fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Fréttir

Þrotabúið fær íbúðirnar og fjölskyldufyrirtækið

Fallist á beiðni þrotabús Ingvars J. Karlssonar í héraði – Margrét Stefánsdóttir, eiginkona hans, ætlar að áfrýja til Hæstaréttar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. júní 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur rifti í byrjun maí ráðstöfunum Ingvars J. Karlssonar, fjárfestis og stjórnarformanns heildverslunarinnar Karls K. Karlssonar, á meginhluta eigna hans til Margrétar Stefánsdóttur, eiginkonu Ingvars. Margrét fór fram á endurupptöku málsins en hún var í september í fyrra dæmd til að skila þrotabúi Ingvars eignunum sem samanstanda af hlutum eða öllu hlutafé í 23 einkahluta- eða hlutafélögum, tveimur íbúðum í London, fjórum fasteignum hér á landi og þremur bifreiðum. Staðfesti dómurinn, sem féll 4. maí, það en þá var henni einnig gert að greiða þrotabúinu allt að 200 milljónir króna til að mæta afföllum á eignasafninu.

Fyrirtæki og hesthús

Þrotabú Ingvars höfðaði málið en það má rekja til kaupmála sem hjónin gerðu í janúar 2009. Með honum afsalaði Ingvar áðurnefndum eignum til Margrétar. Þar er meðal annars um að ræða 96% hlut í fjölskyldufyrirtækinu Karli K. Karlssyni, sem faðir Ingvars stofnaði árið 1946, 12% hlut í verðbréfafyrirtækinu Virðingu, tvær íbúðir í London, einbýlishús í Öskjuhlíð og hesthús í Víðidal í Reykjavík. DV fjallaði um fyrri dóm héraðsdóms í október 2015 og kom þá fram að Margrét var sambýliskona Ingvars, sem var úrskurðaður gjaldþrota af kröfu Landsbankans í febrúar 2014, við undirritun kaupmálans. Þau gengu í hjónaband í janúar 2009, eða þremur dögum eftir að kaupmálinn var gerður.

Ingvar J. Karlsson er í dag stjórnarformaður heildverslunarinnar Karl K. Karlsson og situr í stjórnum fleiri félaga í eigu Margrétar Stefánsdóttur, eiginkonu hans. Myndin er frá 1987.
Stýrir félögum Ingvar J. Karlsson er í dag stjórnarformaður heildverslunarinnar Karl K. Karlsson og situr í stjórnum fleiri félaga í eigu Margrétar Stefánsdóttur, eiginkonu hans. Myndin er frá 1987.

Í dómi héraðsdóms segir að kröfur á Ingvar hafi numið yfir 737 milljónum króna í lok árs 2008. Skuldir hans hafi aukist verulega í kjölfar falls íslensku bankanna sem hafi að lokum leitt til gjaldþrotaskipta á búinu. Ingvar hafi því, að mati þrotabúsins, ekki átt eignir umfram skuldir þegar kaupmálinn var gerður og því ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Hann hafi því verið ógjaldfær, eða að minnsta kosti orðið það við undirritun kaupmálans, og það hafi Margrét „vitað eða mátt vita“.

„Stefnandi [þrotabú Ingvars] byggir á því að þrotamaður hafi við þessar aðstæður séð sitt óvænna og brugðist við með því að koma svo til öllum eignum sínum undan fullnustu lánardrottna og stefnda tekið meðvitaðan þátt í þeim aðgerðum,“ segir í dómi héraðsdóms.

Það er búið að ráðstafa þarna með einum eða öðrum hætti einhverjum eignum út úr þessu.

Eignasafnið breyst

Málið var höfðað með stefnu Guðjóns Ármanns Jónssonar, skiptastjóra þrotabúsins og hæstaréttarlögmanns, á hendur Margréti sem birtist í Lögbirtingablaðinu í nóvember 2014. Guðjón sagði þá í samtali við Morgunblaðið að gögn búsins bentu til þess að Ingvar hefði ráðstafað til Margrétar mestum hluta eigna sinna án þess að greitt hefði verið fyrir þær. Í dómi héraðsdóms fullyrðir hann að um „málamyndasölu“ hafi verið að ræða.

„Það er búið að ráðstafa þarna með einum eða öðrum hætti einhverjum eignum út úr þessu. Í aðalatriðum á hún að skila eignunum, sem eru ekki allar í sömu stöðu og þær voru í janúar 2009. Það er grunnskilningur okkar á dómi héraðsdóms að hún eigi að skila eignunum og greiða þessar 200 milljónir þar sem fyrir liggur að eignunum verður ekki skilað í óbreyttu formi. Það eru farnar eignir út úr þessu upp á einhvern hluta af þessari tölu að minnsta kosti,“ segir Guðjón í samtali við DV.

Þarf leyfi Hæstaréttar

Margrét tók ekki til varna áður en dómur héraðsdóms féll í september 2015. Þá hafði ekki tekist að birta henni stefnuna en hún átti þá lögheimili í Belgrad í Serbíu. Þar hafði heimilisfang hennar verið skráð frá 2. október 2014, eða daginn eftir að skiptafundur þrotabús Ingvars tók ákvörðun um riftun kaupmálans, sem var að fjárhæð 448 milljónir króna. Fór Margrét því fram á endurupptöku málsins og féllst héraðsdómur á það í október í fyrra.

Málarekstur Margrétar byggði meðal annars á því að krafan á hendur henni vegna kaupmálans væri fyrnd. Einnig að um eðlilega ráðstöfun hefði verið að ræða, í ljósi veikinda og hjartaaðgerðar sem Ingvar hafi gengist undir. Hann hafi hvorki verið ógjaldfær, né orðið það, við gerð kaupmálans.

Ingvar og Margrét vildu ekki tjá sig um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í samtali við DV. Staðfesti Ingvar þó að málinu yrði áfrýjað. Þar sem um endurupptökumál er að ræða þarf leyfi Hæstaréttar fyrir áfrýjun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Kótelettan hefur safnað nærri 20 milljónum fyrir krabbameinsveik börn

Kótelettan hefur safnað nærri 20 milljónum fyrir krabbameinsveik börn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Skýtur á menningu íslenskra samfélagsmiðlastjarna – „Athyglin er aðalgjaldmiðillinn og allt er notað í gróðaskyni“

Skýtur á menningu íslenskra samfélagsmiðlastjarna – „Athyglin er aðalgjaldmiðillinn og allt er notað í gróðaskyni“
Fréttir
Í gær

Íris Líf í samstarf við stórt íslenskt fyrirtæki – Afar ánægð með að þeir prúttuðu niður samninginn

Íris Líf í samstarf við stórt íslenskt fyrirtæki – Afar ánægð með að þeir prúttuðu niður samninginn
Fréttir
Í gær

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm

Landsréttur slær á putta héraðsdóms – Mál óprúttins vörubílstjóra sem keyrði á lögreglubifreið fer fyrir dóm