fbpx
Föstudagur 23.júlí 2021
Fréttir

22 ár frá hvarfi Valgeirs: Var líkið flutt í þessari bifreið?

Hvarf Valgeirs Víðissonar eitt það dularfyllsta – Leyndardómsfull örlög svartrar bifreiðar

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 20. febrúar 2016 10:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt dularfyllsta mannshvarf síðustu áratuga hér á landi er hvarf Valgeirs Víðissonar sem ekkert hefur spurst til frá 19. júní 1994, tæp 22 ár. Valgeir var fæddur þann 11. júlí 1964 og var því rétt tæplega þrítugur þegar hann hvarf sporlaust frá heimili sínu á Laugaveginum.
Hvarf Valgeirs hefur löngum verið talið tengjast fíkniefnaviðskiptum.

Í samtali við DV segir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu á síðustu árum. Málið sé því enn opið þó engin formleg rannsókn sé í gangi. Ef lögregla fái nýjar upplýsingar sé hægt að taka rannsóknina upp.

„Rosalega flottur karl“

Í Fréttatímanum er viðtal við son Valgeirs, Óðin Frey, sem vakið hefur talsverða athygli. Óðinn var sjö ára þegar faðir hans hvarf og sagði Óðinn í viðtalinu að hvarf föður hans hafi verið upphafið að ógæfu sinni. „Hann var rosalega flottur karl og helgarnar með honum voru algjört ævintýri. Ég elskaði hann svo mikið og mér þótti mjög vænt um þessar stundir. Samt var eins og ég hafi skynjað að tími okkar væri naumur,“ sagði Óðinn í viðtalinu. Í kjölfarið var hann tekinn af móður sinni, vistaður á geðdeild og fyrir tíu ára aldur hafði hann komist upp á lagið með kannabisreykingar, þrettán ára var hann kominn í dagneyslu á e-pillum og frá sextán ára aldri hefur Óðinn neytt morfíns nær daglega.

12. maí 2001
Umfjöllun DV 12. maí 2001

Tengsl við fíkniefnaheiminn

Hvarf Valgeirs á sínum tíma vakti mikla athygli og var mikið fjallað um málið í fjölmiðlum á sínum tíma. „Ekkert hefur enn spurst til Valgeirs Víðissonar sem hvarf í skyndingu frá heimili sínu 19. júní síðastliðinn. Kunningjar hans segja hann hafa verið í klandri og skuldað umsvifamiklum fíkniefnasölum fúlgur. Í undirheimum Reykjavíkur tengja allir hvarf hans fíkniefnaviðskiptum. Margir fíkniefnasalar hafa hægt um sig vegna þess að lögreglan beinir sjónum sínum að þeim við rannsókn málsins,“ sagði í frétt Pressunnar þann 21. júlí árið 1994. Kunningi hans sagðist vera hræddur um að búið væri að „drepa hann“.

„Harkan komin á nýtt stig“

Af þessu að dæma töldu flestir fullvíst að hvarf hans tengdist viðskiptum með fíkniefni. Þannig fullyrti einn heimildarmaður Pressunnar að Valgeir hefði verið í klandri og verið drepinn vegna þess að hann skuldaði umsvifamiklum fíkniefnasölum sem svifust einskis stórar fúlgur.

Hvarf af heimili sínu þann 19. júní árið 1994.
Valgeir Víðisson Hvarf af heimili sínu þann 19. júní árið 1994.

„Hvort sem það reynist rétt eða ekki er ljóst að harkan í undirheimum glæpa og fíkniefna í Reykjavík er komin á nýtt stig. Í nokkur ár hefur þekkst að mönnum sé misþyrmt ef þeir standa ekki skilum við stóra innflytjendur og sölumenn fíkniefna. Sú þróun hefur gengið svo langt að sérstakir menn eru jafnvel fengnir til slíkra verka. Og nú er óttast að fíkniefnasalarnir grípi jafnvel til morða í innbyrðis deilum sínum,“ sagði í þessari sömu frétt Pressunnar.

Fyrst þegar ég kynntist Valgeiri var hann ósköp venjulegur strákur og mér kom ekki til hugar að hann væri í þessum bransa.

