fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025

Bryndís Schram skrifar um leikritið Hans Blær: Frægðarfríkið og hið forboðna

Ritstjórn DV
Föstudaginn 13. apríl 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bryndís Schram rýnir í leikritið Hans Blær sem Leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar sýnir í Tjarnarbíói.

Höfundur: Eiríkur Örn Norðdahl
Leikstjóri: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmynd, búningar og gervi: Brynja Björnsdóttir
Hljóð: Áslákur Ingvarsson
Lýsing: Arnþór Þórsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson
Vídeó: Roland Hamilton
Búningar: Enóla Ríkey Guðssending: Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson Sólveig Guðmundsdóttir Jörundur Ragnarsson Sara Marti Guðmundsdóttir Kjartan Darri Kjartansson


Frægðarfríkið og hið forboðna

Eiríkur Örn Norðdahl er sér á parti. Engum líkur. Hann hefur sýnt það í fyrri verkum sínum – jafnt í sögum sem ljóðum – að hann þorir, þegar aðrir þegja. Hann skirrist einskis, hlífir engu. Afhjúpar og ögrar með stæl. Ef þér er auðveldlega ofboðið, er kannski best að halda sig fjarri.

Höfundinum er nefnilega ekkert heilagt. Venjuviska og vanahugsun eru fyrstu fórnarlömb háðfuglsins. Ef það er í lagi þín vegna, þá skaltu láta slag standa og hlusta á það sem frægðarfríkið (nýyrði fyrir „media celebrity“) Hans Blær, hefur að segja við áhorfendur í Tjarnarbíói. Þetta er ósvikin skemmtun.

Háð og spott

Um hvað er þetta eiginlega? Háðsádeila – já, á síbylju rétttrúnaðarins, sem dynur á vitum okkar viðstöðulaust, daginn út og inn, ár eftir ár, á miðlunum og netinu. Án umhugsunar utan við gagnrýna hugsun. Þetta snýst allt um kyn. Kyngervi, kynvitund, kynskipti og annað kynlegt. En það er ekki allt sem sýnist bak við Blæ-vanginn. Hans Blær er hvorki hann né hún – eða er hann kannski bæði og? Úr þessu gervi getur hán – eins og það heitir – haft allt að háði og spotti.

Bókstaflega allt. Meira að segja Me-too-hreyfinguna líka. Herskarar kvenna „stíga fram“ í hundrað þúsund fréttatímum og bera vitni sem brotaþolar og fórnarlömb karlkynsins. Þetta er svo yfirþyrmandi, að það sækir að manni efi um, að samskipti kynjanna geti nokkurn tíma orðið með eðlilegum hætti hér eftir.

En hvað er eðlilegt? Hvað sagði ekki þjóðskáldið: „ … meðan lönd gyrðir sær og gumar girnast mær, gljár sól á hlíð“. Að eilífu, sumsé. Hljómar að vísu eins og aftan úr forneskju. Samt kom það einu sinni fram í fréttum, að franskar konur – meira að segja leikkonur eins og Catherine Deneuve – voru ekki alveg með á nótunum. Þær vildu meina, að karlmönnum ætti ekki að vera bannað að hrífast af konum – stíga í vænginn eða fara á fjörur við – eins og það var einhvern tíma orðað í rómantík fortíðarinnar. Í hinni hugljúfu kvikmynd Maríu Reyndal, Mannasiðum – sem sýnd var í sjónvarpinu um páskana – blasti við dálítið flóknari mynd af mannlífinu. Hún vakti jafnvel von um sátt og samlyndi.

Blær lætur hins vegar vaða: Má vera, að sumar Hollywood leikkonur hafi viljað leggja allt í sölurnar fyrir frægðina? Hið athyglissjúka frægðarfrík þekkir sitt heimafólk.

Út fyrir öll mörk velsæmis

Hán semur sig ekki að viðteknum siðum og venjum. Þegar hán beitir sér fyrir stofnun meðferðarheimilis fyrir fórnarlömb nauðgara, er það sagt gert í tilraunaskyni. Rödd fréttaþular segir svo, hvernig til tókst með tilraunina. Meðferðarheimilið snerist upp í kynlífsorgíu. Hvernig bregst hán við? Iðrandi syndaselur eða forhert frík? Við fáum fréttir af því undir lok sýningarinnar.

