Telst með óflekkað mannorð – Myrti Einar Örn Birgisson árið 2000
Atli Helgason, sem myrti Einar Örn Birgisson í nóvember árið 2000, hefur fengið uppreist æru og telst nú með óflekkað mannorð í skilningi laganna. Atli var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir verknaðinn en losnaði úr fangelsi árið 2010 eftir að hafa setið af sér um helming dómsins.
Rúv greindi frá í kvöldfréttum.
Atli, sem er lögfræðingur, sótti um uppreist æru, og vill nú fá málflutningsréttindi sín á ný, en til þess að hafa þau réttindi þarf óflekkað mannorð. Allir sem hljóta dóma geta sótt um uppreist æru, og gildir þá einu hvers eðlis brotið var eða hve langur dómur hlaust. Ýmis störf á Íslandi gera kröfu um óflekkað mannorð meðal annars störf endurskoðenda, dómara og málflutningsmanna.
Atli og Einar Örn voru viðskiptafélagar og ráku saman verslunina Gap á Laugaveginum. Þeir höfðu báðir getið sér gott orð sem íþróttamenn áður en þessi mikli harmleikur átti sér stað. Umfjöllun um morðmálið tröllreið íslensku samfélagi árið 2000 og 2001 þegar lögreglan rannsakaði málið og þegar réttað var yfir Atla.