fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

Hver er þessi Sigurður Ingi? Arftaki Sigmundar sagður forn í hugsun en traustur – „foreldramissirinn afskaplegt högg“

Missti foreldra sína í bílslysi – Ætlaði að hætta í pólitík 2009 – Sagður traustur en gamall í hugsun

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 5. apríl 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt bendir til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verði næsti forsætisráðherra Íslands. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði það til síðdegis eftir viðburðaríkan dag og verður þessi tillaga borin undir sjálfstæðismenn. En hver er eiginlega Sigurður Ingi Jóhannsson sem gæti óvænt sest í forystusæti ríkisstjórnarinnar? DV.is skoðar hér feril þessa 53 ára dýralæknis sem fæddur er á Selfossi.

Sigurður Ingi var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013. Hér sést hann með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur, samherjum sínum í Framsóknarflokknum.
Varaformaður Sigurður Ingi var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013. Hér sést hann með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur, samherjum sínum í Framsóknarflokknum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Bóndasonur frá Suðurlandi

Sigurður Ingi er bóndasonur frá Suðurlandi, fæddur árið 1962 og er dýralæknir að mennt eins og fram kom hér að framan og í ítarlegri nærmynd DV árið 2013. Þar kom fram að hann hafi lengst af unnið við slík læknisstörf á Suðurlandi auk þess sem hann var bóndi á Dalbæ í Hrunamannahreppi um nokkurra ára skeið á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Dalbær er æskuheimili Sigurðar Inga og tók hann við búinu eftir fráfall foreldra sinna, Jóhanns Pálssonar og Hróðnýjar Sigurðardóttur, en þau létust í bílslysi langt fyrir aldur fram síðla árs 1987.

Slysið var óskaplegt högg og kippti fótunum undan mér og mínum í langan tíma á eftir

„Slysið varð óskaplegt högg“

Sigurður Ingi var á lokaári í námi sínu í Kaupmannahöfn þegar slysið varð. Þau létust í hörðum árekstri þriggja bifreiða við gömlu Þrengslavegamótin hvar þau voru á leiðinni austan úr Hreppum til Reykjavíkur. Þau létu eftir sig fjögur börn, það yngsta 12 ára og Sigurð Inga elstan, 25 ára. Þau ráku á þessum tíma stórt bú auk heldur sem Hróðný var virk í félagsstarfi heimasveitar sinnar.

„Slysið var óskaplegt högg og kippti fótunum undan mér og mínum í langan tíma á eftir. Þetta varð jafnframt til þess að afstaða mín til margra þátta tilverunnar gjörbreyttist, eins og þeir sem upplifað hafa eitthvað sambærilegt segja gjarnan. Það sem ég áður taldi sjálfgefið, var það alls ekki lengur. Ég lærði að meta alveg upp á nýtt hve vinir og fjölskylda skipta miklu máli; fólkið sem stendur okkur næst,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við DV árið 2009.

„Gjarnan er sagt að tíminn lækni öll sár. Það er rétt upp að vissu marki, lífið heldur áfram hvað sem á dynur. Með tímanum lærir maður að lifa með sorginni og getur alltaf sótt í góðar minningar. Innistæðan í minningabankanum er býsna drjúg þegar vel er að gáð,“ sagði Sigurður Ingi í viðtalinu. Hann sneri heim árið 1989 og tók þá við búskap á föðurleifð sinni í Dalbæ og var bóndi í nokkur ár sem fyrr segir. Systkini hans tóku síðar við keflinu, eða þegar Sigurður Ingi sneri sér alfarið að dýralækningum.

Samband við kjósendur verður að byggjast á trausti

Sigurður Ingi hefur á seinni árum gengt fjölda trúnaðarstarfa fyrir ýmis félagasamtök og lögaðila, meðal annars fyrir sveitarstjórn Hrunamannahrepps, Kaupfélag Árnessýslu, Ungmennafélag Hrunamanna og fleiri aðila á Suðurlandi. Sigurður er faðir þriggja uppkominna barna.

Í ljósi atburða dagsins, þegar tveir kjörnir fulltrúar kusu að stíga af sviðinu, þeir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, er athyglisvert að skoða ummæli Sigurðar Inga úr viðtalinu 2009 um ábyrgð kjörinna fulltrúa.

