Eldur kom upp í sendiferðabifreið skammt frá Geirsnefi í Reykjavík á fjórða tímanum í dag. Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér lagði mikinn reyk frá bifreiðinni.
Bifreiðin staðnæmdist á frárein frá Vesturlandsvegi í átt að Sæbraut. Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að engin slys hafi orðið á fólki og að slökkvistarf hafi gengið vel.
Eldsupptök eru ókunn en eldurinn mun hafa kviknað undir bílstjórasæti bifreiðarinnar.