fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

„Costco-bensínið dugar ekki betur „

Íslensku olíufélögin óttast ekki samkeppnina -Bíða þess að mesta sveiflan gangi yfir

Kristín Clausen
Föstudaginn 23. júní 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson Formaður Neytendasamtakanna.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Miklar umræður hafa skapast um verð á eldsneyti eftir að Costco opnaði bensínstöð í Kauptúni í Garðbæ fyrir rúmum mánuði. Sitt sýnist hverjum en það er ekkert launungarmál að Íslendingar hafa tekið nýjustu viðbótinni opnum örmum. Stóra spurningin er þó hvort vinsældir bensínstöðvarinnar séu komnar til að vera eða hvort fólk eigi eftir að snúa aftur á „sínar stöðvar“ þegar nýjabrumið er farið. Forstjórar íslensku olíufélaganna segjast ekki hafa miklar áhyggjur af þessum nýja samkeppnisaðila. Þá hefur því ítrekað verið kastað fram að Costco-bensínið sé einfaldlega betra en það sem við höfum þekkt hingað til. Hvað þetta varðar sitja forstjórarnir fyrir svörum sem og formaður Neytendasamtakanna og framkvæmdastjóri FÍB. Þá fullyrða allir forstjórarnir að orðrómurinn um að Costco-bensínið dugi betur sé nákvæmlega það – orðrómur.

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. „Veislan á kostnað neytenda er búin“

„Íslenskir neytendur eru vaknaðir. Það er engin spurning,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. Hann telur að áhrif Costco á Íslandi séu rétt að byrja. Íslendingar hafi of lengi sætt sig við fákeppni og séu nú að vakna til meðvitundar. „Við sjáum að arðsemi bæði smásöluverslana og olíufélaganna hefur verið slík, í þessu fámenna landi, að þetta er fákeppnisgróði sem þarna hefur orðið til. Sú veisla, sem hefur verið á kostnað neytenda, er búin.“

Ólafur fagnar jafnframt nýjustu hræringunum á íslenska smásölu- og eldsneytismarkaðinum – að Hagar hafi keypt allt hlutafé í Olís, Skeljungur sameinast Iceland og 10-11 og N1 búið að kaupa Festi hf. „Það er þó ekki nóg að olíufélag kaupi smásölufyrirtæki og öfugt. Þau þurfa að bjóða neytendum lægra verð og minni álagningu.“ Þá þykir Ólafi það einstaklega ánægjulegt að Costco virðist ætla að láta Íslendinga njóta góðs af heimsmarkaðsverði á olíu sem og stöðu krónunnar.

„Á meðan munurinn á eldsneytisverðinu er svona mikill er vel skiljanlegt að fólk leggi á sig ferðalag í Garðabæinn til að taka bensín. Núna er um það bil 30 krónu munur á lítranum á milli Costco og þjónustustöðvanna. Ef þú ætlar til dæmis að setja 40 lítra á bílinn þá sparar þú 1.200 krónur á hverri áfyllingu. Það fljótt að telja. Ég tala nú ekki um þegar þú getur svo farið í Costco og keypt rúðuþurrkur, smurolíu, rafgeyma og dekk á miklu lægra verði verið hefur.“

Ólafi þykir sömuleiðis líklegt að í náinni framtíð muni íslensku olíufélögin minnka sína yfirbyggingu. „Þessar steinsteypuhallir, þar sem er allt á milli himins og jarðar er selt á uppsprengdu verði, eru úreltar. Neytendur vilja einfaldari umgjörð og lægra verð. Hann segir það heldur ekki skrítið að um þessar mundir séu forstjórar olíufélaganna mikið í að tala upp sín fyrirtæki. „Þetta er eðlilegt. Svo kemur að því að þau bregðast við. Þau geta ekki annað.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Segir fólk sjá í gegnum olíufélögin

„Áhrifin hafa verið gríðarlega mikil. Margir gera sér ferð í Garðabæinn til að kaupa eldsneyti í Costco. Þetta eru skýr merki um breytta kauphegðun íslenskra neytenda.“ Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, (Félags íslenskra bifreiðaeigenda) í samtali við DV. Hann segir jafnframt að íslensku olíufélögin hafi öll brugðist við þessari nýju samkeppni.

„Þau þykjast samt ekkert vera að því en það sér hver maður í gegnum þetta. Olís, N1 og Skeljungur eru öll á leiðinni í þetta sambærilega módel, það er að tengjast verslunum.“

Runólfur telur að í náinni framtíð muni útsölustöðum eldsneytis snarfækka, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. „Það er mikið offramboð á eldsneytisstöðvum sem neytendur borga fyrir með hærri álagningu.“ Þá telur Runólfur að þróunin verði í þá veru að öll olíufélögin eigi eftir að lækka sitt útsöluverð.