Fólk á þess vegna að axla ábyrgð og víkja af sviðinu sé þetta trúnaðarsamband ekki til staðar

„Þeir sem gefa sig að stjórnmálum þurfa að vera þess meðvitaðir, að þeir eru í þjónustustarfi. Hvorki eiga né mega skara eld að eigin köku. Samband við kjósendur verður að byggjast á gagnkvæmu trausti. Fólk á þess vegna að axla ábyrgð og víkja af sviðinu sé þetta trúnaðarsamband ekki til staðar. Reyndar tel ég að flestir séu í upphafi stjórnmálaferils síns mjög meðvitaðir um þetta, enda þótt viðhorf sumra taki breytingum þegar í sæti valdanna er komið,“ sagði Sigurður Ingi í viðtalinu.

Sigurður Ingi er dýralæknir að mennt. Áður en hann fór að einbeita sér að fullu að dýralækningum var hann bóndi.
Bóndasonur Sigurður Ingi er dýralæknir að mennt. Áður en hann fór að einbeita sér að fullu að dýralækningum var hann bóndi.

Kunnáttumaður um landbúnað

Í nærmynd DV frá árinu 2013 sagði einn af viðmælendum DV að Sigurður Ingi væri mikill kunnáttumaður um landbúnað enda komi hann úr því umhverfi. „Hann er landbúnaðarmaður fram í fingurgómana. Hann veit hins vegar sáralítið um sjávarútveg – það sáum við á Alþingi á síðasta þingi í umræðum um kvótann,“ sagði viðmælandi DV á sínum tíma en ætla má að það hafi breyst á þeim árum sem liðin eru síðan Sigurður Ingi tók við sjávarútvegsráðuneytinu. „En í landbúnaðinum er hann á heimavelli og talar þar sem hagsmunaaðili auðvitað,“ sagði viðmælandi DV.

Hann er gamall í hugsun, forn, eins og til dæmis Guðni Ágústsson

Sagður íhaldssamur

Einn af viðmælendum DV sagði að Sigurður Ingi njóti mikils stuðnings og trausts á Suðurlandi og þyki traustur. „Mér er sagt að hann njóti mikils stuðnings á svæðinu sem þingmaður. Hann er stundum sagður vera eins og Halldór Ásgrímsson endurfæddur,“ sagði viðmælandi DV. Samþingmenn hans lýstu honum sem dæmigerðum framsóknarmanni; íhaldssömum, gamaldags og ekki mjög frjálslyndum. „Hann er gamall í hugsun, forn, eins og til dæmis Guðni Ágústsson, og ekki djúpur.“ Þá sagði viðmælandi DV að „hann væri frekar þungur á bárunni og dulur og ekki góður í samskiptum.“ Annar þingmaður sagði Sigurð Inga þó ágætan í samskiptum, „þægilegan í umgengni“ og „dagfarsprúðan“.

„Það má segja margt ágætt um hann Sigurð Inga. Við áttum alltaf gott samstarf og hann ágætur í samskiptum. En hann er auðvitað voðalega mikill framsóknarmaður. Hann er afturhaldssamur, þetta er ekki framsýnasti stjórnmálamaður landsins,“ sagði viðmælandi DV.

Ætlaði að hætta í pólitík

Í viðtalinu við DV í apríl árið 2009 sagði Sigurður Ingi að hann hefði ætlað að láta pólitískum afskiptum sínum lokið eftir flokksþing Framsóknarflokksins í janúar það ár. Sigurður Ingi hafði starfað í flokknum undanfarin ár þar á undan. Á umræddu flokksþingi sagði Sigurður Ingi að hann hefði skynjað nýtt líf með flokknum, á gömlum gildum og hugsjónum. Eftir að hafa hugleitt málið hafi hann ákveðið að láta arka að auðnu og gefa kost á sér. „Ef þú hefðir spurt mig snemma í febrúar hvort ég ætlaði í framboð hefði ég svarað því neitandi og í raun fundist það fráleitt,“ sagði Sigurður Ingi en skömmu eftir að viðtalið var tekið var Sigurður kosinn á þing í fyrsta skipti þar sem hann hefur setið síðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“
Fréttir
Í gær

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“