fbpx
Mánudagur 04.mars 2024
Fréttir

Bauð Hörpu afslátt af leigunni gegn því að selja sig: DV með falda myndavél hjá manninum – „-Vona að síminn sé ekki hleraður“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Fimmtudaginn 26. október 2017 23:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vona að síminn hjá mér sé ekki hleraður. Mér leið ekkert voðalega vel þarna í gær.“ Þetta sagði tæplega sextugur leigusali sem gekk í gildru DV og bauð ungri konu í örvæntingarfullri leit að húsnæði lægra leiguverð gegn því að hann fengi að stunda með henni kynlíf. Á góðri íslensku heitir það að nýta sér neyð fólks. Það flokkast einfaldlega sem vændi. Neðar í fréttinni má sjá myndskeið þegar DV fór heim til mannsins með falda myndavél.

Fyrr í mánuðinum sendi Harpa Lind Pálmarsdóttir, frá sér neyðarkall. „SOS. Vantar þak yfir höfuðið sem fyrst. Er róleg og reglusöm. Drekk ekki. Er með fastar tekjur. Draumastaður er Hafnarfjörður.“ Neyðarkallinu svaraði tæplega sextugur maður sem átti íbúð í fallegu húsi í Hafnarfirði. Fljótlega bauð hann konunni lægra leiguverð gegn kynlífi. DV hefur undir höndum upptökur í hljóði og mynd. Á einni upptökunni má heyra hann segja að hann sé reiðubúinn að lækka leiguna um 50 þúsund gegn því að fá að stunda kynlíf með konunni.

Leigumarkaður

Leigumarkaðurinn á Íslandi getur verið grimmur. Á síðustu árum og mánuðum hefur leiguverð rokið upp úr öllu valdi. Fólk með börn eða gæludýr á erfitt með að finna þak yfir höfuðið. Margir eru örvæntingarfullir og grípa til örþrifaráða. Síðan eru það leigusalar sem nýta sér neyð þessa fólks, stundum með viðbjóðslegum hætti. DV hefur heimildir fyrir því að leigusalar nýti sér neyð kvenna og vilji fá kynlífsgreiða gegn lægra leiguverði. Harpa Lind er ein þeirra kvenna sem hefur fengið slíkt tilboð. Það hefur verið kært til lögreglu. Var henni mjög brugðið þegar maðurinn leitaði á hana með þessum hætti.

Harpa Lind Pálmarsdóttir.
Auglýsti eftir íbúð. Harpa Lind Pálmarsdóttir.

Harpa Lind var að leita að íbúð til leigu, helst í Hafnarfirði. Eftir að Harpa skoðaði íbúðina bauðst maðurinn til að lækka leiguverðið í skiptum fyrir kynlíf. Harpa neitaði en gaf DV leyfi til að halda áfram með málið. Blaðamaður DV hringdi í manninn og þóttist vera Harpa og sagðist hafa snúist hugur. Í kjölfarið fóru blaðamenn DV heim til mannsins og ræddu við hann.

Vanur að kaupa sér þjónustu kvenna

Harpa Lind setti inn auglýsingu á Facebook-hópinn „Leigusíða Facebook“ og fékk í kjölfarið skilaboð frá 58 ára karlmanni. Hann sagðist hafa séð auglýsinguna og bað Hörpu um að hafa samband. Í kjölfarið fór Harpa að skoða íbúðina.