„Hingað til hefur eldsneytisverð verið alltof hátt á Íslandi. Þetta er bara rétt að byrja. Viðbrögðin við innkomu Costco verða meiri eftir því sem líður á. Það er ég alveg viss um.“

Framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson Framkvæmdastjóri FÍB.

##Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís. Gætu þurft að endurmeta stöðuna

„Costco fær sína frumsýningu. Svo sjáum við hvernig þeim verður tekið í íslensku smásölumengi.“ Þetta segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, um nýjasta keppinautinn á íslenskum olíumarkaði. Hann segir Olís þó ekki vera í beinni samkeppni við Costco.

„Við ætlum að halda áfram að gera það sem okkur finnst við hafa gert vel. Okkar fyrstu viðbrögð eru einfaldlega að bíða eftir því að mesta sveiflan gangi yfir. Costco hefur auðvitað fengið gríðarlega umfjöllun í fjölmiðlum. Því er ekkert skrítið að fólk sé að tapa sér. Væntingarnar voru svo miklar.“

Jón bendir á að Olís sé með allt annað viðskiptamódel en Costco. Til dæmis kappkosti starfsmenn hjá Olís að þjónusta bílinn og bíleigandann. „Við bjóðum upp á þjónustu inni í hverfunum og úti á landi. Við erum í nærþjónustu við okkar viðskiptavini nánast hvar sem er.“

Hann segir þjónustu sem þessa sannarlega kosta sitt. „Hingað til hefur þjónustustigið verið eins um allt land. Nú verðum við hins vegar að bíða og sjá hvort það sé enn eftirspurn eftir þessu þjónustustigi. Ef það er ekki þá þurfum við mögulega að endurmeta stöðuna og ákveða upp á nýtt hversu langt við ætlum að að ganga í því að þjónusta viðskiptavini okkar á kostnað lægra verðs.“

Líkt og fram hefur komið festu Hagar kaup á öllu hlutafé í Olís í lok apríl. Áður hefur komið fram að markmið kaupanna sé að bæta þjónustu við viðskiptavini Haga sem jafnframt hafa fest kaup á Lyfju. Jón Ólafur gerir ráð fyrir að Olís sameinist Högum eftir að samkeppniseftirlitið hefur skoðað og lagt blessun sína yfir kaupin. Hann telur of snemmt að segja til um hvort eða hvernig breytingar verða gerðar á rekstrinum eftir sameininguna. „Það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum.“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 „Bauhaus seldi meira en Byko og Húsasmiðjan fyrstu 30 dagana“

„Við erum ekki í samkeppni við Costco og munum aldrei vera það. Þeir eru með eina bensínstöð í Garðabæ á meðan við erum með yfir 100 stöðvar um allt land, sem eru opnar allan sólarhringinn.“ Þetta segir Eggert Þór, forstjóri N1, sem viðurkennir þó að þeir geti lært heilmikið af Costco þar sem þar á bæ séu frábærir „markaðssnillingar“ sem hafa nýtt sér fjölmiðla til að fá ókeypis umfjöllun.

Þá eru yfirvofandi breytingar hjá N1 sem festi nýlega kaup á Festi hf. Undir þeirri samsteypu eru verslanir og fyrirtæki á borð við Krónuna, Nóatún, Kjarval, Elko, vöruhótelið Bakka og fasteignasafn Smáragarðs. Eggert segir þó ekki tímabært að segja til um hvernig breytingar séu í farvatninu þar sem ferlið sé að rétt að byrja. Enn á eftir á að klára kaupsamning, fá samþykki hluthafafundar og síðan á samkeppniseftirlitið eftir að gefa grænt ljós á kaupin.

Eggert kveðst alls ekki hafa miklar áhyggjur af innkomu Costco á íslenskan eldsneytismarkað. Sérstaklega í ljósi þess sem sagan hefur kennt okkur þegar nýjungar eru kynntar til leiks á Íslandi.

„Bauhaus seldi meira en Byko og Húsasmiðjan fyrstu 30 dagana. Ég veit ekki alveg hvort það sé enn þannig. Það var líka biðröð á Dunkin’ Donuts fyrstu tvær vikurnar. Íslenska brjálæðið á til að vera mjög hresst og skemmtilegt. Við tökum hlutina með trompi. Það er ekkert að því.“

Þá segir Eggert: „Ég veit alveg hvað kostar að kaupa bensín til Íslands og selja það ef taka á tillit til alls kostnaðar og fjárfestinga sem eru talsverðar. Ef N1 myndi selja bensín á sama verði og Costco þá myndi ég tapa á því. Og af því að N1 er markaðsráðandi aðili á olíumarkaðinum þá væri það lögbrot og við hjá N1 erum með skýra sýn á að fylgja eftir öllum lögum og reglum. Ólíkt okkur, þar sem bensín og olía eru okkar helsta söluvara, þá nota Costco-menn eldsneytið til að lokka fólk í verslunina sína. Þess vegna niðurgreiða þeir bensínið og það er greinilega markaðskostnaður hjá þeim, sem er fín strategía hjá þeim en gengur ekki upp fyrir N1.“