Hlaut fyrsta dóminn 15 ára

Valgeir átti nokkurn afbrotaferil að baki þegar hann hvarf og sögðu heimildarmenn Pressunnar að hann hefði verið umfangsmikill í sölu fíkniefna, bæði hefði hann keypt fíkniefni í stórum skömmtum af innflytjendum og selt áfram til smála. Hann hlaut dóma fyrir neyslu fíkniefna, innflutning þeirra og sölu. Á unglingsárunum og fram yfir tvítugt tilheyrði Valgeir klíku sem var á kafi í neyslu fíkniefna, að því er fram kom í frétt Pressunnar og fimmtán ára hlaut hann sinn fyrsta dóm fyrir þjófnað. Valgeiri var lýst sem fremur hæglátum manni. „Fyrst þegar ég kynntist Valgeiri var hann ósköp venjulegur strákur og mér kom ekki til hugar að hann væri í þessum bransa. Hann var fínasta grey og aldrei langt í góðmennskuna hjá honum. En hann fór illa út úr fíkninefnunum og með tímanum varð hann brjálaðri í skapinu svo að það var orðið erfitt að umgangast hann,“ sagði heimildarmaður Pressunnar.

Kveikt á sjónvarpinu

Faðir Valgeirs, Víðir Valgeirsson, sagðist óttasleginn þegar Pressan ræddi við hann á sínum tíma. „Ég get ekki útilokað neitt,“ sagði hann. Þeirri kenningu var fleygt fram í kjölfar hvarfsins að Valgeir hefði farið til útlanda undir fölsku nafni en sá möguleiki þótti langsóttur. Þannig hafi Valgeir ekki verið sterkefnaður og þá hafi verksummerki á heimili hans bent til þess að hann hefði farið skyndilega. Til dæmis hafi verið kveikt á sjónvarpi hans og ljós kveikt á heimili hans í íbúð, ofarlega á Laugaveginum. „Ég tel útilokað að hann hefði komist úr landi án hjálpar. Og ef það hefði gerst væri það ábyggilega komið í ljós við rannsóknina. Það gæti ekki farið svona leynt,“ sagði heimildarmaður Pressunnar. Eftir að Valgeir hvarf voru fjörur gengnar, eyjar á Sundunum kannaðar og staðir í Reykjavík sem blasa ekki við vegfarendum.

Faðir Valgeirs sagðist frá upphafi óttast það versta. Hann féll frá árið 2010 án þess að vita hver örlög sonar hans urðu.
Víðir Valgeirsson Faðir Valgeirs sagðist frá upphafi óttast það versta. Hann féll frá árið 2010 án þess að vita hver örlög sonar hans urðu.

Fjölmargir yfirheyrðir

Þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn sem fíkniefnadeild lögreglunnar tók meðal annars þátt í fannst Valgeir ekki. Fjölmargir voru yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins en aldrei voru haldbærar sannanir til að ákæra eða sakfella nokkurn mann. Faðir Valgeirs, Víðir, barðist fyrir því allt til dánardags að mál sonar hans yrði rannsakað betur. Lögreglan varð við þeirri ósk en tókst ekki að draga nýjar upplýsingar um málið fram í dagsljósið.

Nýjar upplýsingar berast

Í helgarblaði DV þann 12. maí 2001 var greint frá því að vitni sem lögreglan hefði rætt við hefðu sagt þeim að þeir hafi staðið að því að bana Valgeiri árið 1994. „Þeir tveir menn sem um er að ræða eru Íslendingur sem lögreglan freistaði að reyna að yfirheyra í Hollandi vegna Valgeirsmálsins í desember og félagi hans sem býr hér á landi. Báðir eiga sér sögu í fíkniefnamálum. Þrátt fyrir þessa vitnisburði eru þeir ekki nægt efni til að gefa út ákæru á hendur mönnunum, a.m.k. ef þeir neita sjálfir alfarið að hafa átt þátt í hvarfi Valgeirs. Annar þeirra hefur reyndar ekki verið yfirheyrður enn þá,“ sagði í frétt DV.

Erfitt mál í rannsókn

„Framburður eins eða fleiri aðila, jafnvel mjög margra, um að einhver hafi sagt sér eitthvað um ákveðinn verknað telst einungis rökstuddur grunur. Meira þarf til að verknaður sannist. Komi einhver fram og segist hafa verið á vettvangi og séð sjálfur þegar maðurinn var drepinn myndi sönnunin styrkjast mjög. Það sem gerir mál þetta erfiðara í rannsókn en önnur manndrápsmál er hve gamalt það er og ekkert lík hefur fundist þar sem t.a.m. væri hægt að greina áverka af mannavöldum,“ sagði enn fremur í frétt DV.

