„Jæja þá er Stakkholtshundaævintýrinu lokið. Málalyktir voru þær að hundarnir voru kosnir út með miklum meirihluta.“ Þetta segir Hilmar Birgir Ólafsson sem tapaði í gær kosningu þess efnis, á húsfundi, að hundurinn hans fengi að búa áfram í íbúðinni.
Forsaga málsins er sú að Hilmar og unnusta hans Herdís keyptu sér nýlega íbúð í Stakkholti en saman eiga þau hundinn Tinna. Í samtali við DV í síðustu viku sagði Hilmar að þau hefðu staðið í þeirri trú að þau þyrftu ekki sérstakt leyfi fyrir hundinn þar sem ekki er inngengt í íbúðina frá stigagangi blokkarinnar.
Í vetur lentu þau í deilum við nágranna sína sem vildu hundinn burt. Málalyktir urðu þær að kosið yrði á húsfundi um það hvort að Tinni sem og aðrir hundar sem búa í húsinu fengju að vera þar áfram. Líkt og áður hefur komið fram töpuðu hundaeigendurnir kosningunni.
„Rökin fyrir því voru í fyrsta lagi að fólk ætti vini eða ættingja með ofnæmi og í öðru lagi að húsið myndi fljótt fyllast af hundum ef Tinna og hinum hundunum tveimur yrði leyft að vera hér.“
Hilmar segir í opinni færslu á Facebook um málið að honum þykir ofnæmisrökin hæpin. Hann á bágt með að trúa því að fólk finni fyrir ofnæmi af því einu að labba um sameign þar sem hundar fara um einu sinni eða tvisvar á dag.
„Enda var enginn með ofnæmi. Einungis var um möguleg ofnæmi að ræða. Rökin um að hér fyllist allt af hundum um leið eru einnig hæpin. Það mun alltaf vera eitthvað áreiti sem fylgir því að búa í fjölbýli. Við sjáum ekki hvernig það er öðruvísi að heyra háa tónlist eða finna lykt af ógeðslegum mat en að heyra smá gelt af og til,“ segir Hilmar.
Hann bendir jafnframt á að stórar blokkir eins og í Stakkholtinu séu framtíðin í byggð í Reykjavík. Þess vegna þurfum við Íslendingar að endurskoða lög um hundahald.
„Við erum algjörlega á því að það þurfa að vera til úrræði ef hundar eru til vandræða en eins og lögin eru núna þá er eiginlega ómögulegt að búa löglega með hund í fjölbýlishúsi. Tinni fór aldrei inn í sameign og geltir ekkert þegar hann er einn á daginn. Fyrir utan atkvæðin sem við fengum umboð til að nýta sjálf var einn sem kaus með honum í stigaganginum okkar (í leynilegri kosningu).“
Hilmar segir að þannig hafi hundur sem er svo gott sem ósýnilegur fengið eitt af 22 atkvæðum. En það þarf samþykki 2/3 íbúðareigenda til að fá leyfi til að hafa hund í fjölbýli.
„Lögin sem gilda núna eru bæði óskýr og mjög ströng og ef við ætlum að hafa þau svona þá gætum við alveg eins formlega bannað hundahald fyrir alla sem geta ekki keypt sér einbýlishús. Hundar eru leyfðir í fjölbýlishúsum í mörgum borgum og ekki hefur maður heyrt að það sé til mikilla vandræða.“
Hilmar vonast til þess að allur stuðningurinn sem þau fundu fyrir sé til marks um að þetta eigi eftir að breytast. „Við fengum ótal ábendingar um hvernig við gætum reynt að snúa upp á lögin sem var frábært en við höfum ákveðið að gefast upp og flytja. Okkur finnst Stakkholtið ekki lengur vera heimilið okkar.“
Að lokum vill Hilmar þakka öllum þeim sem höfðu samband, sýndu þeim stuðning, veittu þeim umboð til að kjósa á húsfundinum og stöppuðu í þau stálinu. „Þetta hefði verið miklu erfiðara án ykkar.“