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs „Ekkert hefur komið okkur á óvart“

„Costco notar bensín sem aðdráttarafl í vöruhúsið. Út frá því má fullyrða að þeir séu nokkuð ódýrari en aðrir. Það er heldur ekkert launungarmál að það er búið að vera heilmikið að gera hjá Costco.“ Þetta segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs, um innkomu Costco á íslenska olíumarkaðinn. Hann bendir jafnframt á að þar sem eldsneyti sé ekki kjarnastarfsemi Costco sé álagning mun lægri. Að sama skapi séu ekki allir á höttunum eftir lægsta eldsneytisverðinu. „Það eru ekkert allir að leita að lægsta verðinu heldur gera meira út á þægindi og þjónustu. Það bjóðum við upp á,“ segir Valgeir.

Þá bendir hann á að Skeljungur bjóði sínum viðskiptavinum upp á val og net bensínstöðva um allt land. Fyrir utan þjónustustöðvar Skeljungs er fyrirtækið með Orkuna, þar sem flestir viðskiptavinir borga eldsneyti með svokölluðum „orkulyklum“ og fá afslátt í takt við notkun. Þá er Skeljungur einnig með fjórar eldneytisstöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem heita Orkan X. „Þar eru engir afslættir heldur ávallt boðið upp á lægsta verðið hverju sinni. Þetta er svipað módel og er á verðlagningu Costco. Í dag munar 4 til 5 prósentum á verðinu hjá Orkunni X og Costco,“ segir Valgeir.

Skeljungur er því, að sögn forstjóra fyrirtækisins, ekki með nein sérstök viðbrögð í gangi vegna komu Costco. Skeljungur ætli að halda sínu striki og reka vörumerkin með sama hætti og verið hefur til þessa. „Ekkert hefur komið okkur á óvart varðandi það hvernig þeir hafa farið af stað.“

Að lokum segir Valgeir: „Samkeppni er góð og brýnir þá sem fyrir eru.“

Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu „Of snemmt að segja til um áhrifin“

„Já, við finnum fyrir komu þeirra en teljum enn of snemmt að segja til um hver áhrifin verða,“ segir Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, um innkomu Costco á íslenska eldsneytismarkaðinn. Guðrún segir starfsfólk Atlantsolíu ætla að halda sínu striki. Hingað til hefur fyrirtækið mælst með um 10 prósenta markaðshlutdeild á íslenska olíumarkaðinum.

„Atlantsolía hefur alltaf boðið upp á afsláttarkjör sem aukast eftir því sem þú notar meira. Þá erum við með 19 stöðvar um allt land, sem eru opnar allan sólarhringinn, og ánægðustu viðskiptavinina samkvæmt íslensku Ánægjuvoginni 2017.

Við erum mjög stolt af okkar vinnu og árangrinum. En það má alltaf gera betur.“

Guðrún segir ósköp eðlilegt að fólk leitist við að finna besta eldsneytisverðið en í þeim samanburði má ekki gleyma að taka tillit til þeirra afsláttarkjara sem í boði eru. „Það verður líka að taka í jöfnuna hvort það borgar sig að keyra langt eftir nokkurra króna mun. Bæði fjárhags- og tímalega séð.“

Þá fagnar Guðrún því að neytendur hafi fengið fleiri valkosti. „Ólíkt Costco og hinum olíufélögunum þá erum við ekki að selja aðra vöru. Við erum ekki að lokka fólk til að „kíkja við í búðinni“ eða nýta sér aðra þjónustu. Við reynum heldur að gera eldsneytiskaupin sem einföldust og fljótlegust. Fólk getur fengið kvittanir í tölupósti og einnig fengið yfirlit yfir öll sín viðskipti á svokölluðum „Mínum síðum“. Þá skiptir okkur líka miklu máli að stöðvarnar falli sem best að umhverfinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Handtekinn eftir húsbrot og líkamsárás

Handtekinn eftir húsbrot og líkamsárás
Fréttir
Í gær

Réttarhöld verða opin í viðkvæmu ærumeiðingarmáli gegn Möggu Frikka – Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms

Réttarhöld verða opin í viðkvæmu ærumeiðingarmáli gegn Möggu Frikka – Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms
Fréttir
Í gær

Grunur um fyrstu banvænu bjarndýrsárásina í Flórída – 89 ára gamall maður fannst látinn ásamt hundi sínum

Grunur um fyrstu banvænu bjarndýrsárásina í Flórída – 89 ára gamall maður fannst látinn ásamt hundi sínum