„Þegar ég var að fara út úr dyrunum hringdi vinkona mín og ég bauð henni sem betur fer að koma með. Þegar við vorum að skoða íbúðina fannst mér hann vandræðalegur. Hann sagði við mig að hann vildi hugsa aðeins um þetta og klára að standsetja íbúðina.“

Maðurinn kvaðst ætla að hringja í Hörpu eftir tvo daga. Við það stóð hann. „Hann var líka vandræðalegur í símanum og var að reyna að koma sér að efninu. Hann sagði svo: „Ég kom þessu ekki frá mér á sunnudaginn en ég er vanur að kaupa mér þjónustu kvenna. Gæti það gengið upp í leigu?“ Ég varð auðvitað gapandi hissa og sagði: „HA?“ Þá sagði hann: „Já, blíðu kvenna.““

Harpa tjáði honum að það gæti hún ekki hugsað sér. „Það kom í mig smá grybba, ég var svo hneyksluð. Þá sagði hann: „Já þá er leigan 180 þúsund, þú hefur ekkert efni á því er það?“ Ég þakkaði fyrir og lauk símtalinu.“

Grafalvarlegt mál

Þegar Harpa er beðin um að lýsa manninum er fyrsta orðið eðlilegur. Hann hefði getað verið hver sem er. Ekki hefði verið hægt að merkja á honum við fyrstu kynni hvað hann hefði í huga. Hann gæti verið afi, frændi, faðir. Frekar feiminn og hlédrægur. Maður á aldur við föður Hörpu. Sem vildi kynlíf til að lækka leiguverð.

„Þegar hann spurði hvort ég væri til í að sofa hjá honum í skiptum fyrir lægra leiguverð voru fyrstu viðbrögðin mín að hlæja. Ég óttast að það sé nokkur fjöldi af konum sem tekur við svona tilboðum í örvæntingu. Annað hvort vegna þess að þær gætu misst íbúðina og eins vegna þess hversu hátt leiguverð er. Vinkona mín hvatti mig til að hringja í lögregluna og ég gerði það,“ segir Harpa og ljóst að málið hefur fengið mikið á hana.

„Þegar hann spurði hvort ég væri til í að sofa hjá honum í skiptum fyrir lægra leiguverð voru fyrstu viðbrögðin mín að hlæja.“

„Ég er hægt og rólega að gera mér grein fyrir því hvað þetta er hrikalega alvarlegt mál. Það eru rosalega margir sem lenda í þessu. Það eru til konur sem eru það örvæntingarfullar með börnin sín, kannski á götunni eða í annarlegu ástandi til dæmis.“

Harpa vill vekja athygli á málinu til að vara aðra við og sýna hvernig leigumarkaðurinn er orðinn.

„Þetta er fáránlegt og lýsir hans innri manni að notfæra sér þetta.“

Blaðamenn DV blanda sér í málið

Aníta Estíva blaðamaður DV hringdi tvisvar í manninn og þóttist vera Harpa. Hún sagðist hafa skipt um skoðun og væri hugsanlega til í að skipta kynlífi fyrir lægra leiguverð. Hér að neðan má heyra upptökuna en athygli er vakin á því að neðst í fréttinni er myndbandið af heimsókn blaðamanna DV til mannsins.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=XA9MAYtAj1A&w=560&h=315]

Í samtalinu sagðist maðurinn hafa verið með tvo leigjendur í tveimur íbúðum úti og hún þyrfti ekki að óttast vanefndir að hans hálfu. Aníta og maðurinn ákváðu að leiguverðið myndi lækka í 140 þúsund krónur á mánuði í skiptum fyrir kynlíf.

„Ég er að spá, því ég hef aldrei gert neitt svona áður, hvernig þjónustu þú ert að búast við. Svo ég hafi einhverja hugmynd um hvað við séum að fara að gera?“ Spurði blaðamaður DV.

„Það er nú bara ósköp venjulegt. Ég er ekki með neinar sérþarfir. Svona þér að segja þá hefur mér blöskrað. Ég er búinn að vera lengi á Einkamál og það er fátt ókeypis þar.“

Blaðamaður DV sagðist ætla að hugsa þetta aðeins og ætla að hringja í hann aftur.

