áhuga, en samt hef ég líka fundið að sumum úr þeirra ranni hefur þótt sem þetta væru með öllu óþarfar pælingar – það er eins og það trufli heimsmynd þeirra að hugsa um svona mál.

Ánægður með munkaumræðuna

Ég nefndi hér í upphafi niðurstöður nýrrar stærðfræðilegrar stílgreiningar á íslenskum fornsögum sem birtar voru í nýjasta hefti Skírnis og varð tilefni þeirrar umræðu sem hefur verið í gangi undanfarna daga, en ein af niðurstöðunum var semsé sú að það væru samkvæmt henni minni líkur á að Sturla Þórðarson hafi samið Njálu en að til að mynda Snorri Sturluson hefði skrifað Eglu. Eftir að þetta varð heyrinkunnugt fannst mér eins og sumir, sem aldrei höfðu gefið þessum kenningum gaum, að minnsta kosti svona opinberlega, yrðu mjög fegnir og teldu að þar með væri þessi umræða úr sögunni og að nú væri allt sem fyrr; sögurnar með öllu nafnlausar og enginn möguleiki á að komast á sporið með höfund; þær væru á einhvern hátt eins og sjálfsprottnar úr sagnaarfi þjóðarinnar, kannski færðar á blað af iðjusömum munkum. Og birtust athugasemdir, jafnt á eyjan.is þar sem grein mín vart birt og á Facebook, sem snerust um að nú hefði afsannast allt sem menn hafi bent á um skyldleika Njálu við atburði ritunartímans, eða Sturlungaaldar, og að auki bókina sem Sturla Þórðarson skrifaði um þá atburði.

Í framhaldinu skrifaði ég þessa athugasemd: „Ég hef á hlaupum kíkt á umræður um höfund Njálu vegna þáttar í gær í sjónvarpinu þar sem gerð var grein fyrir merkilegum niðurstöðum úr rannsókn með glænýrri íslenskri aðferð á stílbrigðum, og gæti orðið vísbending um hugsanlegan höfund. Menn hafa hoppað fram víða á spjallþráðum með svona „I told you so“ fullyrðingar eins og að Njála sé bara „héraðssaga Rangæinga“. Án þess að skilgreina hvað sé átt við með „héraðssaga“. Það heldur því auðvitað enginn fram að Njála sé saga Rangárþings, þótt getið sé um einhverja sem þar bjuggu á vissu tímabili. Þannig að líklega er verið með hugtakinu „héraðssaga“ að tala um sögu sem gerist í héraðinu, og það er svo sem fullgild skilgreining svo langt sem hún nær. Dugir reyndar þá ekki síður fyrir skáldsöguna Hella, eftir Hallgrím Helgason. Aðrir hafa alltaf sagst vita að „munkar“ hafi skrifað Njálu, án þess að vita eða benda á hverjir þeir munkar voru. Ég er samt ánægður með munkaumræðuna; oftar fara menn í rökþroti eða óvitaskap að tala um papa eða álfa.“

Óþarfi að kalla mig „aðra“

Ágætur vinur minn og samherji, Guðmundur Andri Thorsson, áttaði sig á að þegar ég sagði „aðrir hafa alltaf sagst vita að „munkar“ hafi skrifað Njálu“ var ég að vísa til hans og hann svaraði „Óþarfi að kalla mig „aðra“ þó að ég fallist ekki umyrðalaust á hugmyndir þínar um Skáldhöfðingjana sem skrifuðu snilldarverkin í hjáverkum frá lögmannsstörfum og margvíslegum erindreksti en hafi leyft mér að tengja Íslendingasögurnar við þá bókmenntaiðju sem við vitum að átti sér stað í klaustrum landsins“ og það er auðvitað rétt hjá honum, þótt mér hafi fundist að með sínum athugasemdum hafi hann kosið að horfa algerlega framhjá þeim hliðstæðum sem menn hafa uppgötvað við Íslendingasögu Sturlu og atburði Sturlungaaldar. En varðandi þetta með „hjáverk frá lögmannsstörfum“ þá var það nú ekki svo að lögmenn á þjóðveldisöld hafi rekið lögfræðiskrifstofur, heldur voru skyldur þeirra aðallega bundnar við þingdaga á sumrin.

Helga Kress kom inn í umræðuna og sagði: „Einu sinni handtaldi ég (fyrir meir en mannsaldri og birti í fræðigrein) að það væru 550 karlar í Njálu og 100 konur, þ.e.a.s. fimm og hálfur karl á móti einni konu. Að þessu var gert mikið grín með tilheyrandi uppnefningum, m.a.s. á prenti. Nú sé ég mér til bæði ánægju og uppreistar æru, að sams konar tölfræði hefur verið endurvakin af mikilli list og fræðilegri alvöru.“ Og spurði í framhaldinu hvort það gæti verið vísbending ef sama kynjahlutfall reyndist vera í Íslendingasögu Sturlu. Sjálfur er ég efins um það; augljóslega eru miklu fleiri karlar í Sturlungu, enda segir hún frá mörgum fjöldaorrustum og þylur þá oft nöfn bardagamanna.

Margir lögðu orð í belg og vildu meina að það væru kannski fleiri en einn höfundur að bókum eins og Njálu, en hins vegar blasir við að það er einn skapandi hugur á bak við gerð verksins, „mastermind“, þótt aðalhöfundur gæti hafa verið með aðstoðarmenn og hjálparkokka. Fræðimaður einn benti á að Snorri og Sturla hafi trúlega verið með skrifara, sem getur vel verið og breytir í raun engu um höfundarverkið – svo er hins að gæta að þeir voru báðir vel skrifandi, og það hafa komið fram rökstuddar kenningar um að lögbókin Járnsíða hafi verið kynnt Íslendingum með rithönd Sturlu.

Altént, sá sem samdi Njálu var mjög handgenginn hinu mikla verki Sturlu um Sturlungaöld. Út frá því þarf að ræða málin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Síbrotamaður á Akureyri úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um 22 brot

Síbrotamaður á Akureyri úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um 22 brot