fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024
Fréttir

„Hingað koma engir peningar“

Ferðaþjónustubændur í Öxarfirði horfa á ferðamenn úr fjarlægð – Dettifossvegur sleginn út af samgönguáætlun

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. apríl 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þingmenn verða örugglega aftur orðnir jákvæðir fyrir kosningar næsta haust. Þetta gufar upp þess á milli.“

„Maður veit ekkert hvernig maður á lengur að smæla framan í heiminn,“ segir Ævar Ísak Sigurgeirsson, verslunarmaður í Ásbyrgi, í samtali við DV. Á dögunum var tilkynnt að fyrirhugaðri vegatengingu á milli Dettifoss og Ásbyrgis hefði verið kippt út af Samgönguáætlun. Enn þurfa heimamenn í Öxarfirði og nágrenni því að horfa úr fjarlægð á ferðamannastrauminn yfir vetrartímann en um Mývatn og Dettifoss fer mikill fjöldi allt árið um kring. Slóðin úr Ásbyrgi að Dettifossi, jafnt austan sem vestan megin Jökulsár á Fjöllum, er lokuð stærstan hluta ársins, eða frá fyrstu vetrarveðrum þar til snjóa leysir í lok maí eða júní. Engin vetrarþjónusta er á leiðunum austan og vestan megin árinnar.

Hljóðið í ferðaþjónustubændum og verslunarmönnum við Öxarfjörð er þungt. Erlendum ferðamönnum, sem bóka gistingu, er oft, að sögn heimamanna, ókunnugt um ástand þeirra vega sem þeir sjá í GPS-tækjum sínum. Afbókanir þeirra sem ætla frá Dettifossi niður í Öxarfjörð – um 24 kílómetrar í beinni loftlínu – eru fremur regla en undantekning. Þannig segir Olga Gísladóttir, ferðaþjónustubóndi og sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, að af 30 sem bókuðu gistingu í desember, hafi tveir komið og gist. Allir aðrir hafi hringt og boðað forföll vegna ófærðar. Leiðin frá Dettifossi að vestanverðu, um Mývatn, Húsavík og Tjörnes, að Ásbyrgi í Öxarfirði telur 168,4 kílómetra. Þessu hafa ferðamenn sjaldnast gert ráð fyrir, þegar þeir hringja og afpanta gistingu undir kvöld.

Hitti ráðherra í mars

Olga segir að mikil óánægja sé með ákvörðun ráðherra. Biðin eftir vegaúrbótum sé orðin ansi löng. Ferðaþjónustan – sem ætti að vera ein helsta tekjulindin – líði mjög fyrir stöðu vegamála. Þannig hafi ferðaþjónustan í Skúlagarði verið lokuð í vetur, afbókanir hafi verið svo tíðar að ekki hafi verið talið borga sig að hafa opið.

Olga segist hafa hitt Ólöfu Nordal innanríkisráðherra þann 18. mars síðastliðinn til að leggja á það áherslu að ljúka við vegatenginguna á milli Mývatnssveitar og Ásbyrgis. Ákvörðunin um að blása út af borðinu því sem áður hafði verið boðið hafi því komið henni alveg í opna skjöldu. „Þetta hefur áhrif alveg austur til Raufarhafnar.“ Hún nefnir að bæði Kópasker og Raufarhöfn séu á lista yfir Brothættar byggðir, verkefni Byggðastofnunar til að hjálpa byggðum sem berjast í bökkum. „Það er skrýtið ef ríkisvaldið er ekki með okkur í því. Hér binda menn miklar vonir við ferðaþjónustu.“

Aftur jákvæðir fyrir kosningar?

Í svipaðan streng tekur Benedikt Björgvinsson, sem rekur gistiþjónustu á Kópaskeri og hefur gert um árabil. Hann kannast einnig við að fólk afbóki gistingu vegna lokaðra vega beggja vegna Jökulsár. „Maður finnur mun þegar þessir gömlu vegir – sem lagðir voru í upphafi bifreiðaaldar – eru opnaðir. Þá eykst umferðin.“ Hann telur að opnun heilsársvegar úr Mývatnssveit og niður í Öxarfjörð myndi tvímælalaust auka umferð. „Það yrði kannski ekki mikið yfir háveturinn til að byrja með, en það munar um allt.“

Af 30 pöntunum í desember voru 28 afbókaðar, að sögn Olgu.
Olga Gísladóttir Af 30 pöntunum í desember voru 28 afbókaðar, að sögn Olgu.

