fbpx
Þriðjudagur 16.ágúst 2022
Fréttir

Halldór Laxness

Bækurnar hans og bækurnar um hann

Ritstjórn DV
Föstudaginn 11. nóvember 2016 09:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér varð hugsað til þess um daginn að líklega hefði enginn maður, utan fjölskyldu og vinahóps, haft jafn mikil áhrif á líf mitt og örugglega margra af minni kynslóð, en Halldór Laxness. Við hittumst eiginlega aldrei og ég sá hann bara í svip í eigin persónu, en samt sem áður kenndi hann mér flest og fáum hef ég á sinn hátt kynnst betur. Sjálfur fæddist ég þegar sól hans reis hæst, það var búið að tilkynna að hann fengi nóbelsverðlaunin og hann var að búa sig undir Stokkhólmsferð til að sækja þau, og frá því ég fyrst man var hann eins og sól sem skein yfir landið; hér voru menn í háum stólum, eins og forseti, ráðherrar og biskup, en allir voru þeir í skugga stórskáldsins. Útvarp var þá bara ein rás í lampatækinu inni í stofu og ég man hve áhrifaríkt það var þegar rödd hans barst þaðan; kannski var það óvenjulegt hljómfall og áherslur sem vöktu athygli, en þó trúlega meir hvað foreldrum mínum þótti greinilega hátíðlegt og merkilegt þegar þessi tiltekni maður heyrðist; ekki var útvarpinu svarað í afgæðingi þegar svo bar undir, þótt pólitíkusar hátt á strái mættu hvenær sem er búast við þannig trakteringum. Það fyrsta sem ég man fyrir víst með Halldóri Laxness var líklega þegar ég var sjö ára og hann las sjálfur Brekkukotsannál sem kvöldsögu í útvarpinu; þá var hátt stillt og það var hlustað og þótt sagan færi auðvitað að miklu leyti ofan garðs og neðan hjá barninu, þá var eitthvað sem hreif mann, og mig minnir að ég hafi fengið á heilann og tönnlast á í tíma og ótíma: „Litlafröken Gúðmúndsen!“ með hans rödd og tónfalli, jafnvel svo að sumir hafi orðið leiðir á þessum tiktúrum í krakkanum.

Ég held að aðdáun eins og foreldra minna á skáldinu hafi verið útbreidd meðal íslenskrar alþýðu, en heimsborgarinn Halldór hafði alltaf verið hennar málsvari. Enda var það alþýða manna sem flykktist niður á kæja þegar Gullfoss kom heim með Halldór og nóbelinn, þótt höfðingjarnir í ríkisstjórninni hafi látið eins og þeim kæmi þetta ekki við. Það var hins vegar ekki alveg svo, eins og seinni tíma rannsóknir hafa leitt í ljós: íslensk yfirvöld unnu beinlínis gegn höfundinum og framgangi hans í veröldinni, eins ótrúlegt og það kann að hljóma; beittu pólitískum samböndum við afturhaldsöfl í Bandaríkjunum og víðar til að koma í veg fyrir að bækur hans fengjust þar út gefnar.

Í lestum og flugvélum

Það þarf svo auðvitað ekki að orðlengja það að eftir að maður komst til einhvers vits og þroska var farið að drekka í sig bækur skáldsins, og margt af því breytti á sinn hátt lífinu; ég held að Sjálfstætt fólk hafi kannski verið stærri upplifun en fjórtán ára krakki átti gott með að ná utan um; sama sumar las ég líka gamla vininn, Brekkukotsannál, og þá fór margt í furðulegum húmor og djúpri speki auðvitað að einhverju leyti framhjá mér þótt annað hafi hrifið, auk þess sem ég hélt einhvern veginn eins og hún væri ekki jafn mikið bókmenntaverk og sumt annað, einfaldlega vegna þess að síðurnar voru færri, en þannig mat hef ég fyrir löngu endurskoðað eins og ég hef sagt frá í grein um síðarnefndu bókina sem birtist fyrir einhverjum misserum hér á þessum vettvangi. Ógleymanleg er svo löng lestarferð í Evrópu þegar ég var nítján ára og í reisu með vinum mínum; annar þeirra var með Sölku Völku í fórum sínum og meðan þeir hinir sváfu en lestin með okkur innanborðs brunaði norður eftir Þýskalandi þá las ég bókina frá upphafi til enda. Eins og mig minnti er sumt í þeirri bók dálítið undarlegt í augum nútímafólks, og ég fer ekki ofan af því að sem heilsteypt listaverk þá standist Salka ekki fyllilega samanburð við mestu snilldarverk Halldórs, en ég las hana aftur á langri flugferð til Asíu fyrir þremur árum, og því verður aldrei neitað að hún glitrar af húmor, stílgaldri og meistarafrásögn.

