fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024

SAKAMÁL: Drap níðing sinn í Hafnarfirði

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 20. maí 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eina nótt á milli jóla og nýárs árið 1996 skaut ungur Hafnfirðingur Hlöðver S. Aðalsteinsson til bana við Krýsuvíkurveg. Þeir þekktust en höfðu ekki talast við lengi og atvikið var uppgjör vegna misnotkunar sem Hlöðver beitti hinn unga mann á árum áður, meðal annars við Krýsuvík.

 

Hringdi og hlóð haglabyssu

Laugardagskvöldið 28. desember árið 1996 bauð 25 ára gamall Hafnfirðingur vinum sínum heim í samkvæmi. Þar var drukkið og skemmt sér og einhver stakk upp á því að gera símaat í Hlöðveri S. Aðalsteinssyni, 55 ára, en hann var alræmdur í bænum og sagður eiga við unga stráka ásamt yngri bróður sínum, Árna. Nokkrir úr samkvæminu hringdu í hann og fífluðust og klukkan eitt um nóttina var haldið á skemmtistað.

Hafnfirðingurinn ungi varð mjög ölvaður þetta kvöld og þegar skemmtistaðnum var lokað gekk hann einn heim. Þar hringdi hann aftur í Hlöðver og bað hann að hitta sig. Klukkan fjögur um nóttina lagði Hlöðver af stað á bílnum sínum, hvítri Lödu Sport, og á meðan ungi maðurinn beið hlóð hann Remington-haglabyssu.

Ungi maðurinn var einn til frásagnar um þessa örlagaríku nótt. Það var hlýtt en slagveðursrigning þegar hann gekk út í bíl til Hlöðvers með hlaðna byssuna og settist í farþegasætið. Hann bað Hlöðver að aka suður úr bænum í átt að Krýsuvík og á afleggjaranum þar staðnæmdist bíllinn.

 

Hvarf særður út í svartnættið

Við afleggjarann barst talið að fortíðinni, nánar tiltekið tólf árum fyrr þegar Hlöðver hafði tælt hinn unga mann og vini hans með áfengi og tóbaki og misnotað þá í kjölfarið. Samkvæmt manninum var samtal þeirra rólegt og yfirvegað í byrjun en æstist svo þegar Hlöðver gerði lítið úr upplifun mannsins og falaðist eftir frekara samræði. Hann gekk út til að kasta af sér vatni og Hlöðver gekk út á eftir, mjög æstur.

Þá sneri maðurinn sér við og hleypti skoti af sem hæfði Hlöðver í hægri handlegginn, rétt ofan við olnboga. Hlöðver tók á rás og hljóp yfir götuna og faldi sig í svartnættinu bak við vegarbrún. Ungi maðurinn fór inn í Löduna og ók henni aftur í bæinn.

Rétt fyrir klukkan ellefu um morguninn fannst lík Hlöðvers, um þrjú hundruð metrum norðar á veginum. Tveir lögreglumenn og sjúkrabíll með lækni mættu á svæðið og var Hlöðver úrskurðaður látinn á staðnum. Æðar höfðu farið í sundur og blóðmissirinn svo mikill að hann fór í lost og síðan lést hann.

Sígarettustubbur á mælaborði

Sleppt úr haldi

Hlöðver var með símanúmerabirti þar sem sást að hringt hafði verið í hann af heimili unga mannsins um nóttina. Heima hjá Hlöðveri fannst blað þar sem á stóð nafn unga mannsins og símanúmer. Leit hófst að bifreiðinni sem fannst loks síðdegis bak við fiskverkunarhús við Herjólfsgötu í Hafnarfirði.

Rannsóknin beindist strax að unga manninum og var hann handtekinn samdægurs. Hann vísaði lögreglu á Remington-haglabyssuna en neitaði að hafa framkvæmt verknaðinn. Þá fannst önnur haglabyssa, rússnesk að gerð, við húsleit hjá honum og nokkur haglaskot. Dómari féllst hins vegar ekki á gæsluvarðhald og var manninum því sleppt. En lögreglan hafði hann þó enn grunaðan og rannsókn málsins miðaðist við það.

Lögreglan hafði ýmis gögn til rannsóknar. Í Lödunni fannst sígarettustubbur sem einhver hafði drepið í á mælaborðinu og var hann sendur út til Noregs til DNA-rannsóknar. Niðurstöðurnar sýndu að 99 prósent líkur væru á því að munnvatnið í stubbnum væri úr unga manninum. Á líki Hlöðvers fannst forhlað, innan úr haglabyssuskoti, sem rannsókn sýndi að passaði við Remington-byssuna. Þegar leyfi fékkst fyrir að skoða símhringingar sást að í níu skipti hafði verið hringt úr síma unga mannsins til Hlöðvers þessa nótt.

Forhlað úr halgaskoti

Játaði og sagði frá misnotkun

Að fengnum þessum gögnum var ungi maðurinn aftur handtekinn í febrúar og þá úrskurðaður í gæsluvarðhald. Líkt og áður þrætti hann fyrir verknaðinn en þegar hann fékk að sjá gögnin játaði hann aðild að málinu.

