fbpx
Laugardagur 28.nóvember 2020

Líf Stefaníu breyttist fyrir sex árum: „Ég var svo hrædd um allt – aðallega hvort ég myndi lifa af“

Vynir.is
Miðvikudaginn 9. október 2019 11:30

Stefanía Hrund.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir sex árum síðan breyttist líf Stefaníu Hrundar Guðmundsdóttur. Stefanía er 21 árs gömul og búsett á Reyðarfirði. Hún skrifaði einlægan pistil á Vynir.is um afleiðingar kynferðisofbeldis og þær tilfinningar sem hún hefur upplifað í gegnum árin. Hún gaf Bleikt góðfúslegt leyfi til að deila pistlinum með lesendum. Við gefum henni orðið:

**TW** Þessi færsla er á persónulegri nótunum. Hún lýsir í grófum dráttum þeim tilfinningum sem ég hef upplifað eftir kynferðisbrot. Engar lýsingar á brotinu verða í textanum en afleiðingarnar geta verið triggerandi fyrir aðra. **TW**

Fyrir sex árum síðan, upp á dag breyttist allt. 4 október 2013 er dagur sem ég mun aldrei gleyma. Eins og þið sem hafði fylgst með Vynir.is í einhvern tíma vitið mögulega lenti ég í kynferðisbroti árið 2013. Ég skrifaði einlæga færslu í fyrra um þetta mál sem má sjá hér.

Ég er búin að hugsa það í töluverðan tíma hvort ég ætti að skrifa þessa færslu. Kannski les enginn þessa færslu – kannski les hana einhver. Kannski gerir hún ekkert gagn en kannski hjálpar hún einhverjum í sömu stöðu. Þetta EN varð til þess að ég ákvað að setjast og skrifa niður aðeins um þær tilfinningar sem ég hef upplifað. Það er nefnilega svoleiðis að eftir kynferðisbrot brjótast ótal tilfinningar um hjá brotaþola sem ALLAR eiga rétt á sér.

Mínar tilfinningar fyrstu daganna

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Á síðustu sex árum hef ég upplifað allan tilfinningaskalann. Kvöldið sem þetta gerðist fór ég í panikk ástand – sat og grét í marga klukkutíma. Á meðan á atburðinum sjálfum stóð fann ég ekki fyrir neinu nema hræðslu. Ég var svo hrædd um allt – aðallega hvort ég myndi lifa af. Daganna á eftir kom „grímu“ ástandið eins og ég vil gjarnan kalla það. Í þessu ástandi gerði ég allt til þess að fela það hvernig mér leið. Þarna var ég ekki búin að segja neinum frá þessu og mætti bara í skólann eins og ekkert hefði gerst.

Einn daginn gat ég ekki meir og brotnaði algjörlega niður fyrir framan vinkonu mína og sagði henni allt. Hún hvatti mig til að segja fjölskyldu minni þetta og þar með hófst ég get þetta ekki tilfinningin. Mér fannst ég ekki geta sagt fjölskyldu minni þetta, ekki getað mætt í skólann, ekki getað horft framan í neinn. Viku eftir brotið sagði ég bróðir mínum og kærustu hans og boltinn fór að rúlla. Morguninn eftir var ég mætt í skýrslutöku og allt því sem þessu fylgir og þá fann ég í fyrsta skipti fyrir ákveðnum léttir. Ég var ekki lengur ein að burðast með þetta – það vissu þetta fleiri.

Það sem kom síðan

Daginn sem ég fór í skýrslutöku var ég í fríi í skólanum enda fór allur dagurinn í þetta mál. Ég var svo gjörsamlega búin á því um kvöldið, borðaði kvöldmat og reyndi svo að fara sofa. Svefninn var þó frekar takmarkaður enda fór hausinn á fullt með endurupplifun af þessu örlagaríka kvöldi og ofhugsunum um hvernig framhaldið yrði. Næsta dag fór ég í skólann og ætlaði mér að láta sem ekkert væri, ég hélt að enginn myndi vita þetta nema ég og þeir sem ég sagði. Þar hafði ég rangt fyrir mér – ég var ekki komin inn í skólann þegar ókunnugir krakkar löbbuðu upp að mér og knúsuðu mig, spurðu mig út í þetta og sögðust vilja heyra mína hlið og eitthvað álíka.