Líka vitleysan er góð

Auðvitað eru bækur Halldórs misjafnar að gæðum, öðruvísi gæti það ekki verið hjá manni sem bjó til jafn víðfeðmt sköpunarverk; heildarútgáfan er eitthvað nálægt heilum hillumetra. Fyrstu bækur hans bera að sjálfsögðu ungum aldri og lítilli æfingu vitni. Í rauninni er það eitt af kraftaverkum okkar sögu að úr því fátæka og frumstæða samfélagi sem hann ólst upp í skyldi hann fá að þroskast óáreittur sem skáld og heimsborgari, og eins og vitað er þá er móður hans fyrst og fremst svo fyrir að þakka. En það er merkilegt að eftir að hann er kominn til vits og þroska þá er nokkurn veginn sama um hvað hann skrifar, þá verður það merkileg lesning vegna þess hvernig hann kemst að orði; allt var gefið út á bók sem hann páraði niður, líka dægurmálarabb sem hann skrifaði í blöðin, og á sinn hátt ótrúlegt til þess að hugsa að jafnvel kæruleysislegar athugasemdir hans við ræskingar og hósta í Ríkisútvarpinu í árdaga þess skuli enn þann dag í dag vera ánægjulestur. Og þótt ýmsar skoðanir hans væru ærið hæpnar, ekki síst í endurliti, þá tókst honum oftast að bera þær fram af sannri snilld; þannig er Gerzka ævintýrið frá 1937 fullkomlega þess virði að lesa enn þann dag í dag. Og það þótt erindi þeirrar bókar, frá pólitísku og sagnfræðilegu sjónarmiði sé, til að orða það pent, eiginlega hreinræktað bull.

Og glöpin

Mín kynslóð missti auðvitað af því að vera á dögum þegar hans stærstu og umdeildustu bókmenntaverk voru að koma út, og maður getur bara ímyndað sér og lesið sig til um jarðskjálftana sem útgáfa þeirra kom af stað í samfélaginu. Ég man að sjálfsögðu vel þegar síðustu skáldsögur hans voru að koma út, eins og Innansveitarkronika og Kristnihaldið, og í þá daga voru menn ekki feimnir við að fjalla um það í blöðum og öðrum fjölmiðlum þegar slíkir viðburðir urðu; mig minnir að það hafi verið heill ritgerðaflokkur í Morgunblaðinu þegar Guðsgjafarþula kom út. Svo var alltaf jafn hátíðlegt þegar meistarinn var tekinn tali í sjónvarpinu – þá voru líka um sumt frjálslegri tímar þótt spyrlar væru kannski hátíðlegri í tali en nú tíðkast og væru jafnvel að þéra viðmælandann; hann sat í þá daga stundum með digra vindla í viðtölum og blés frá sér stórum bólstrum; ég held það hafi verið Eiður Guðnason sem spurði hann eitt sinn svo krefjandi spurningar að þeir hurfu báðir í óveðursský á meðan skáldið bjó sig undir að svara. Seinustu æviárin var Halldór nokkuð hallur úr heimi eins og allir vita og um hefur verið talað, meðal annars af hans nánustu, eins og í glænýrri bók sem ég mun segja frá hér í lokin. Það er einkennilegt að í eina skiptið sem ég sat að heitið geti á sama stað og hann fannst mér ég verða var við að honum væri aðeins farið að förlast, án þess ég hefði áður heyrt um slíkt. Þá var hann orðinn 81 árs og kom til Kaupmannahafnar einhverra erinda, og Stúdentafélagið, að mig minnir, fann upp á því að biðja hann að funda með Íslendingum á staðnum. Þá hafði hann um hríð verið efins um samband sitt við Hafnarstúdenta, eða frá því fimmtán árum fyrr þegar blásið var til mótmæla þar í borg gegn Sonningverðlaunum sem honum hlotnaðist árið 1968. Halldór tók samt erindinu vel þarna 1983, og sagðist fús til að „skrafla við Hafnaríslendinga yfir ölkrús“ og varð úr að fjöldi manns tróð sér inn í stofuna í Jónshúsi til að hitta höfundinn; ég varð þá var við að hann átti til að tapa þræðinum, sem maður hafði ekki haldið að hann gæti. Með honum í för var æskuvinur hans Jón Helgason, og það fór svo að Halldór gaf honum orðið, og var ógleymanlegt að heyra skáldið og prófessorinn segja frá.