Átta þúsund ánamaðkar í ílátum í kjallaranum

Í fréttinni kom fram að Valgeir hefði verið að horfa á leik Rúmena og Kólumbíumanna í HM í Bandaríkjunum í fótbolta þegar einhver hafði samband við hann símleiðis.

„Húsráðendur sem leigðu íbúðina komu heim um nóttina en þá var enn kveikt á sjónvarpinu og teikning sém Valgeir var að gera lá á borðinu. Síðan kom Valgeir ekkert heim. Faðir hans, Viðir Valgeirsson vélstjóri, fór út á sjó á laugardagskvöldið. Þegar hann kom til baka nokkrum dögum síðar var fólk farið að verða mjög áhyggjufullt – ekkert hafði spurst til Valgeirs. Víðir fór þegar í stað í íbúðina á Laugavegi og sá þá hvernig umhorfs var,“ sagði í frétt DV og sagði faðir hans, Víðir, að hann hefði strax vitað að eitthvað dularfullt hefði átt sér stað.

Húsráðendur sem leigðu íbúðina komu heim um nóttina en þá var enn kveikt á sjónvarpinu og teikning sém Valgeir var að gera lá á borðinu.

„Um 8 þúsund ánamaðkar, sem Valgeir hafði tínt til að selja, lágu í ílátum niðri í kjallara hússins. Allt benti til að hann hefði ætlað að koma til baka eftir að hafa skroppið út. Víðir telur fullvíst að Valgeir hafi verið ginntur niður í bæ – sennilega niður að Lækjargötu – honum hafi verið sagt að menn sem skulduðu honum peninga ætluðu að greiða honum. Upplýsingar hafa borist um að menn hafi banað Valgeiri, sett hann í farangursgeymslu bifreiðar og ekið á brott. Oftast hefur verið nefnt að ekið hafi verið með hann austur fyrir fjall. A.m.k. tveir menn sem grunaðir eru í málinu segjast hafa að hluta til dvalið í sumarhúsi á Suðurlandi þessa helgi,“ sagði í frétt DV.

Annar mannanna sat í fangelsi í Hollandi

Lögreglan rannsakaði málið áfram en hafði aldrei beina þræði til að fara eftir. Lögregla fékk fjöldamargar ábendingar upp úr aldamótum. Árið 2000 var haldin minningarathöfn um Valgeir og þá komst málið á skrið aftur. Lögreglu bárust nýjar ábendingar og þá fyrst komu í raun fram vitnisburðir sem vísuðu á ákveðna aðila. Það voru þeir tveir menn sem vísað er í hér að framan.

Það voru til dæmis upplýsingar um hverjir eiga að hafa staðið að því að bana manninum og hvar líkið væri að finna.

„Það er í kringum aldamótin sem fara að koma upplýsingar af ýmsu tagi sem þótti ástæða til að skoða. Það voru til dæmis upplýsingar um hverjir eiga að hafa staðið að því að bana manninum og hvar líkið væri að finna. Það komu þarna fram nöfn sem áður höfðu heyrst og voru jafnvel í upphaflegu rannsóknina. Það var þarna nafn á manni sem var í kringum hinn horfna þarna strax fyrsta árið. Það var eitt sem gaf okkur ástæðu til að skoða þetta frekar,“ sagði Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri í þættinum Mannshvörf á Stöð 2 árið 2013.

Stungin til bana?

Lögregla fékk upplýsingar um að tveir menn hefðu tengst hvarfi Valgeirs, annar þeirra var í fangelsi í Hollandi þegar upplýsingarnar bárust. Báðir mennirnir voru þekktir í undirheimum Reykjavíkur og höfðu komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála. Valgeir þekkti mennina og hafði átt í samskiptum við þá vegna eiturlyfjaviðskipta þó umfang þeirra liggi ekki fyrir. Heimildarmaður lögreglu fullyrti að mennirnir, sem aldrei voru nafngreindir, hefðu komið að hvarfinu á Valgeiri. Valgeir hefði hitt mennina við bílakjallara í miðborg Reykjavíkur nóttina sem hann hvarf vegna skuldar sem Valgeir var að innheimta. Í bílageymslunni átti annar mannanna að hafa stungið Valgeir með hnífi og drepið hann þannig. Í þættinum Mannshvörf kom fram að mennirnir hefðu því næst átt að hafa sett líkið í skott bifreiðar sinnar og ekið með það austur fyrir fjall.

