Tónlistarmaðurinn Bjarni Jóhannes Ólafsson svipti sig lífi –„Hann dó úr sínum sjúkdómi,“ segir systir hans, Ragna Dögg Ólafsdóttir.
„Bjarni var búin að berjast við kvíða og þunglyndi í töluverðan tíma. Hann dó úr sínum sjúkdómi og skilur eftir sig risastórt skarð í lífi okkar allra.“ Þetta segir Ragna Dögg Ólafsdóttir, en bróðir hennar, Bjarni Jóhannes Ólafsson, svipti sig lífi 19. apríl síðastliðinn. Hann var jarðsunginn frá Akureyrarkirkju 2. maí.
Bjarni var söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Churchhouse Creepers sem áhugafólk um rokktónlist ætti að kannast við. Ragna segir bróður sinn hafa átt góða daga áður en hann dó. Alda þunglyndis hreif Bjarna svo fyrirvaralaust með sér. Burt frá þeim sem elskuðu hann.
Hljómsveitarmeðlimir Dimmu syrgja einnig Bjarna. Í sameiginlegum pistli frá þeim segir að rokksamfélagið hafi nú kvatt einn sinn efnilegasta og flottasta meðlim. „Bjarni og strákarnir voru alltaf svo ótrúlega góðir, þéttir og spilagleðin lak af þeim. Það var frábært að sjá bandið taka stórstígum framförum síðustu misserin. Þeirra var framtíðin og hún var björt.“
Þá segir í pistlinum: „En svarti hundurinn er grimmur. Þegar hann bítur þá er það óvænt og fast. Bjarni sá ekki aðra leið en þá sem hann tók. Þó svo að alls konar lausnir og úrræði blasi við þeim sem horfa á málin utan frá og eftir sitja þá er eðli þunglyndis og kvíða þannig að dómgreind og rökhugsun skerðist. Fólk sér bara eina lausn, eins ótrúlega sorglegt og tilgangslaust og það nú er.“
Hljómsveitarmeðlimir Dimmu segja að Bjarni hafi staðið sig vel í lífinu og það hafi alltaf verið jafn ánægjulegt að hitta hann og ræða um þungarokk. „Hann var svo rosalega stoltur af bandinu sínu á sama tíma og hann hrósaði okkur fyrir okkar velgengni. Auðmjúkur og metnaðargjarn strákur.“
Þá segja þeir Biggi, Stebbi, Silli og Ingó að stórt, loðið og brosandi skarð hafi myndast í rokkfjölskylduna. Þeir vilja einnig koma því á framfæri að það sé ekki veikleikamerki að leita sér hjálpar ef manni líður illa.
„Staðan er aldrei eins slæm og manni getur fundist og það er alltaf svo mikið sem er þess virði að lifa fyrir þó að það sé stundum erfitt að koma auga á það í miðju stríðinu. Skál fyrir þér elsku Bjarni í partýinu sem þú ert í núna og takk fyrir allt sem þú gafst okkur öllum sem þekktu þig.“