En merkilegt er að elliglöp Halldórs voru á sinn hátt líka eitthvað geníöl, eins og frægar sögur um það bera vitni um; ég heyrði að eitt sinn hafi hann verið spurður hvað sagnfræðingurinn ágæti, Einar sonur Halldórs, væri gamall, og þá á aldurhnigið skáldið að hafa svarað: „Ætli hann sé ekki á aldur við mig.“ Eina sögu kann ég um þetta sem ég veit ekki til að hafi verið sögð, en í apríl 1992 var ég formaður Rithöfundasambandsins, sem ásamt Bandalagi listamanna skipulagði blysför með fánum og skiltum að Gljúfrasteini til heiðurs meistaranum á níræðisafmæli hans. Svo stoppaði fjöldinn á hlaðinu og þar var sungið og húrrað fyrir skáldinu sem kom með Auði út fyrir dyrnar og þakkaði innilega fyrir sig. Svo fór auðvitað mannfjöldinn heim. Inni á heimili skáldsins var samsæti með ættingjum og vinum, og þar á meðal var Rannveig heitin Ágústsdóttir, sem var framkvæmdastjóri Rithöfundasambandsins og þar með samstarfsmaður minn á þeim vettvangi. Hún sagði mér að Auður vinkona sín hefði verið því fyrirfram örlítið kvíðin að Halldóri myndi bregða við þessa fólksmergð sem kom steðjandi að húsinu, en það reyndist semsé öðru nær. Og að svona hálftíma seinna, þegar mikil makindi voru yfir kaffi og kökum í stofunni á Gljúfrasteini hafi skáldið staðið upp og sagt: „Ég held ég lalli mér aftur út á hlað, þar er svo mikið af fólki að syngja og skemmta sér.“

„Elsku Drauma mín“

Það sagði við mig góður maður á dögunum þegar fréttist að væntanleg væri bók um eða eftir Sigríði, dóttur skáldsins, hvort það gæti verið eitthvað ósagt um Halldór Laxness, ævi hans og verk, eins margar og margvíslegar bækur og ritgerðir og greinar hefðu verið skrifaðar um það efni. En því er hins vegar til að svara að nú er ég búinn að lesa umrædda bók, Elsku drauma mín, sem Vigdís Grímsdóttir skrásetti, og hún á alveg örugglega eftir að verða klassík í íslenskum minningabókum. Hún er full af góðum sögum, frábærum pælingum og og snilldarlega frambornu mannviti; ég lagðist með hana upp í sófa um hádegisbil einn daginn þegar eintak hafði slæðst hingað inn og reis ekki á fætur fyrr en að mörgum klukkutímum liðnum, og þá búinn með bókina og ríkari í hjarta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Síbrotamaður á Akureyri úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um 22 brot

Síbrotamaður á Akureyri úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um 22 brot