Þarna fór ég í smá panikk – skildi ekki hvernig allir vissu þetta. Þennan dag (eins og marga aðra) þakkaði ég fyrir að eiga góðar vinkonur sem útbjuggu einhverskonar varnarvegg í kring um mig áður en ég drukknaði úr spurningum sem ég gat ekki svarað. Smám saman gleymdi fólk þessu og lífið hélt áfram – nema hjá mér. Ég vissi ekki hvernig mér ætti að líða, mér fannst ég alltaf óörugg, ég var hrædd, reið, sár, undrandi og bara tók allan tilfinningaskalann.

Biðin eftir réttlæti

Við tóku þrjú ár af allskonar tilfinningalegri flækju. Suma daga leið mér vel þegar ég vaknaði en fékk fljótlega samviskubit yfir að líða vel. Ég fékk nefnilega oft að heyra það frá fólki að brotið hefði ekki getað verið alvarlegt – annars væri ég ekki brosandi. Ég tók þetta mjög til mín á þessum tíma og fannst að kannski væri ég bara að gera of mikið úr þessu – ég gat jú stundum brosað svo kannski væri ekkert að mér.

Aðra daga gat ég ekki staðið upp úr rúminu, sumar nætur gat ég ekki sofnað og aðrar vaknaði ég upp með andköfum um miðja nótt því ég fékk svo mikið „flashback“ af atburðinum. Marga daga var ég grátandi í símanum við foreldra mína stóran part af degi, en þau bjuggu hinu megin á landinu á þessum tíma. Suma daga var ég ótrúlega reið og aðra bara sár.

Þessi þrjú ár voru mjög lengi að líða fannst mér, eiginlega endalaust. Þegar átti að koma að réttarhöldum gat lögfræðingur gerandans með ótrúlegum hætti fengið þeim frestað. Þessar óvæntu tafir settu mikið strik í reikninginn og á þessum tíma fékk ég tvö alvarleg taugaáföll. Réttarhöldin runnu upp og eftir þau fann ég fyrir ótta. Ég hafði enga stjórn á aðstæðum enda bara vitni í mínu eigin máli. Óvissa spratt upp. Það voru liðinn 3 ár síðan brotið átti sér stað og ég var ekki viss um að geta sagt allt orðrétt. Ég vissi að ég mundi eftir atburðinum alveg ljóslifandi – en gæti ég komið því frá mér?

Með hjálp lögfræðingsins míns tókst mér þó að komast í gegnum réttarhöldin og þá var bara að bíða.

Það truflaði mig mjög og ég vissi að biðin yrði erfið. Henni lauk svo nokkrum mánuðum seinna á annan veg en ég vonaðist.

Í dag – 6 árum seinna

Eftir að dómurinn var ljós tók ég mér eitt og hálft ár þar sem ég leyfði öllum tilfinningum að koma fram. Ég treysti mér ekki til þess að leita mér aðstoðar og reyndi því að díla við tilfiningaskalann ein og sér. Allt frá því að vera fjúkandi reið út í dómskerfið, lögregluna, hann og alla aðra yfir í að gráta yfir því hvað lífið væri óréttlátt.

Í byrjun árs 2018 leita ég mér aðstoðar hjá Stígamótum og ég vil meina að það hafi bjargað lífi mínu. Ég fór einnig til sálfræðings sem var æðislegt. Hún staðfesti grun minn um kvíða og þunglyndi en bætti því einnig við að ég væri með alvarlega áfallastreituröskun. Hjá þessum fagaðilum fékk ég loksins að heyra að allar þessar tilfinningar væru í lagi. Ég ætti rétt á að láta mér líða svona. Ég þyrfti ekki að skammast mín. Allt yrði í lagi á endanum.

Í dag 4.október 2019 tel ég mig vera á ágætum stað. Alla vegna mun betri en mér hefði nokkurn tímann grunað að ég yrði á.

Ég finn enn þá fyrir reiði – en ég læt hana ekki hafa dagleg áhrif á mig.

Ég er enn þá sár – en ég læt það ekki stoppa mig í að vera ég sjálf.

Ég er enn þá hrædd og mun örugglega alltaf verða.

Ég er óörugg.

Ég er lítil í mér.

Ég á ótrúlega erfitt suma daga – en það er allt í lagi.

Oft á ég æðislega daga – sem ég reyni að njóta.

Oft líður mér vel – sem ég skammast mín ekki fyrir.

Oftast næ ég að vona að hann hafi fengið þá hjálp sem hann þurfti.

