fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022

Sigmundur Ernir segir frá fimm uppáhalds bókunum sínum

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 14. nóvember 2020 17:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Ernir Rúnarsson les mikið á hverjum degi. Hann segist alæta á bækur, en er hrifnastur af ljóðum. Fyrsta bókin sem hann kláraði spjaldanna á milli var ljóðaúrval Davíðs Stefánssonar.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri Hringbrautar, fagnar 40 ára rithöfundarafmæli í ár með útgáfu ljóðabókarinnar Skáldaleyfi.

„Ég les feikilega mikið, blöð og bækur, alla daga og helst fram á nótt, en það er einkum að mín eigin skrif haldi mér frá lestri. Ég er alæta á bækur, en les þó helst ljóð, í talsvert ríkari mæli en skáldsögur – og er þess utan líka mjög hallur undir sagnfræði, landafræði og náttúrufræði, svo og þjóðlegan fróðleik.

Það segir kannski sitt að fyrsta bókin sem ég las og kláraði spjaldanna á milli, svo ég muni, var ljóðaúrval Davíðs Stefánssonar, sem Sigrún amma hvatti mig til að lesa svo ég ætti auðveldara með að tileinka mér hrynjandina, en hún var fyrsti lærimeistari minn í þeim efnum, réri mér í gráðið við eldhúsborðið svo ég fyndi taktinn.

Haustin eru náttúrlega uppskerutími lestrarhesta – og þá kemur sér vel að geta lesið líka í vinnunni, til að undirbúa viðtöl mín í sjónvarpinu – og þá reyni ég að komast yfir allt það helsta af ferskvörunni.“

Ljóð muna rödd

eftir Sigurð Pálsson

Útgáfuár: 2016

Hér yrkir Sigurður um grundvallaratriði lífsins: jörð, eld, loft og vatn, en líka raddir og skugga, ljós og myrkur, hvítar nætur og heilaga gleði. Hugarflugi og sköpunargleði er teflt af fullri einurð fram gegn valdi eyðingar og dauða og rödd ljóðsins ómar áfram í höfði lesanda lengi eftir lesturinn. Ljóð muna rödd er ein persónulegasta og áhrifamesta ljóðabók sem Sigurður Pálsson hefur sent frá sér.

Umsögn: Þessi bók er kórónan á rithöfundarferli Sigurðar heitins Pálssonar, sem ég dái og elska fyrir skrif sín af öllu tagi. Bókin fer ekki af náttborðinu mínu, enda fegurstu ljóðalok sem ég hef orðið vitni að.

Veröld sem var

eftir Stefan Sweig

Útgáfuár: 1958

Austurríski gyðingurinn Stefan Zweig hóf ritun sögunnar árið 1934 þegar uppgangur nasista var í algleymingi og útþensla Þriðja ríkisins ásamt víðtækum gyðingaofsóknum blöstu við öllum sem höfðu augun opin. Zweig flýði heimaland sitt og hélt til Englands og síðar Brasilíu. Þar lauk hann verkinu í febrúar 1942 og póstlagði handritið til útgefanda. Daginn eftir styttu Zweig-hjónin sér aldur, södd lífdaga í stríðshrjáðum heimi.

Umsögn: Áhrifaríkasta ævisaga sem skrifuð hefur verið og fangar tíðaranda um og upp úr aldamótunum 1900 með þvílíkum tilþrifum að maður situr orðlaus eftir. Ein besta bók allra tíma, punktur, basta.

Grænn varstu dalur

eftir Richard Llewellyn

Útgáfuár: 1949

Haukur Morgan elst upp í stórri námumannafjölskyldu í litlum dal í Wales. Í dalnum er hvorki lögregla né skóli en íbúarnir lifa eftir reglum Biblíunnar og refsa sjálfir hinum brotlegu. Á uppvaxtarárum Hauks verða miklar breytingar í dalnum. Verkfallsátök verða tíð og bræður hans boða breytta tíma.

Umsögn: Fáum, ef nokkrum, evrópskum höfundum hefur tekist að miðla hlutskipti alþýðufólks síðustu aldar á hrifnæmari máta en þessum velska ritjöfri. Maður hverfur inn í þessa bók.

 

Híbýli vindanna og Lífsins tré

eftir Böðvar Guðmundsson

Útgáfuár: 1995 og 1997

Í bókunum rekur Böðvar fjölskyldusögu vesturfarans Ólafs fíólíns og veitir lesendum einstaka innsýn í líf Íslendinga sem fluttust til Vesturheims á seinni hluta 19. aldar; störf þeirra og kjör, vonir og þrár. Persónurnar eru margar og litríkar, og saga þeirra er skrifuð af næmum skilningi og fölskvalausri samúð. Að baki frásögnunum liggur umfangsmikil heimildavinna og Íslandssagan lifnar við í þessu magnaða verki.

Umsögn: Áhrifaríkasti tvíleikur íslensks rithöfundar af Ólafi fíólín og öðrum vesturförum. Engar bækur hef ég átt erfiðara með að klára og leggja frá mér. Ég vildi ekki að þær kláruðust.

 

Farvegir

eftir Stefán Hörð Grímsson

Útgáfuár: 1981

Fjórða ljóðabók Stefáns sem er eitt af helstu ljóðskáldum okkar á 20. öld. Í auglýsingu um bókina þegar hún kom út sagði: „Lágróma fáorð list Stefáns verður lesandanum hugstæðari sem hann kynnist henni betur. Ljóðin gerast í kynlegum ljósaskiptum, kvikna til lífs á frjálsum vettvangi skynjunarinnar. Og leikur skáldsins að tíma og fjarlægðum er einatt heillandi í Farvegum.“

Umsögn: Hér er komin ein stysta ljóðabók íslensks skálds, en svo innihaldsrík og efnismikil að orðið galdrar fær nýja merkingu. Lýríkin í bókinni er með því fágaðasta sem ég hef kynnst.

 

Þessi umfjöllun birtist fyrst í helgarblaði DV 6. nóvember. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

„Hann þóttist ætla að hitta vini sína – En hann vissi ekki hvað ég vissi“

„Hann þóttist ætla að hitta vini sína – En hann vissi ekki hvað ég vissi“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Nýjasta stjarna Manchester United kom frá Svíþjóð og æfði með erkifjendunum – ,,Hann var ótrúlegur“

Nýjasta stjarna Manchester United kom frá Svíþjóð og æfði með erkifjendunum – ,,Hann var ótrúlegur“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Farbanni yfir Gylfa Þór framlengt fram yfir miðjan apríl

Farbanni yfir Gylfa Þór framlengt fram yfir miðjan apríl
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Þrátt fyrir tap gegn Manchester United í gær segist stjóri Brentford liðið hafa unnið – ,,Við gengum frá þeim“

Þrátt fyrir tap gegn Manchester United í gær segist stjóri Brentford liðið hafa unnið – ,,Við gengum frá þeim“
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Morðmálið sem skekur Ástralíu – Lík 9 ára stúlku fannst í olíutunnu

Morðmálið sem skekur Ástralíu – Lík 9 ára stúlku fannst í olíutunnu
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Biden reiknar með árás Rússa á Úkraínu – „Ég reikna með að hann ráðist inn, hann verður að gera eitthvað“

Biden reiknar með árás Rússa á Úkraínu – „Ég reikna með að hann ráðist inn, hann verður að gera eitthvað“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum
Hnífamaður í Kópavogi