Fer þetta ekki út yfir öll mörk velsæmis? Jú, einmitt, það er punkturinn. Að sjokkera áhorfendur. Að hrista upp í þeim vanahugsunina, að rjúfa bannhelgina – tabúið. Hvað leynist á bak við hið slétta og fellda yfirborð? Þorum við að kynnast okkar innri manni? Þurfum við ekki sjokkþerapíu til að sjá í gegnum hræsni og helgislepju? Hvar eru mörk velsæmisins? Er það ekki bara sannleikurinn – afdráttarlaus og miskunnarlaus – sem gerir manninn frjálsan?

Þerapía ögrunarinnar

Það hvaflaði að mér, meðan sýningunni vatt fram – milli þess sem ég hló að ófyrirleitninni og ögruninni – að sýning af þessu tagi yrði vísast bönnuð af yfirvöldum, þar sem rétttrúnaðurinn ræður ríkjum. Ekki bara í Moskvu, heldur líka í Mumbæ og Marakesh. Meira að segja víða í löndum gömlu Evrópu. En ætli hún fengist ekki sýnd, að minnsta kosti í Berlín, í kjallaraleikhúsi á afviknum stað í hinni nýju höfuðborg Evrópu? Pussy Riot stelpurnar í Moskvu voru jú hér um árið sendar beint í gulagið.

Hvað með saksóknara ríkisins – ætli hann fylgist nokkuð með leikhúsinu? Varðar það ekki við lög að fara út fyrir mörk velsæmisins? Trúðnum leyfðist að vísu að segja sannleikann um hátign valdsins í Shakespeare. Kannski leikhúsinu sé frjálst að segja það sem bannað er í veruleikanum utandyra.

Hvað með leiksýninguna sem slíka? Hún var flott. Það á við um sviðsmyndina sjálfa og ljósatæknina, sem var mögnuð. Tónlist Ásláks Ingvarssonar var samboðin texta skáldsins. Leikararnir voru hver öðrum betri. Sýningin er stutt – 75 mínútur – og heldur athygli áhorfenda allan tímann. Við hlógum, þegar höfundurinn hitti í mark – eða gekk gersamlega fram af okkur. Ætli þetta sé ekki bara þerapía – eins konar heilun? Að þora að orða hið ósagða gerir manni gjarnan gott.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

„Ósýnileg“ bílastæðagjöld úrskurðuð ólögleg

„Ósýnileg“ bílastæðagjöld úrskurðuð ólögleg
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Luiz um framtíðina: ,,Erum í viðræðum við stjórnina“

Luiz um framtíðina: ,,Erum í viðræðum við stjórnina“
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Sakamál: Skelfileg aðkoma lögreglu eftir að nágrannar lýstu yfir áhyggjum af 69 ára konu

Sakamál: Skelfileg aðkoma lögreglu eftir að nágrannar lýstu yfir áhyggjum af 69 ára konu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ingibjörg svekkt eftir niðurstöðu kvöldsins: ,,Ég veit ekki hvað meira ég á að segja“

Ingibjörg svekkt eftir niðurstöðu kvöldsins: ,,Ég veit ekki hvað meira ég á að segja“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fékk þungan dóm fyrir að skjóta 3 vikna dóttur sína til bana með lásboga

Fékk þungan dóm fyrir að skjóta 3 vikna dóttur sína til bana með lásboga
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Stuðningsmenn Sviss brjálaðir út í íslensku stelpurnar – Myndband

Stuðningsmenn Sviss brjálaðir út í íslensku stelpurnar – Myndband
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Myndband: Gæsahúð í Bern þegar 2 þúsund Íslendingar sungu „Ég er kominn heim“

Myndband: Gæsahúð í Bern þegar 2 þúsund Íslendingar sungu „Ég er kominn heim“
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Líf eftir dauðann – Þegar þú deyrð veistu að þú ert dáinn

Líf eftir dauðann – Þegar þú deyrð veistu að þú ert dáinn