– Vestmannaeyingar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins slást um atkvæðin
Framboðsslagurinn í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi er nú í hámarki eins og íbúar Vestmannaeyja hafa fengið að kynnast síðustu daga. Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, sækist eftir að leiða lista flokksins í kjördæminu og opnaði hann kosningaskrifstofu í Eyjum á þriðjudag. Stuðningsmenn Árna Johnsen, fyrrverandi þingmanns og söngvara, hafa strengt borða milli tveggja ljósastaura í bænum með slagorðinu „Árna fyrir Eyjar“.
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fram á laugardaginn. Árni sækist eftir forystusæti og mun því keppa við Pál í prófkjörinu sem og annan Eyjamann og þingmann, Ásmund Friðriksson. Þingmaðurinn fyrrverandi fór mikinn skömmu eftir að hann tilkynnti um framboð sitt og sakaði nokkra meðframbjóðendur sína um ósiðleg vinnubrögð. Í auglýsingu sem Árni birti í Morgunblaðinu á miðvikudag nefnir hann 23 baráttumál sem hann hyggst leggja áherslu á nái hann inn á þing. Eitt þeirra er vinna að jarðgangagerð til Vestmannaeyja.
Páll Magnússon bauð stuðningsmönnum sínum í kosningamiðstöð sína í húsinu Baldurshaga í Eyjum og bauð þar upp á súpu og kleinur. Utan á húsinu má sjá stóra mynd af útvarpsstjóranum með Heimaklett og bæinn í baksýn.
Þeir flokksfélagar eru ekki tveir um hituna því þungavigtarmennirnir Ásmundur Friðriksson og Ragnheiður Elín Árnadóttir sækjast einnig eftir fyrsta sætinu í kjördæminu. Prófkjörið fer fram á laugardag.