Benedikt, sem var í stjórn ferðaþjónustusamtakanna Norðurhjara, segir að þingmenn sem mætt hafi á samgönguráðstefnu sem félagið hélt í september í fyrra hafi verið mjög jákvæðir gagnvart fyrirhuguðum vegaframkvæmdum. „Ég veit ekki hvað hefur gerst hjá þeim þegar þetta var samþykkt. Þingmenn verða örugglega aftur orðnir jákvæðir fyrir kosningar næsta haust. Þetta gufar upp þess á milli.“

Hann bendir á að ákvörðunin gangi þvert gegn þeirri stefnu að stuðla að því að dreifa ferðamönnum betur um landið. Benedikt segist þó fagna fyrirhuguðum vegaframkvæmdum á þjóðvegi 85, sem liggur um Kelduhverfi að Bakkafirði. Það sé út af fyrir sig jákvætt en nægi ekki til að bæta upp fyrir vonbrigðin sem fylgdu Dettifossveginum. Hann segir að samgöngurnar standi verslun og ferðaþjónustu á svæðinu fyrir þrifum.

Eins og sjá má eru vegirnir sem tengja Mývatnssveit og Öxarfjörð, um Dettifoss, ófærir. Aðeins er fært að fossinum sunnan frá.
Ófært Eins og sjá má eru vegirnir sem tengja Mývatnssveit og Öxarfjörð, um Dettifoss, ófærir. Aðeins er fært að fossinum sunnan frá.

Alla daga berast hjálparbeiðnir

„Ég veit ekki hvað við höfum hangið hér í mörg ár í þeirri von og vissu að þessi vegur kæmi innan örfárra ára. En þau eru orðin ansi mörg,“ segir Ísak í Ásbyrgi í samtali við DV. Hann var þá staddur í búðinni, sem í fyrsta sinn í 41 ár var alveg lokuð yfir vetrartímann. Hann segir að fréttirnar um að samgöngubætur hafi verið slegnar út af borðinu – enn á ný – hafi verið þeim hjónum áfall. „Við erum tvö hérna í búðinni að reyna að hjálpa þeim útlendingum sem hingað koma; hleypa þeim á salerni og segja þeim til.“

Ísak segir ástand vega í sveitinni þannig að nánast hvern einasta dag, alla daga, berist hjálparbeiðnir frá ferðamönnum sem hvorki komast lönd né strönd. Lögregla og björgunarsveitir vísi á heimamenn. „Þetta er á hverjum einasta degi. Vegirnir eru á kafi.“ Hann segir tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af. Mörg dæmi séu um að fólk hafi þurft að hafast við í bílum sínum yfir nótt í nístandi kulda – í þeirri trú að vegurinn verði ruddur daginn eftir. Á endanum freisti sumir þess að ganga til byggða.

Spurningar DV til innanríkisráðherra

Spurningar DV til innanríkisráðherra

  1. Hvaða sjónarmið réðu því að ákveðið var að slá Dettifossveg út af samgönguáætlun, en ekki önnur verkefni?

  2. Hvenær mega heimamenn á Norðausturhorninu vænta þess að Mývatnssveitin og Öxarfjörður verði tengdur með heilsársvegi?

  3. Hvernig samrýmist þessi ákvörðun því yfirlýsta markmiði stjórnvalda að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið allt?

  4. Kópasker og Raufarhöfn eru byggðarlög á lista Byggðastofnunar yfir brothættar byggðir. Hvernig samrýmist ákvörðunin þeirri viðleitni stjórnvalda að efla þessi viðkvæmu byggðarlög?

Svör höfðu ekki borist frá Ólöfu Nordal þegar DV fór í prentun.

„Við erum atvinnulaus“

Ísak ber að undanfarin tvö ár hafi vegurinn úr Ásbyrgi að Dettifossi verið opnaður í júní. Í góðu ári sé orðið fært í maí. „Það er bullandi umferð alla daga í Mývatnssveit og fólk reynir að fara að Dettifossi og niður úr. Það er nefnilega enginn snjór í símanum,“ segir Ísak. Hann undrast slælegar merkingar um að vegirnir – að austan og vestan – séu ófærir. „Það stendur orðið „impassable“ – á einu tungumáli.“ Hann segir að oft sé það fólk frá Asíu sem lendi í vandræðum en einnig frá Evrópu.

Ísak segist ekki verða var við þá gífurlegu fjölgun ferðamanna sem heimsæki Ísland – allavega ekki þar til umferð er hleypt á snemmsumars. „Við erum atvinnulaus núna, hjónin. Við stöndum hér og veitum upplýsingar og hleypum fólki á klósett. Við reynum að fá bændur til að aðstoða fólk sem festir sig. En hingað koma engir peningar,“ segir hann.