Lækkar leiguverð í skiptum fyrir mánaðarlegar samfarir

„Hæ, þetta er ég aftur hérna, Harpa,“ sagði Aníta blaðamaður DV og hélt áfram: „Heyrðu ég er búin að vera að hugsa þetta og ég held að ég sé alveg tilbúin í þetta. En ég var að spá hvort við getum lækkað verðið um tíu þúsund í viðbót ef við myndum þá hafa það fast að sofa saman einu sinni í mánuði eða eitthvað svoleiðis?“

„Jú ég hef ekkert að gera með þessa aura.“

Blaðakona DV tók fram að hún væri í vandræðum og lægra leiguverð væri að hjálpa. Hún spurði um leigusamning og sagði maðurinn að hann vissi ekki hvar hann ætti að ná í slíkan. Blaðakona DV sagði að hún gæti séð um það.

„Jú ég hef ekkert að gera með þessa aura.“

„Ég geri þá samninginn tilbúinn og set 130 þúsund sem leiguverð. Ég er kannski ekkert að taka það fram í samningnum að hluti af honum sé að sofa saman einu sinni í mánuði. Ég set það kannski frekar sem auka þjónustu.“

„Já eða eitthvað bara. Já já, það er hérna, ég vona að síminn hjá mér sé ekki hleraður. Mér leið ekkert voðalega vel þarna í gær.“

Bauðst til að borga hærra leiguverð

Kristjón Kormákur ritstjóri DV.is hringdi í manninn og sagðist hafa heyrt af íbúðinni sem hann væri með til leigu. Kristjón bauðst til að borga töluvert meira á mánuði fyrir íbúðina en Harpa. Maðurinn neitaði og sagðist vera í samningaviðræðum við konu um íbúðina.

Blaðamenn hitta leigusalann

Kristjón Kormákur ritstjóri DV, Guðrún Ósk og Aníta Estíva blaðamenn DV fóru í heimsókn til mannsins, Sigtryggur Ari ljósmyndari var með í för og Guðrún Ósk var með falda myndavél á sér. Dyrnar voru opnar og kallaði maðurinn að þau ættu að koma inn þegar blaðamenn bönkuðu á hurðina. Maðurinn tók hress á móti blaðamönnum DV, brosmildur og í góðu skapi. Kristjón Kormákur spurði um íbúðina sem hann væri með til leigu og sagði maðurinn að hann væri að öllum líkindum búinn að leigja hana út. Kristjón Kormákur tilkynnti þá manninum að þau kæmu frá DV og svipurinn breyttist samstundis.

„Blaðakona DV hafði samband við þig fyrr í dag út af íbúðinni sem þú ert að leigja… Þú vildir lækka leiguna gegn því að fá að stunda með henni kynlíf.“

„Nú er það?“ Spurði maðurinn.

Maðurinn rak blaðamenn DV út en ræddi aðeins við þá í dyragættinni. Aðspurður hvort honum fyndist í lagi að bjóða lægra leiguverð í skiptum fyrir kynlíf svaraði hann ekki.

Maðurinn sagði blaðamönnum DV að hann hefur verið á Einkamál síðastliðin átta ár og þar sé ekki allt „á borði eins og það sé í orði.“ Hann sagði að blaðamenn hafa engan áhuga á því og að „þetta er bara málaflokkur sem er í rugli.“

Hér að neðan má sjá myndbandið þegar blaðamenn DV hittu manninn.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=TAInUmTHuVE&w=600&h=415]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hart deilt um Bashar – Egill sakar Andrés um að ala á útlendingaandúð – „Þú ert kominn út á mjög hálar brautir“

Hart deilt um Bashar – Egill sakar Andrés um að ala á útlendingaandúð – „Þú ert kominn út á mjög hálar brautir“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Rússneski flugherinn er í veikari stöðu eftir áfallið í síðustu viku

Rússneski flugherinn er í veikari stöðu eftir áfallið í síðustu viku
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pólverjar vara Bandaríkin við – Afleiðingarnar verða miklar – Líka fyrir ykkur

Pólverjar vara Bandaríkin við – Afleiðingarnar verða miklar – Líka fyrir ykkur