Inn á milli tel ég mér trú um að allt verði í lagi.

Fyrir sex árum síðan

Fyrir sex árum síðan breyttist líf mitt.

Fyrir sex árum síðan byrjaði ég í tilfinningarússíbana sem á örugglega aldrei eftir að taka enda.

Fyrir sex árum síðan upplifði ég tilfinningar sem ég skammaðist mín fyrir.

Fyrir sex árum síðan vissi ég ekki hvort ég myndi verða ég sjálf aftur.

Fyrir sex árum síðan byrjaði nýr kafli í lífi mínu.

Málið er að ég var alltaf ég sjálf. Ég sá það bara ekki á þessum tíma.

Tilgangurinn með þessu bloggi

Nú eru ef til vill einhverjir sem velta fyrir sér af hverju ég er að skrifa þetta blogg. Ástæðan er sú að ég hef fylgst með baráttukonunni Þórdísi Elvu á Instagram í langan tíma. Undanfarið hef ég ekki mátt missa af neinu sem hún situr inn – einfaldlega af því að hún er mín fyrirmynd. Þórdís er ótrúleg baráttukona og hún hefur kennt mér að mér má líða eins og mér líður. Mínar tilfinningar eiga rétt á sér. Það var brotið á mér og ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir það hvernig mér líður.

Fyrir ykkur sem eruð ekki að fylgjast með Þórdísi Elvu mæli ég með að hlusta á TedTalkið sem hún og Tom héldu fyrir nokkrum árum síðan. Fyrirlesturinn er átakanlegur en að sama skapi mjög áhugavert að hlusta á. Þau gáfu einnig út bók sem heitir „Handan fyrirgefningar“ og færst hún hér. Ég mæli líka með því að fylgja henni á Instagram og sjá hvað þessi baráttukona er að brasa dagsdaglega (thordiselva)

Önnur ástæða fyrir því að ég skrifaði er að mig langar að sýna öðrum að tilfinningar eru eðlilegur hlutur. Við megum sýna tilfinningar og eigum ekki að skammast okkar fyrir þær.

Að lokum

Elsku lesandi ef að þú hefur orðið fyrir kynferðisbroti, áreitni eða öðru ofbeldi hvet ég þig til að tala um það. Þú getur talað við vinkonu/vin sem þú treystir, fjölskyldumeðlim, fagaðila eða lögregluna. Þú mátt vita að þú ert ekki ein/nn í þessu. Ég veit það getur verið erfitt að taka skrefið og tala um þetta – en það léttir rosalega á hjartanu.

Það skiptir ekki máli hvort þú ert að upplifa kvíða, þunglyndi, minnisleysi, ótta, reiði, sorg eða eitthvað annað. Tilfinningarnar eiga rétt á sér – mundu bara að þetta er ekki þér að kenna. Þú gerðir ekkert rangt. Þú berð ekki ábyrgð. Þú ert þolandinn – gerandinn ber ábyrgð á því sem hann gerði þér.

Ég vil að þú vitir að það er í lagi að vera sár eða reið/ur. Það er allt í lagi að vita ekki hvernig manni líður. Þetta eru eðlilegar tilfinningar. Ég vil hvetja þig til þess að tala um hlutinn sem gerðist, það er svo vont að loka allt inni og það bitnar helst á þeim sem okkur þykir vænt um og okkur sjálfum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Axel Freyr í Víking
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Tölur dagsins ekki nógu góðar og Víðir „drulluslappur“ – „Hann átti ekki góðan dag  í gær“

Tölur dagsins ekki nógu góðar og Víðir „drulluslappur“ – „Hann átti ekki góðan dag  í gær“
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ásmundur opnar sig um erfiða æsku- „Ég var einn heima og hafði ekki hug­mynd um hvar mamma var“

Ásmundur opnar sig um erfiða æsku- „Ég var einn heima og hafði ekki hug­mynd um hvar mamma var“
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Stórtækt jóladagatal Sólmundar og Viktoríu – „Það er enn möguleiki á að það takist“

Stórtækt jóladagatal Sólmundar og Viktoríu – „Það er enn möguleiki á að það takist“
Pressan
Fyrir 18 klukkutímum

Fangi myrti barnaníðing í fangelsinu – „Fullkomið réttlæti“

Fangi myrti barnaníðing í fangelsinu – „Fullkomið réttlæti“

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.