Neituðu báðir sök – dularfull örlög bifreiðar

Sem fyrr segir var annar mannanna í fangelsi í Hollandi á þessum tíma en hinn maðurinn var búsettur hér á landi. Sá var tekinn í yfirheyrslu hjá lögreglu í maí 2001 vegna gruns um aðild að hvarfi Valgeirs. Í maí 2002 kom hinn maðurinn heim frá Hollandi og var úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. „Það þótti ástæða til að skoða þetta. En það verður að segjast eins og er að við höfðum lítið annað heldur en orðróm um það og að sumu leyti býsna sannfærandi sögur um hvernig þetta gæti hafa gerst,“ sagði Hörður í Mannshvörfum. Báðir mennirnir neituðu sök.

Það var engin klæðning, bara bert járnið. Þannig að það var greinilegt að það hafði eitthvað verið átt við bílinn.

„Ein sagan var sú að þessir menn sem voru nafngreindir hefðu flutt líkið í tilteknum bíl sem annar þeirra átti,“ sagði Hörður en í ljós kom að mánuði eftir hvarfið á Valgeiri hefði annar mannanna selt bifreiðaverkstæði svarta bifreið, af gerðinni Chevrolet Caprice í sinni eigu til niðurrifs. Nafn beggja mannanna sem lágu undir grun í málinu var að finna á afsali bifreiðarinnar. „Það sem vakti grunsemdir okkar líka er að það vantaði alla innréttinguna í skottið. Það var engin klæðning, bara bert járnið. Þannig að það var greinilegt að það hafði eitthvað verið átt við bílinn,“ sagði Hörður en meðfylgjandi bifreið má sjá á myndinni hér til hliðar. Myndirnar voru teknar í tengslum við rannsókn lögreglu á öðru máli tengdu eigandanum. Eigandi bílaverkstæðisins sagði við lögreglu að hann hefði munað eftir umræddri bifreið en eigandi hans hefði viljað losna við hann því hann hefði verið farinn að ryðga. Bifreiðin stóð á bílaplani við verkstæðið í nokkra daga, eða allt þar til maður kom og rak á eftir því að bifreiðin yrði rifin niður. Bifreiðin hvarf og tókst lögreglu ekki að rannsaka hann.

Þetta er bifreiðin sem rannsókn lögreglu beindist að.
Chevrolet Caprice Þetta er bifreiðin sem rannsókn lögreglu beindist að.

Ráðgátan enn óleyst

„En hvað sem vitnin eru mörg og framburðirnir margir gildir það í rauninni einu á meðan enginn þeirra er beinlínis á þá leið að viðkomandi hafi séð einhvern eða einhverja fremja verknaðinn. Með öðrum orðum – vitnið þarf helst að hafa verið á vettvangi til að framburður þess teljist sönnun – ekki síst á meðan játningar liggja ekki fyrir og ekki er hægt að tengja hina grunuðu við verkna inn með beinum hætti, s.s. eins og með lífssýnum eða einhverju öðru. Og enn verra er þegar ekkert lík finnst,“ sagði í frétt DV þann 12. maí 2001.

Ráðgátan um örlög Valgeirs Víðissonar er því enn óleyst, 22 árum eftir hvarf hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Svipaður fjöldi smita
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Halldór segir að nú sé runnin upp örlagastund í Covid-19 faraldrinum – „Algjörlega óásættanlegasta niðurstaðan“

Halldór segir að nú sé runnin upp örlagastund í Covid-19 faraldrinum – „Algjörlega óásættanlegasta niðurstaðan“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þórólfur segir takmarkanir geta verið í gildi næstu ár – Vill aðgerðir eins fljótt og hægt er

Þórólfur segir takmarkanir geta verið í gildi næstu ár – Vill aðgerðir eins fljótt og hægt er
Fréttir
Í gær

COVID-19 – Hérna er allt það helsta sem kom fram á upplýsingafundinum – Þórólfur sendir frá sér minnisblað í dag

COVID-19 – Hérna er allt það helsta sem kom fram á upplýsingafundinum – Þórólfur sendir frá sér minnisblað í dag
Fréttir
Í gær

78 smit í gær

78 smit í gær
Fréttir
Í gær

Arnar kærir forstjóra ÁTVR

Arnar kærir forstjóra ÁTVR
Fréttir
Í gær

Kalt tískustríð: „Sárt að sjá“

Kalt tískustríð: „Sárt að sjá“