Þá sagðist hann hafa verið fórnarlamb Hlöðvers frá þrettán til fimmtán ára aldurs. Þetta hafi legið eins og mara á honum allar götur síðan og í desember hafi hann verið mjög langt niðri. Í nokkur skipti hafi hann ætlað að svipta sig lífi en líka hafi hann viljað mæta Hlöðveri og hræða hann. Þessa nótt hafi hann fengið taugaáfall og ákveðið að láta til skarar skríða. Hann sagði að enginn úr fjölskyldunni hefði vitað af misnotkuninni. En jafnframt að það hafi aldrei verið ætlun hans að drepa Hlöðver og ef einhver annar hefði verið ákærður fyrir drápið hefði hann stigið fram og játað. Daginn eftir hafi hann ekki einu sinni vitað að Hlöðver væri látinn og því hafi hann hringt í síma Hlöðvers úr sjoppu. Gögn staðfestu að sú hringing átti sér stað.

DV 13. nóvember 1992

Tældu drengi í tuttugu ár

Maðurinn var ákærður fyrir manndrápið á Hlöðveri og í júní var réttað yfir honum í Héraðsdómi Reykjaness. Þann 4. júní var atvikið sviðsett við Krýsuvíkurafleggjarann að viðstöddum dómurum, lögmönnum og ákærða. Í réttarhöldunum stigu einnig fram tvö vitni sem sögðust hafa orðið vitni að misnotkun Hlöðvers á honum. Það hefði átt sér stað í Krýsuvíkurhrauni, á heimili Hlöðvers við Álfaskeið 4 og við Hafnarfjarðarhöfn þar sem hann starfaði sem vaktmaður. Þeir tveir menn sem báru vitni sögðust báðir hafa verið misnotaðir af Hlöðveri og Árna og höfðu haldið því leyndu líkt og ungi maðurinn. Einnig vissu þeir um fleiri sem höfðu orðið fyrir barðinu á bræðrunum.

Lengi hafði verið vitað að mennirnir væru að eiga við unga drengi í Hafnarfirði. Foreldrar vöruðu börn sín við þeim og lögreglan var á varðbergi og bægði ungum drengjum frá höfninni. Engin kæra hafði birst fyrr en árið 1992 þegar móðir andlega fatlaðs drengs tók af skarið. Í frétt DV frá 13. nóvember það ár segir:

„Ég veit að þessir bræður eru búnir að stunda þetta í fjöldamörg ár. Hversu margir drengir hafa orðið fyrir barðinu á þeim veit ég ekki en ég vil vara foreldra við þeim. Svo virðist sem bræðurnir hafi stundað þá iðju að lokka drengi bæði um borð í skip í Hafnarfjarðarhöfn og á heimili sitt í gamla bænum í Hafnarfirði. Þar hafa þeir sýnt ungum drengjum klámmyndbönd, boðið upp á sælgæti, áfengi og tóbak og borgað fyrir samræði við þá.“

Álfaskeið 4, Pressan 19. nóvember 1992

Manndráp framið í geðshræringu

Eftir þetta virtist sem bræðurnir hafi hætt iðju sinni en margir voru sárir eftir þá, þar á meðal ungi maðurinn sem sagðist hafa fengið sting í magann í hvert sinn sem hann sá Hlöðver á höfninni.

Þann 26. júní var hann dæmdur til tíu ára fangelsisvistar, en einn dómarinn skilaði sérákvæði og vildi tólf ára refsivist. Töldu þeir ólíklegt að maðurinn hafi ætlað sér að myrða Hlöðver en hann hafi engu að síður mátt vita að svona gæti farið ef hann skyti í átt að honum með haglabyssu á nokkurra metra færi. Misnotkunin sem ungi maðurinn varð fyrir réttlætti ekki gjörðir hans en réðu engu að síður miklu um hugarástand hans. Var verknaðurinn talinn hafa verið framinn í geðshræringu og því ekki ítrustu refsiheimildum beitt. Árni lést þann 27. desember árið 1997.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Segir frá kjaftasögu sem gengur úr Vesturbænum – Áhugaverð ástæða þess að Óskar Hrafn tekur ekki við liðinu

Segir frá kjaftasögu sem gengur úr Vesturbænum – Áhugaverð ástæða þess að Óskar Hrafn tekur ekki við liðinu
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar tekur fleiri götur til sín

Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar tekur fleiri götur til sín
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Loka samfélagsmiðlum næsta mánuðinn

Loka samfélagsmiðlum næsta mánuðinn
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Kompany vill kaupa varnarmann Liverpool í sumar

Kompany vill kaupa varnarmann Liverpool í sumar
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Kveiktu bál og köstuðu fötum yngri barna í eldinn – „Honum er brugðið en bar sig vel“

Kveiktu bál og köstuðu fötum yngri barna í eldinn – „Honum er brugðið en bar sig vel“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Hausverkur Southgate – Lykilmaður veikur í dag og æfði ekki

Hausverkur Southgate – Lykilmaður veikur í dag og æfði ekki
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“