Erlingur Gíslason leikari lést á heimili sínu þann 8. mars síðastliðinn á 83. aldursári. Erlingur var leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og leikhópnum Grímu og fór auk þess með fjölda hlutverka í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Erlingur fæddist í Reykjavík 13. mars 1933. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1953, stundaði nám í íslensku við HÍ 1953-54, lauk prófi í forspjallsvísindum frá HÍ 1954, prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1956 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1953-54. Þá nam hann leikhúsfræði og leiklist í Vínarborg auk þess sem hann sótti námskeið í leiklist í London og gerð kvikmyndahandrita í Berlín.
Erlingur var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2008 fyrir framlag til íslenskrar leiklistar. Erlingur eignaðist tvo syni með fyrri eiginkonu sinni, Katrínu Guðjónsdóttur, ballett- og gítarkennara, þá Guðjón og Friðrik. Seinni eiginkona Erlings var Brynja Benediktsdóttir, leikstjóri, leikskáld og leikari. Þau eignuðust soninn Benedikt sem er leikari, leikstjóri og kvikmyndahöfundur.
Jarðarförin verður auglýst síðar.