Illa brunnið konu lík fannst í garði íbúðarhúss í Lundúnum aðfaranótt fimmtudags. Grunur leikur á að líkið sé af au pair einnar fjölskyldunnar sem býr í húsinu. Húsráðendur eru í haldi lögreglunnar, fertugur karlmaður og 34 ára kona, grunuð um að hafa myrt konuna.
Líkið er svo illa farið að sögn breskra fjölmiðla að beðið er eftir niðurstöðum réttarmeinafræðinga á hvort um karl eða konu sé að ræða. Telegraph segir að nágrannar fjölskyldunnar, sem býr í einu af betri hverfum borgarinnar, séu þess fullvissir að líkið sé af Sophie Lionnet, 21 árs frá Frakklandi sem starfaði sem au pair hjá fjölskyldunni.
Lionnet er frá Troyes í norðausturhluta Frakklands. Hún er sögð hafa starfað hjá fjölskyldunni í 20 mánuði en hún kom til Englands til að læra ensku. Nágrannar höfðu ekki séð til hennar síðan í ágúst. Telegraph hefur eftir vini hennar að hún hafi verið óhamingjusöm um tíma og hafi átt að fljúga heim til Frakklands á mánudaginn en hafi ekki skilað sér heim.
Blaðið segir að konan, sem var handtekin vegna málsins, heiti Sabrina Quider og sé fyrrum unnusta þekkts manns í tónlistarheiminum en sá búi nú í Bandaríkjunum. Hún er sögð vera hönnuður og förðunarmeistari. Hún á tvö börn, annað með tónlistarmanninum. Núverandi unnusti hennar er af fransk-alsírskum ættum.
Nágrannar segjast hafa séð reyk stíga upp frá garðinum á miðvikudagskvöldið og grunar að þá hafi þau handteknu verið að brenna líkið en daginn áður hafði verið kvartað undan slæmri lykt í húsinu en húseigandum tókst ekki að finna upptök lyktarinnar.