Fékk fimmtudagsmogga á mánudegi

Hann undrast þá pólitík sem rekin er gagnvart svæðinu. Til viðbótar við stöðuna í vegamálum hafi dregið mjög úr póstþjónustu nýlega. Þannig hafi hann ekki fengið póst nema í tvígang í síðustu viku en í þrígang hina vikuna. Mogga fimmtudagsins síðasta – í þeirri miklu fréttaviku – hafi hann til að mynda fengið á mánudegi. Útvarpsskilyrði séu slík að hann nái ekki FM útvarpssendingum nema ef hann keyri svolítinn spöl úti á þjóðveginn. Hann nái hvorki útvarpi í versluninni né inni hjá sér, nema með skruðningum ef hann stilli útvarpstækinu upp við símainntakið og noti það sem magnara. Annars verður langbylgjan að duga. Ljósleiðari sé eitthvað sem ekkert bóli á. „Þetta er ekki eðlilegt – þetta er ekki hægt,“ segir hann og bætir við: „Ég er búinn að vera miður mín síðan ég fékk þessar fréttir.“

Skipta vegafré fram hjá þinginu

Steingrímur J. Sigfússon segir það hrein svik og heimsku, að klára ekki Dettifossveg
Skipta vegafré fram hjá þinginu

„Ég tel þetta hrein svik og heimsku,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis, við DV. Hann hefur um árabil talað fyrir þeirri vegatengingu sem slegin hefur af borðinu enn um sinn.

Steingrímur segir að Dettifossvegur hafi komið fyrst inn í myndina á sama tíma og Suðurstrandavegur, sem hafi klárast fyrir allnokkrum árum. Á sama tíma sé Dettifossvegur ókláraður. „Hvernig í ósköpunum á að réttlæta að henda nú þessum vegi út og klára hann ekki? Það eru svik við þetta svæði, sóun á miklum fjármunum sem þegar eru komnar í veginn ofanfrá og neðanfrá,“ segir hann og vísar til vegarins að Dettifossi norðanmegin, auk þeirra framkvæmdas sem standa yfir frá Ásbyrgi að Vesturdal. Eftir stendur kaflinn á milli Vesturdals og Dettifoss, sem lokaður er stærstan hluta ársins.

Steingrímur gagnrýnir að á sama tíma skuli nýjar leiðir koma inn á vegaáætlun, svo sem Kaldidalur, Uxahryggir og Kjósarskarð.

„Þetta leiðir af þeim fáheyrðu vinnubröðgum þessarar ríkisstjórnar að afgreiða enga samgönguáætlun ár eftir ár (enga á þessu kjörtímabili) en taka sér þess í stað vald til að skipta vegafé í fjáraukalögum, framhjá þinginu og framhjá því skipulagi sem vegalög gera ráð fyrir.“ Hann bætir við að ríkisstjórnin hafi svelt samgöngumálin. Allir sjái að innviðirnir, ekki síst vegirnir, eru að grotna niður. Þeir séu í engu ástandi til að anna þeirri umferð sem nú er orðin staðreynd. „Niðurstaðan er að frammistaða ríkisstjórnar Framsóknaflokks og Sjálfstæðisflokks er einhver sú versta í sögunni þegar kemur að samgöngumálum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Enok Vatnar sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir

Enok Vatnar sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Vilhjálmur Birgisson vill Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn úr ríkisstjórn – „Ömurlegt“ að hlusta á Bjarna og Sigurð Inga

Vilhjálmur Birgisson vill Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn úr ríkisstjórn – „Ömurlegt“ að hlusta á Bjarna og Sigurð Inga
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kristján foxillur: „Vonandi tekur ekki 100 ár að afgreiða þá umsókn“

Kristján foxillur: „Vonandi tekur ekki 100 ár að afgreiða þá umsókn“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Kannski það sé skemmra til kosninga en við vitum“

„Kannski það sé skemmra til kosninga en við vitum“
Fréttir
Í gær

Aktívistar frömdu skemmdarverk á málverki af Karli konungi

Aktívistar frömdu skemmdarverk á málverki af Karli konungi
Fréttir
Í gær

Tekinn próflaus á Suðurlandsveginum og reyndi að koma sökinni upp á annan mann

Tekinn próflaus á Suðurlandsveginum og reyndi að koma sökinni upp á annan mann
Fréttir
Í gær

Ofbeldi gegn stúlkum á Laugalandi – „Trauðla hef ég upplifað það jafn oft að viðmælendur mínir hafi grátið í eins miklum mæli“

Ofbeldi gegn stúlkum á Laugalandi – „Trauðla hef ég upplifað það jafn oft að viðmælendur mínir hafi grátið í eins miklum mæli“
Fréttir
Í gær

Gagnauppsópun fram undan hjá Meta – Þú hefur tvær vikur til að neita að taka þátt

Gagnauppsópun fram undan hjá Meta – Þú hefur tvær vikur til að neita að taka þátt